HÆSTIRÉTTUR ÍSLANDS VAR EKKI Í ENGLANDI.

Fyrrverandi formaður landskjörstjórnar mætti galvaskur í kastljósi kvöldsins og útskýrði sína sýn á úrskurði hæstaréttar um ógildingu kosninga til stjórnlagaþings.  Fórst honum vel, reyndar afburðavel.  Kom fram í máli Ástráðs að honum þætti mikillar strangtúlkunnar gæta í mati hæstaréttar og úrskurðinn óígrundaðan í heild sinni.  Í raun véfengdi hann dómgreind sexmenninganna sem ógiltu kosningarnar þó hann segði það ekki berum orðum.  Hæstiréttur er æðsta dómsstig þjóðarinnar og á að vera endanlegur.  Í honum kristallast siðferðisgrunnur þjóðarinnar, vizka og almannaheill.  Því er ógilding kosninga vegna ágalla sem ekki hafa áhrif á úrslitin á skjön við heilbrigða skynsemi, a.m.k. er það svo hjá öðrum þjóðum.   Hvers vegna var þessi leið farin þegar rétturinn gat hæglega farið aðra og rökréttari leið?  Hvers á þjóðin að gjalda?  Sagt er að virða beri niðurstöðu hæstaréttar, annað storki lýðræðinu.  En þegar úrskurður þessa æðstadóms ber einmitt þennan sama storkandi keim, hvað skal þá til bragðs taka?   Allt ber að sama brunni, jarðvegur kærendanna, jarðvegur dómendanna, ráðning dómendanna, viðbrögð þingmannanna sem réðu dómarana og afstaða þessa samkrulls alls til stjórnlagaþings, auðlindanýtingar og skiptingu landsins gæða.  Öll þessi atriði skýra vel orð forsætisráðherra sem kvað íhaldið skíthrætt við stjórnlagaþingið.   Sjálfur vil ég kalla úrskurð hæstaréttar útspil og hefur það svo sannarlega veikt trú mína á þessari stofnun sem endanlegu dómstigi þjóðarinnar.   Held mig ekki einan um það.
 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Fráleitt hjá þér, Lýður, absolutely fráleitt.

Ástráði fórst þetta svo afburða-illa, að með nýjum degi munu öll spjót standa á honum. Þá á ég við málefnagagnrýni-spjótin, hann verður sallaður niður með rökum, vesalings maðurinn. Hvernig datt honum þetta í hug, pólitískt skipuðum manninum, gömlum vopnabróður Ögmundar meðal allaballa, að fara að taka undir og reyna á örvæntingarfullan hátt að réttlæta það hvernig Ögmundur hefur vaðið yfir Hæstarétt með grófu orðagjálfri, sjálfur yfirmaður dómsmála í landinu?!

Svo reyndi Ástráður jafnvel að gefa í skyn að flest vestræn lýðræðisríki noti kjörseðla sem eru með persónurekjanlegum strikamerkjum og númerum (eins og hann hafði yfirumsjón með) !!! Eins og það sé það æðsta í persónuvernd og leynilegum kosningum!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

Vesalings, vesalings maðurinn ...

Og þetta er bara toppurinn á gaddfreðinni vitleysunni ...

Vaknaðu, maður.

Jón Valur Jensson, 1.2.2011 kl. 04:38

2 identicon

Ég er sammála þér Lýður eins og ég er ósammála JVJ.

Skrítið hvernig flokkapólitík er að koma inn í þetta. Var ekki svo áberandi fyrir kosningar.

Gudmundur Bjarnason (IP-tala skráð) 1.2.2011 kl. 06:42

3 Smámynd: Sigurður Jón Hreinsson

Sammála Lýð.

Ef þessar kosningar hafa verið ólöglegar vegna þess að þær hafi ekki verið leynilegar, hvað þá með allar aðrar kosningar a Ísland ??  PersónunjósnaFLokkurinn með sína fulltrúa við hlið kjörstjórna í öllum kosningum, með útsendara í velflestum fyrirtækjum á landinu fyrir utan símhleranir og fleira andlýðræðislegt.

Fyrir svo utan það að hvað segir það mér um nágranna minn, að hann hafi kosið 2237, 6538, 3876 og 8463  ??   Segir það ekki bara meira um mig, ef ég man hvað hann kaus ??

Sigurður Jón Hreinsson, 1.2.2011 kl. 06:46

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég heyrði því miður ekki viðtalið í kastljósinu, en tek að öðru leyti undi rmeð þér Lýður og fleiri hér,  álit mitt á hæstarétti hefur verið staðfest, þ.e. þessir menn eru ekkert annað en pólitískir varðhundar fyrir bákn sem kallast Sjálfstæðisflokkur og er ekkert annað en klíka sem þvi miður virðist afar erfitt að kveða niður, en er lífsnauðsyn fyrir okkur þjóðína ef við eigum að geta endurreist landið. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.2.2011 kl. 07:04

5 identicon

"Því er ógilding kosninga vegna ágalla sem ekki hafa áhrif á úrslitin á skjön við heilbrigða skynsemi, a.m.k. er það svo hjá öðrum þjóðum.  "

Hvaða öðrum þjóðum Lýður?  Hvaða aðrar þjóðir dæma ekki eftir lögum?  Ef þú ryðst áfram í handbolta er dæmdur á þig ruðningur, sama þótt þú eigir tækifæri á að verða heimsmeistari í þeirri sókn. Og hvers varðhundur ert þú?  Er það betri söfnuður?  Afhverju ekki bara að sætta sig við dómgæsluna og vanda til verka?  Ætluðum við ekki að gera það á Íslandi, var ekki talað um það?  Þú gengisfellir þig bara með svona skrifum.

Grétar (IP-tala skráð) 1.2.2011 kl. 08:59

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Sammála Grétari. Og Guðmundur Bjarnason ætti ekki að koma svona af fjöllum. Við hverju býst hann af fyrrv. tengdasyni og samherja Svavars Gestssonar öðru en pólitisku mati? Kemur honum í alvöru á óvart, að í sókn þess manns fyrir ósönnum málstað og til að réttlæta eigin gerðir, þrátt fyrir að hafa sagt af sér vegna þeirra, skuli hann ekki skirrast við að ráðast á sjálfan Hæstarétt? ... um leið og hann reynir að hamra á þeirri fráleitu tilgátu Ögmundar – settri fram í fullyrðingarformi – að ágallarnir hafi ekki haft nein áhrif á úrslitin.

Kosningin var EKKI leynileg, og þegar Sigurður Jón hér ofar veltir þessu betur fyrir sér, ætti hann að hugsa til þess, að hann lifir á nýrri tækniöld, sem svo vill til að gerir ákvæði almennra kosningalaga um leynd (m.a. að kjörseðill skuli brotinn saman og áritun haldið frá augum annarra) engu síður mikilvægt en áður, og hér er ég að vísa til þess, að vel er unnt að taka mynd af kjörseðli næsta manns, margir eru með myndavél í gemsanum! Almennu kosningalögin eru ekki með þessi varúðarákvæði út af engu.

Ásthildur ætti einfaldlega að lesa allan úrskurð Hæstaréttar, allan rökstuðninginn, og fræða okkur svo um það, hvar rökin standist ekki og hvar hún finni pólitík.

Jón Valur Jensson, 1.2.2011 kl. 11:09

7 Smámynd: Sigurður Ingólfsson

Sammála þér Lýður sem og auðvitað Ástráði. Þessi niðurstaða Hæstarréttar kallar á sterk viðbrögð. Auðvitað má segja að lögin um stjórnlagaþingið voru ekki skotheld eftir á séð en að ógilda landskosningar er móðgun við það lýðræði sem við höfum búið við og hreykjum okkur af. Ef ég væri í sporum þeirra sem hlutu kosningu á þingið myndi ég íhuga að áfría úrskurðinum til Mannréttindadómstóls Evrópu eða annars æðri dómstóls. Ef sá úrskurður gengi gegn úrskurði Hæstarréttar er erfitt að ímynda sér hneisuna sem við yrðum fyrir.

Sigurður Ingólfsson, 1.2.2011 kl. 11:34

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Jón hvaða stjórnvöld voru við völd þegar flestir dómarar voru ráðnir, margir umdeildir,   hvað um Jón Steinar góðan vin og spilafélaga forsætisráðhenna, hann   var ekki talinn hæfastur af umsækjendum, hvað með frændann sem var einna  vanhæfastur umsækjenda en var samt ráðin. 

Ég ætla mér ekki að lesa dóminn og allt það sem þar kemur fram, það er nefnilega hægt að færa allt í betri búning ef vilji er fyrir hendi.  Auðvitað gáfu stjórnvöld færi á  sér með illa undirbúnum lögum, en það er min skoðun að einmitt þessir menn hafi  ekki verið hæfir til að úrskurða í í þessu máli.  Til þess var setning þeirra inn í réttinn of umdeild.  Um   það snýst þessi deila nú, og vantraust fólks á dómurum og Hæstarétti í heild.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.2.2011 kl. 11:37

9 identicon

Jón Valur...    Í þessu máli finnst mér hæstiréttur hafa túlkað hlutina svo mjög á annan veginn að tilefni er til að véfengja niðurstöðuna.  Og það ekki sízt í ljósi umgjarðarinnar.    Eftir allt hringlið í þessu samfélagi er ég hættur að gleypa allt hrátt og virða gagnrýnislaust útkomur sem mér finnst athugaverðar.  Er ekkert viss um að betra sé að vakna til þess heims sem þú lýsir. 

Og, Grétar...  Aðrar þjóðir hafa lent í framkvæmdagöllum kosninga en þó komist að skynsamlegri niðurstöðu.  Hvað ruðning varðar er oft umdeilanlegt hvort aukakastið sé ekki nærtækara en allt svona er háð mati og í þetta sinn finnst mér þjóðin þurfa að þola harðan skell vegna rangrar dómgæzlu.  Ég er svo enginn varðhundur né tilheyri neinum söfnuði nema þjóðinni,.  Var hinsvegar á árum áður í söfnuði sem kenndi sig við sjálfstæði og þó hann hefði ekkert með slíkt að gera. 

Lydurarnason (IP-tala skráð) 1.2.2011 kl. 11:38

10 Smámynd: Jón Valur Jensson

Sigurður minn, þessi úrskurður Hæstaréttar er til hneisu fyrir bæði löggjafar- og framkvæmdavaldið, ekki dómsvaldið, sem dæmir eftir lögunum. Þótt ótrúlegt sé, fylgdi löggjöfin þarna sérstöku mynstri Icesave-stjórnarinnar, sem kallast má réttilega flumbrugangsmynztrið. HÉR! má t.d. finna (almenna og sérstæka) gagnrýni lögfræðings á það mynztur, í öðru samhengi, en ég hef margsinnis neyðzt til að gagnrýna stjórnvöld vegna óvandaðrar löggjafar, sem einkennist af þessum flýti og flumbrugangi, í margs konar málum, og má þar nefna, framar öðru, ESB-vitleysuna (þvert gegn stjórnarskrá og eiðstaf þingmanna), Icesave-ósómann (þvert gegn 77. gr. stjórnarskrárinnar, ESB-lögum og EES-jafnræðisreglum, því að 3,3% vextir eru meira en þrefalt ólöglegir) og Magmaruglinu (þvert gegn anda laga vorra), en einnig má nefna staðgöngumæðrunar-þarfleysumálið hagsmunatengda og ýmsa löggjöf um samkynhneigða. Fum og fát og ofurflýtir virðast vera einkenni á flestu hjá þessari stjórn, að því slepptu að slá skjaldborg um heimilin í landinu.

Vigdís Hauksdóttir alþm., sem einnig er lögfræðingur, hefur ennfremur gagnrýnt óvandaða löggjöf Alþingis ítrekað hin síðari ár.

"Þessi niðurstaða Hæstarréttar kallar á sterk viðbrögð," segirðu. Hvaða "sterku viðbrögð" áttu við – eitthvað sem við yrðum fullsæmd af erlendis?

"... margir umdeildir" dómarar, sem skipaðir voru af D-lista-ráðherrum, segir Ásthildur, en ég minnist þess ekki, að það standist nema um tvo hæstaréttardómara, og annar þeirra (Ólafur Börkur Þorvaldsson) var ekki í þessum dómi um stjórnlagaþing. "... hvað um Jón Steinar góðan vin og spilafélaga forsætisráðherra, hann var ekki talinn hæfastur af umsækjendum," segirðu. – Jæja, hver var talinn hæfari? Það er ennfremur furðulegt ástand á stétt starfandi málafærslumanna (hrl. í þessu tilfelli), ef enginn þeirra er vel hæfur til dómstólasetu, jafnvel ekki hinn eftirsóttasti og hæst launaði þeirra, maður sem jafnframt hafði nokkra kennslureynslu í sinni grein og skrifað mikilvægar fræðibækur í greininni. Þessi maður heitir Jón Steinar Gunnlaugsson.

Ég hef sjálfur gagnrýnt (og ekki linlega né bara einu sinni eða tvisvar) veitingu dómaraembættis, þ.e. sonar Davíðs í Héraðsdóm Norðurlands eystra. Ég verð því ekki sakaður um einhverja meðvirkni hér með Davíðsmönnum, og ég tek fram, að ég sá fulla, málefnalega rökstudda ástæðu til skipunar Ólafs Barkar, andstætt áherzlu vinstri manna á Hjördísi Hákonardóttur.

Jón Valur Jensson, 1.2.2011 kl. 14:09

11 Smámynd: Jón Valur Jensson

Lýður, hefurðu legið lengi yfir hinum rökstudda úrskurði Hæstaréttar í málinu, eða ertu að endurtaka eitthvað sem þú hefur heyrt aðra segja?

Hvaða klausur eða setningar sýnast þér vitlausastar í dómnum?

Jón Valur Jensson, 1.2.2011 kl. 14:13

12 identicon

Sæll, Jón Valur.  Hef kynnt mér dóminn persónulega og einnig hlustað á fræðimenn sem almenning.  Varðandi fyrsta kæruatriðið um númer kjörseðlanna er fræðilega hægt að rekja kjörseðil en til þess þarf mikla athyglisgáfu eða samsæri.  Einnig má spyrja hvaða hagsmuni ætti fólk að hafa af slíku?  Ágallar sem snúa að framkvæmd eins og samanbroti kjörseðla, kjörkössum og skilrúmum eru að mínu viti smávægilegir enda er klásúla í lögum um kosningar um stjórnlagaþing sem segir að notast eigi við lög um framkvæmd alþingiskosninga svo lengi sem það á við.  Með þessu er kjörstjórn stjórnlagaþings heimilt að víkja frá í einstaka framkvæmdaatriði vegna eðli þessara kosninga sem og fjölda frambjóðenda.  Síðasta ákæruatriðið finnst mér sjálfdautt enda hvergi fram komið að um svindl hafi verið að ræða.  Einfaldast hefði því verið að telja aftur. 

Hæstiréttur lét ekki rannsaka hvort einhver meinbuganna hafi einhversstaðar haft sannanleg áhrif.  Hann notar almennt orðalag í rökstuðningi sínum, jafnvel fullyrðingar sem stangast á við umsagnir reyndra kjörstjórnarmanna.  Það versta er þó að hæstiréttur notfærir sér vísun í lög um alþingiskosningar þegar hentar en hafnar því í meginatriði málsins sem er klásúla í kosningalögum sem segir að ekki skuli ógilda kosningar vegna ágalla nema þeir hafi haft áhrif á niðurstöðu kosninganna. 

Álit mitt er því það að þessi ógilding hæstaréttar er veikbyggð lögfræðilega og úrskurður sexmenninganna á skjön við almenna skynsemi sem og þjóðarhag. 

lydurarnason (IP-tala skráð) 1.2.2011 kl. 15:17

13 Smámynd: Jón Valur Jensson

Já, það þarf vitaskuld athyglisgáfu og samsæri til þess að njósna um afstöðu manna í kosningum – hvað annað?! Og auðvitað væri það gert til að þjóna einhverjum hagsmunum, hvað annað? Segðu mér svo, hvers vegna mátti ekki brjóta seðlana saman? – Af því að þá gat strikamerkingin skemmzt! Þeir vildu hafa hana aðgengilega, ergo var hún þeim mikilvæg. Einhverjir vildu geta haft aðgang að þessum upplýsingum, og hugsaðu nú.

Ekki ertu í neinni aðstöðu til að álykta um þessa ógildingu hæstaréttar sem "veikbyggða lögfræðilega" Mundu líka, að það sem getur gerzt (t.d. í yfir 80.000 tilvikum), gerist. Það kom nú til að mynda eitt dæmi fram undir lok þáttar Pétus Gunnlaugssonar fyrir kl. 12 í dag, þ.e. um mann sem á kjörstað – já, í pappahólfinu! – gat ráðfært sig við konu sína við hliðina og fengið hana til að segja sér ýmis númer til að kjósa. Við þessu amaðist enginn, sennilega ekkert eftirlit verið, en þetta er einmitt það, sem getur gerzt, þegar engir eru kjörklefarnir. En þetta athæfi er ekki lögmætt, og sökin er samt í rótinni þeirra, sem áttu að annast skipulagningu framkvæmdarinnar og gerðu það allt ýmist með vettlingatökum eða með handabökunum.

Og hvað segir svo Ögmundur við þessu? Nú getur hann sagt sitt álit og vonandi haft síðan vit á því að segja ekki meira um þessi mál.

Þessi þáttur á Ú.S. verður endurtekinn í kvöld; ég hygg að þessa atriðis megi vænta þar í kringum kl. 19.45 eða upp úr því.

Jón Valur Jensson, 1.2.2011 kl. 16:01

14 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Þegar kosningar eru leynilegar er það á ábyrgð okkar kjósenda að halda því leyndu hvað við kjósum. Á kjörstað er áróður ekki leyfður. Dæmið, sem Jón nefnir, er því út í hött og algjörlega ósannað að viðkomandi hafi brotið kosningalögin úr því að enginn er til frásagnar nema hann sjálfur. En nú vilja margir láta kjósa rafrænt heima hjá sér. Yrði sú kosning leynileg? Gæti ekki Jón og maðurinn á útvarpi Sögu gægst yfir margar axlir og ráðfært sig við hvern sem væri ef farið yrði að kjósa í kartöflugörðunum heima?

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 1.2.2011 kl. 16:55

15 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Einhvernveginn finnst mér að þessi gjörð hæstaréttar muni springa framan í andlitið á Sjálfstæðísflokknum, og nú kemur Bjarni Ben og býðst til að leggja stjórninni lið við að klára dæmið á alþingi.   Ég gæti ælt.  Var þetta alla tíð plottið?  að ógilda kosningarnar með vinum sínum í hæstarétti og koma svo eftir á og bjóðast til að laga málin.  Hvað hafa Sjálfstæðísmenn verið lengi við völd og hversu miklu hafa þeir áorkað til að breyta einu eða neinu.  Nei nú er mál að linni.  Það þarf virkilega að hreinsa til, ekki bara hjá Sjálfstæðisflokknum, heldur öllum fjórflokknum eins og hann leggur sig, byrja með hreint borð.  Auðvitað reyna Sjálfstæðismenn að bera í bætifláka fyrir flokkinn sinn, það hafa þeir alla tíð gert, nema þegar þeir hafa verið uppteknir að hneygja höfuð sín í átt að foringjanum, græða á daginn og grilla á kvöldin. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.2.2011 kl. 17:06

16 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ásthildur, þetta eru hæstaréttardómarar, ekki meðlimir Sjálfstæðisflokksins.

Benedikt, ég hef ekki mælt með rafrænni heimakosningu.

Jón Valur Jensson, 1.2.2011 kl. 17:30

17 Smámynd: Atli Hermannsson.

Ástráður Haraldsson var aldeilis sérlaga flottur í Kastljósinu. Ég vildi svo sannarlega að við hefðum fleiri í stjórnsýslunni af hans kaliberi. Hann kom, sá og át allar röksemdafærslurnar sem Hæstiréttur hafði lagt sig fram við að sniffa upp í áliti sínu. 

Atli Hermannsson., 1.2.2011 kl. 17:45

18 Smámynd: Sigurður Ingólfsson

Viðbrögðin sem ég á við JVJ er að Alþingi sem er upphaf ákvörðunnar og lagarammans um stjórnlagaþingið finni lausn á þessu máli sem allra fyrst. Fyrir mína parta er ekki inn í myndinni að kjósa öðru sinni. Svo veik lagalega voru rök Hæstaréttar fyrir ógildingu kosninganna,samanber rökfærslu Ástráðs í Kastljósinu.

Sigurður Ingólfsson, 1.2.2011 kl. 18:00

19 Smámynd: Jón Valur Jensson

Einfaldur virðist þinn þankagangur, Atli Hermannsson; ekki ertu vandlátur.

Sigurður, þú veizt það væntalega, að kjörbréf hinna 25, sem töldu sig kjörna, eru ÓGILD og það m.a.s. viðurkennt af þeirri landskjörstjórn sem sagði svo af sér.

Það eru því engir með gilda pappíra til vinnunnar á stjórnlagaþingi, og engin sátt yrði um að skipa þessa 25 með einhverri tilskipun ríkisstjórnarnefnunnar (þeirrar sem nýtur 25% fylgis nú um stundir) eða naumum meirihuta þingmanna. Við verðum einfaldlega að endurtaka kosninguna, en gera það í þetta sinn með mannsæmandi hætti.

Og af því að þið talið hér um pólitískt skipaða dómara, þá er rétt að benda ykkur á, að Ástráður var sjálfur pólitískt skipaður. fyrir 23 mánuðum, hann var maður vinstri flokkanna ... Á hann svo að vera æðsti dómari yfir Hæstarétti Íslands, afsagður maðurinn? (sagði reyndar af sér sjálfur).

Jón Valur Jensson, 1.2.2011 kl. 18:10

20 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég þori að veðja að þessir menn eru allir flokksbundnir sjálfstæðismenn, eða alla vega hafa kosið sjálfstæðísflokkinn alla sína hunds og kattartíð.  Af einhverjum ástæðum fengu þeir stöðu sína þar.  Þar virðist ekki hafa verið farið eftir hæfni eða slíku, heldur er það mitt mat að þar hafi flokkskírteinið ráðið gjörð. 

Hvernig væri að taka leppana aðeins frá augunum við blinda flokksþjónkun. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.2.2011 kl. 18:18

21 identicon

afhverju bendir fólk ekki á einhverja dóma máli sínu til stuðnings fyrst þeir halda eða vilja meina að flokkshagsmunir ráði niðurstöðum Hæstaréttar. Einnig getur einhver hér útilokað það að það hafi verið átt við kjörgögn,eða að kosning hafi ekki verið leynileg í öllum tilvikum? Lögin eiga að koma í veg fyrir allan slíka vafa.

Einnig bendi ég fólki á þessar fréttir:

http://mbl.is/frettir/innlent/2011/02/01/enginn_veit_um_ahrif_agalla/ 

http://www.visir.is/forseti-lagadeildar-sammala-haestaretti/article/2011940833060

Haraldur Haraldsson (IP-tala skráð) 1.2.2011 kl. 20:18

22 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já ertu að tala um þetta ef til vill.

http://www.ruv.is/frett/hefdi-att-ad-sinna-rannsoknarskyldu

eða þá þetta? 

1.       http://www.ruv.is/frett/ogilding-haestarettar-til-domstola

Það eru nefnilega margir fletir á þessu máli og sitt sýnist hverjum.  Ég hef mínar skoðanir og merkilegt nokk, þá fara þær ansi oft saman við þjóðarsálina hverju sinni.  En ég get ekkert annað en haldið fram þeim skoðunum sem ég hef, og núna þegar mest ríður á að verja land og þjóð, þá má fjandinn eiga mig ef ég reyni ekki að koma mínum skoðunum á framfæri, þar sem ég tel þær fyrst og fremst þjóðhagslegar og til betra lífs fyrir Ísland. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.2.2011 kl. 21:54

23 identicon

Mér finnst ótrúlegt að manneskja geti fullyrt það að sínnar skoðanir fari oft saman við þjóðarsálina.

Þá vil ég benda þér á að það var ekki nema um 36% sem kusu í þessum kosningum.

Er það þjóðarsálin? 

Þetta "stjórnlagaþing" er algjörlega óþarft, enda hefur það ekkert vald og er einungis ráðgefandi.

Hvað varða kosningarnar þá voru þær svo meingallaðar og það segi ég þar sem ég starfaði í hverfiskjörstjórn og sá hversu margir annmarkar voru á þessum kosningum.

Það getur enginn fullyrt að ekki hafi verið átt við kjörgögn eða að kosningarnar hafi verið algjörlega leynilegar. 

Haraldur Haraldsson (IP-tala skráð) 1.2.2011 kl. 22:07

24 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég er að tala úr frá mér Haraldur.  Og ég tel að þessi þátttaka einkennist af því að fólki féllust hendur að takast á við svona mikinn fjölda frambjóðenda.  Það hefði mátt auglýsa betur að fólk þurfti ekki að raða niður 25 frambjóðendum, heldur gat farið og kosið einn eða nokkra.  Þær voru ekki meira meingallaðar en það að engar mótbárur komu fram fyrr en úrslit lágu fyrir.  Þegar Sjálfstæðísmenn áttuðu sig á því að bréfið sem þeir sendu út hafði ekki erindi sem erfiði, og þeir komu ekki sínu fólki að, eins og þeir ætluðu sér.  Þá var hlutunum snarlega snúið við.  Mér er alveg sama hvað þú segir Halldór Halldórsson þá snýr þetta svona við mér.  Og mín sýn á málið eru alveg eins góð og þín.  Þannig er það bara. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.2.2011 kl. 22:53

25 identicon

Enda gátu engar mótbárur komið fyrr en kosningum var lokið. Þannig virkar kosningarkerfið.

Afhverju kærir þú ekki úrskurð Hæstaréttar eða einhver sem telur hann rangan?

Sé ég ekki hvað það máli skiptir hvort sjálfstæðismenn hafi verið á móti þessu eða ekki. Kosningarnar voru úrskurðaðar ógildar og það réttilega vegna þeirra miklu annmarka sem á þeim voru.

Ef þetta er svona mikið mál fyrir stjórnvöld afhverju fara þau þá ekki að vinna að nýrri stjskr.? Þau hafa hugmyndir 1000 íslendinga frá þjóðfundinum og útfrá þeim er hægt að vinna.

Varst þú á kjörstað allan þann tíma sem hann var opinn? 

Tókst þú við einhverjum ábendingum um galla á kosningunum?

Enn og aftur getur þú fullyrt að þessir annmarkar hafi ekki getað haft áhrif á kosningarnar?

Hvað hefurðu fyrir þér að Hæstiréttur sé eins og þú segir : "þessir menn eru ekkert annað en pólitískir varðhundar fyrir bákn sem kallast Sjálfstæðisflokkur og er ekkert annað en klíka sem þvi miður virðist afar erfitt að kveða niður, en er lífsnauðsyn fyrir okkur þjóðína ef við eigum að geta endurreist landið."?

Geturðu bent á einhverja dóma máli þínu til stuðnings?

Ps. Ég heiti Haraldur

Haraldur Haraldsson (IP-tala skráð) 1.2.2011 kl. 23:04

26 identicon

Ásthildur þú segir:"en það er min skoðun að einmitt þessir menn hafi  ekki verið hæfir til að úrskurða í í þessu máli.Til þess var setning þeirra inn í réttinn of umdeild.  Um   það snýst þessi deila nú, og vantraust fólks á dómurum og Hæstarétti í heild"

Á hverju byggirðu þessa skoðun? 

Afhverju fyrst allir telja þessa dómara vanhæfa, afhverju var ekki farið fram á það áður en Hr. tók málið til skoðunnar að þeir lýstu sig vanhæfa? Það vissu allir fyrirfram hverjir myndu dæma.

Afhverju koma menn núna þegar úrskurður liggur fyrir og vilja meina að dómararnir hafi verið vanhæfir? Afhverju var það ekki gert áður?

Þetta er svo fáránlegur málatilbúnaður og á engum rökum reistur nema tilfinningum einhverra manna út í bæ!!

Haraldur Haraldsson (IP-tala skráð) 1.2.2011 kl. 23:20

27 identicon

Varðandi aðra furðulega dóma bendi ég á dóm héraðsdóms í Vatnseyrarmálinu en honum sneri hæstiréttur og Ísland fékk svo á sig álit mannréttindanefndar sameinuðu þjóðanna.  Samantekið finnst mér hæstiréttur nú hafa fellt úrskurð gegn lýðræðinu en ekki með því.  Formgallar eru í flestum kosningum og yrði smásmuguháttur eins og sumir hér vilja hafður að leiðarljósi er engin gild kosning til í heiminum.  Í hnotskurn var hér eyðilagt þjóðþrifamál en vonandi bara um stundarsakir.   Og að treysta alþingi fyrir nýrri stjórnarskrá er eins og að treysta ketti fyrir mús.

LÁ 

lydurarnason (IP-tala skráð) 1.2.2011 kl. 23:21

28 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Fyrirgefðu Haraldur að ég misfór með nafnið þitt. Hverum manni ber að hafa í heiðri nafn þess sem maður ræðir við.  Ég gef mér bara sjálf það álit sem ég hef.  Það byggist fyrst og fremt á tilfinningum mínum, en er svo staðfest af því sem ég les og aðrir koma fram með sem mér finnst segja það sem ég  er að hugsa.  þannig er ég bara.  Og ég get sagt þér að ansi oft hef ég rétt fyrir mér, ef menn hefðu lesið það sem ég hef sett fram í gegn um tíðina, þá hefur það oftar en ekki reynst vera nákvæmlega það sem mínar tilfinnigar hafa verið.  Ég er ekki að biðja neinn að taka upp þær skoðanir sem ég hef, ég er einungis að túlka það sem mér finnst vera tilfellið.  Hvernig gæti það annars verið.  Ég hlýt að segja hlutina eins og þeir eru frá mínu brjósti.  Og veistu að stundum þvælast fyrir manni lagabókstafir eða uppskrúfuð orð, eða bara eitthva fjas um það sem skiptir ekki máli.  Sannleikurinn kemur alltaf í ljós fyrr en seinna, og þá getur verið erfitt fyrir suma að horfast í augu við hann, mig auðvitað líka, en þangað til ætla ég mér að halda í það sem mér finnst sjálfri. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.2.2011 kl. 23:27

29 identicon

Að hvaða leiti var vatneyradómurinn rangur?

Það var einmitt það sem Hr. gerði það var að vernda lýðræðið á Íslandi og ekki skapa fordæmi.

Svo er það Alþingi sem kemur til með að setja nýja stjskr. en ekki stjórnlagaþingið.

Haraldur Haraldsson (IP-tala skráð) 1.2.2011 kl. 23:32

30 identicon

Dómar eru aldrei beinlínis rangir heldur háðir einhverskonar mati.  Vatneyrardóminn tel ég hafa gengið gegn jafnræðisreglu þegnanna og þannig aðhallandi þrönghagsmunum en ekki almannahagsmunum.  Ljóst er að okkar sýn fer ekki saman um lýðræði og endurspeglar afstöðumunur okkar varðandi samningu nýrrrar stjórnarskrár það vel.  Leyfum okkur því að vera ósammála, Haraldur, í því er pínulítill lýðræðislegur samhljómur, þrátt fyrir allt.

lydurarnason (IP-tala skráð) 2.2.2011 kl. 00:00

31 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þegar niðurstaða dóms liggur fyrir, er það ávalt svo að annar þolandi dómsins er ánægður en hinn óánægður.

Það er hrollvekjandi í þessu tilviki, að hinir óánægðu skuli bera brigður á heilindi 8 af 9 dómara Hæstaréttar. Þetta lið virðist vilja blóðuga byltingu, fyrr verður það ekki ánægt.

Gunnar Th. Gunnarsson, 2.2.2011 kl. 00:05

32 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það þarf allavega byltingu Gunnar svona getur þetta einfaldlega ekki gengið, það hefur nefnilega verið vitlaust gefið.  Og ég sem er svona í prinsippinu friðsemdar manneskja er alveg tilbúin í að fara út á götu og krefjast þess að þessi fjórflokkur fari frá og gefi okkur frítt spil að koma á Nýju Íslandi, ykkar tími er einfaldlega liðinn þannig er það baraþ

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 2.2.2011 kl. 00:20

33 Smámynd: Lýður Árnason

Sammála Ásthildi, byltingu að blóðinu slepptu þarf til og vonandi tekst að moka frá þessum sérhagsmunaöflum í næstu alþingiskosningum.

Lýður Árnason, 2.2.2011 kl. 00:35

34 Smámynd: Jón Valur Jensson

Er það rökræn afstaða hjá þér, Ásthildur, að veðja bara á þína eigin veðmálslöngun? Hvernig getur nokkur vitræn niðurstaða komið út úr svona fordómaspuna?

Jón Valur Jensson, 2.2.2011 kl. 03:26

35 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Með fullri virðingu Jón Valur þá ættir þú manna síst að tala um fordóma hjá öðrum.  Þetta er mín skoðun og það hefur ekkert komið fram fyrir mín augu sem breytir henni.  Mér þykir það leitt, en í mörg ár hef ég fylgst með pólitík og var einu sinni í Sjálfstæðisflokknum meira að segja.  Vinnubrögðin þar eru kveikjan að vantrú minni á alla þá menn sem verja og vernda klíkuna sem þar ræður ríkjum.  Það má vera eitthvað mikið til að sannfæra mig um að fólkið sem hér um ræðir hugsi fyrst og fremst um þjóðina en ekki flokkinn.  Ég sá um daginn ummæli frá Bjarna Benediktssyni um einmitt þetta, þar sem hann settir flokkshagsmuni fram yfir þjóðarhagsmuni, reyndar átti þetta plagg ekki að koma fyrir almenningssjónir, en var lekið út ásamt fleira lítt fýsilegu.  Ég hef líka séð þórðargleðina hjá þingmönnum sjálfstæðisflokksins í ræðustól þegar ljós var úrskurður hæstaréttar.  Það voru enginn vonbrigði eða áhyggjur af fólkinu í landinu sem birtist þar.  Það gat að líka glaðhlakkalega þjóna fólksins hælast um og glotta.   

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 2.2.2011 kl. 11:27

36 identicon

Ásthildur: Þetta plagg sem þú vitnar í er einhver skilningur sendiráðsmanns Bandaríkjanna en ekki orð Bjarna Ben.

Hvað varðar Vatneyrardóminn þá var ekkert athugavert við niðurstöðu á þeim dómi. Dómurinn tekur einmitt á þessu álitamáli hvað varðar jafnræðis- og atvinnufrelsisákvæði stjskr. og telur að það stangist ekki á við stjskr. Það kom ekkert álit frá mannréttindar nefnd SÞ. 

Eitt annað þá er þetta orðinn 11 ára gamall dómur og það hafa orðið breytingar á Hr. síðan þá.

Haraldur Haraldsson (IP-tala skráð) 2.2.2011 kl. 13:29

37 identicon

Sæll á ný, Haraldur.  Veit ekki betur en að álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna hafi einmitt kveikst út frá Vatneyrardómnum og nefndin úti ekki verið sammála hæstarétti í túlkun á jafnræði þegnanna.  Ekkert athugavert við dóminn segir þú og vitnar í stjórnarskrársamanburð.  Kannski þetta skýri einmitt vilja sumra til breytinga á þessum þjóðarsáttmála og annarra ekki.  Rétt að mannabreytingar hafi orðið á hæstarétti síðan þetta var en ekki á ráðningarhætti.

lydurarnason (IP-tala skráð) 2.2.2011 kl. 18:11

38 identicon

Sæll Lýður,

Þetta álit sem þú vitnar í kom árið 2008. "Árið 2003 vísaði nefndin frá kæru Björns Kristjánssonar, áður skipstjóra á Vatneyri, á hendur íslenska ríkinu en Björn taldi í kæru sinni að Ísland hefði brotið gegn samningnum um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi þegar Hæstiréttur sakfelldi hann í svonefndu Vatneyrarmáli árið 2000.Sjómennirnir hefðu ekki getað kært málið til Mannréttindadómstólsins á grundvelli jafnræðisreglunnar því að sögn Bjargar er þá reglu ekki að finna í Mannréttindasáttmálanum. Hins vegar er kveðið á um þessa almennu jafnræðisreglu í svonefndum 12. viðauka við Mannréttindasáttmálann en Ísland hefur ekki fullgilt þann viðauka og raunar ekkert Norðurlandanna að Finnlandi undanskildu. Björg segir ástæðuna þá að litið sé svo á að orðalag reglunnar um að allir séu jafnir fyrir lögum sé mjög opið. ,,Í þessu tilviki ræðst sú niðurstaða að um mismunun hafi verið að ræða, af einhvers konar sanngirnismati. Það er líka sérstakt að meirihluti nefndarinnar nefnir hvergi meðalhófsreglu í rökstuðningi sínum, þ.e. að fiskveiðistjórnunarlöggjöfin hafi gengið of langt miðað við það markmið sem stefnt var að við setningu hennar. Mér finnst þetta gera enn erfiðara að átta sig á hvernig á að túlka þessa niðurstöðu,“ segir hún. "

Þannig að ég get ekki séð hvernig þessi dómur kasti einhverja rýrð á Hæstarétt.

Nefndin gagnrýnir fiskveiðilögjöfina en ekki dóm Hr. 

Það er eitt að þurfa að breyta stjskr. og annað þegar Hr. dæmir eftir núgildandi stjskr.

En ef menn vilja breyta stjskr. þá er það í höndum Alþingis. 

Haraldur Haraldsson (IP-tala skráð) 2.2.2011 kl. 19:39

39 identicon

Fá að bæta þessu við:"Þetta er álit og það er sem slíkt ekki þjóðréttarlega skuldbindandi eins og um dóm væri að ræða, en á hinn bóginn hefur það mikið vægi því Mannréttindanefndin er mikilvæg stofnun innan Sameinuðu þjóðanna. Ísland hefur samþykkt þessa kæruleið um að nefndin fjalli um kærur á hendur ríkinu.“

Spurð hvaða áhrif það geti haft ef Ísland virðir álit nefndarinnar að vettugi segir Björg: „Það hefur engar lagalegar afleiðingar í för með sér. Það eru engin úrræði hjá Sameinuðu þjóðunum til þess að fylgja niðurstöðum Mannréttindanefndarinnar eftir eins og um dóm frá t.d. Alþjóðadómstólnum væri að ræða. Hins vegar er fullkomlega eðlilegt að líta svo á að það þurfi að skoða þessa niðurstöðu mjög alvarlega og reyna eins og unnt er að fylgja henni. Vandinn við niðurstöðuna er hins vegar sá að hún er afskaplega óskýr og rökstuðningurinn er mjög knappur,“ segir hún.

Í þessu liggur munurinn sem er á dómum alþjóðadómstóla og áliti Mannréttindanefndarinnar. Þannig eru t.d. dómar Mannréttindadómstólsins miklu nákvæmari og ef kveðið er á um bætur í dómum hans er það gert með mun skýrara orðalagi. Í kæru sjómannanna tveggja var gerð krafa um skaðabætur en ekki rætt um neinar fjárhæðir og ekki sýnt fram á að um ákveðið fjárhagslegt tjón eða miska væri að ræða. Í áliti nefndarinnar er ekki útskýrt hvers konar bætur beri að greiða sjómönnunum og ekki er tilgreint hvernig eigi að endurskoða kvótakerfið.

Björg bendir á að atvik í þessu máli gengu fyrir um sjö árum og aðstæður hafi gjörbreyst síðan. Rökstuðningur nefndarinnar sé afar knappur og mjög erfitt að draga almennar ályktanir af niðurstöðunni, að sögn hennar. Spurð hvaða þýðingu það hafi að sex af 18 dómurum skila sérálitum og fallast ekki á niðurstöðu meirihlutans, segir Björg það sýna að mjög skiptar skoðanir voru um málið í nefndinni.

Dómararnir sem skila séráliti deila m.a. á sjónarmið meirihlutans um ósanngirni. Meirihlutinn heldur því m.a. fram að þótt markmiðið við setningu kvótakerfisins um vernd fiskistofnanna sé lögmætt og tímabundin úthlutun fiskveiðiréttinda í upphafi gæti talist vera sanngjörn hafi síðan orðið til kerfi varanlegrar kvótaúthlutunar. Íslenska ríkið hafi ekki getað sýnt fram á að framkvæmd kvótakerfisins standist kröfur um sanngirni í tilviki kærenda."

Tekið af: http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1184901

Haraldur Haraldsson (IP-tala skráð) 2.2.2011 kl. 19:45

40 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Svona af því að fólk er að velta fyrir sér flokksskírteinum, hvað skyldu vera margir kommar eða kratar dómarar í hæstarétti og hvernig skyldu hlutföllin vera...?

Annars tek ég undir með blogghöfundi og hef raunar sjaldan heyrt embættismann flytja mál sitt annarri eins festu.

Hvað svo sem segja má um kosningarnar og hvernig til þeirra var stofna þá held ég að hæstiréttur hafi þarna farið afleitlega að ráði sínu.

Haraldur Rafn Ingvason, 2.2.2011 kl. 23:32

41 identicon

Ætla að þakka þér Haraldur, fyrir greinargóða útlistun á Vatneyrardómnum.  Misminni mig ekki, þá var fundið að því að ekki var gætt jafnræðis þegnanna í upphafi við úthlutun aflaheimilda og að þessu fann mannréttindanefndin.  Heimur lögfræðinnar er þannig í eðli sínu að erfitt er að segja dóma beinlínis ranga en finna má að rökstuðningi þeirra.  Get ekkert sannað um hugarfar dómenda í starfi sínu en tel engu að síður að nýuppkveðinn úrskurður sem ógilti stjórnlagaþingskosningarnar sé illa ígrundaður og andlýðræði en ekki lýðræði.  Svo ósammála að alþingi eigi að búa til nýja stjórnarskrá, því verki á þjóðin að sinna eða beinkosnir fulltrúar hennar.

lydurarnason (IP-tala skráð) 3.2.2011 kl. 02:36

42 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Umboð "þjóðarinnar" til Stjórnlagaþings var mjög veikt, eða um 30%.

Ólögleg framkvæmd kosninganna bætist svo ofan á dræma kosningaþáttöku. Önnur niðurstaða Hæstarétts, hefði verið lýðræðislegt hneiksli og hefði minnt óþægilega mikið á stjórnarhætti einræðisríkja (kommúnista).

Gunnar Th. Gunnarsson, 3.2.2011 kl. 10:28

43 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Áhugaverð lesning.  

http://www.dv.is/blogg/tresmidja/2011/2/2/urskurdur-haestarettar-maladur-melinu-smaerra/

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 3.2.2011 kl. 10:54

44 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það er eðlilegt að Illugi Jökulsson, sem hlaut kosningu til Stjórnlagaþings út á þekkt andlit sitt, en ekki hæfileika, skuli vera óánægður með að hafa misst verktakastarf sitt, vegna niðurstöðu Hæstaréttar.

Það er hins vegar athyglisvert að hann skuli vitna í stærðfræðing en ekki lögfrræðing. Það skyldi þó ekki vera vegna þess að meirihluti lögfræðinga er sama sinnis og Hæstiréttur?

Gunnar Th. Gunnarsson, 3.2.2011 kl. 11:42

45 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þetta heitir nú að snúa út úr Gunnar, það sem þessi ágæti stærðfræðingur segir stendur, hvort sem hann þekkir lögfræði eða ekki, það sem hann vísar í stendur.  En það er von að þið hægri menn séuð á flótta undan pressunni sem almenningur er að setja á ykkur, já og ykkar eigin flokksbræður líka, var ekki  Andrés Magnússon að yfirgefa skipið? 

Þegar málin eru sett upp svona skýrt eins og þarna þá getur hvert mannsbarn séð að ekki var staðið faglega að þessum dómi.  Ég vona að þessi úrskurður hæstaréttar verði kærður og við fáum faglegan botn í þetta grafalvarlega mál.  Það er komið nóg af klíkuskapnum, lyginni og falsinu í eiginlega öllum ráðamönnum samfélagsins.

Svo að lokum finnst mér þú tala þarna um Illuga fyrir neðan beltissta.  Þó ég sé ekki allgtaf sammála skrifum hans, og geti verið bálreið yfir ýmsu sem hann lætur frá sér fara, þá er ég sammála honum þarna.   Enda hefur hann málfrelsi eins og við öll hin ekki satt, hvort sem hann náði kjöri til Stjórnlagaþings eða ekki. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 3.2.2011 kl. 12:33

46 identicon

Sæll Lýður,

Þú ert að vitna í Desember/Valdimarsdóminn en þar dæmdi einmitt Hr.fisveiðilöggjöfinn eins og hún var þá væri gegn stjskr.

Én ég held að vinstri menn ættu að hætta að kenna hægri mönnum um hvernig fór, því það er jú staðreynd að það eru vinstrimenn sem sitja við stjórnvölin og það eru þeir sem báru ábyrgð á kosningunum. Ef einhver hafði kosningarnar af "þjóðinni" þá voru það vinstri menn, ekki Hæstiréttur eða hægri menn. Það er frekar ómerkilegur málatilbúnaður af hendi vinstri manna að kasta rýrð á annars ágæta stofnun sem Hæstiréttur er bara af því að það þjónar tilgangi þeirra í þeirra málatilbúnaði.

Haraldur Haraldsson (IP-tala skráð) 3.2.2011 kl. 13:12

47 Smámynd: Billi bilaði

Flottur pistill.

Ég hætti að nenna að lesa athugasemdirnar þegar Jón Valur tók undir það sem ég las úr orðum Grétars að rétt sé að veita brottvísun fyrir ruðning í handbolta, þegar allir vita að aukakast er rétt refsing.

Billi bilaði, 3.2.2011 kl. 14:22

48 identicon

Held, Gunnar, burtséð frá Illuga og hans skrifum, þá eru lögfræðingar langt frá sammála um þennan úrskurð hæstaréttar og mikill kurr í stéttinni.   Lögfræðin er ekki yfir þjóðina hafin heldur einungis sá skriftagangur sem hún byggir á.  Við viljum kenna okkur við siðmenningu og úrskurður hæstaréttar er að mínu mati andlýðræði en ekki lýðræði og byggi það á því að hann skuli teygja sig svo langt að ógilda þjóðkosningu með þessum rökum. 

Rétt, Haraldur, er að vitna í Valdimar en ekki Vatneyrina.  Reyndar er ég fullkomlega sammála því að ríkisstjórnin beri ábyrgð á þessu klúðri öllu en tel jafnframt hæstarétt hafa "nýtt" sér það með óviðeigandi hætti.  Og nóta bene, ég segi það sem hægri maður enda hef ég alltaf verið talsmaður frelsis og einkaframtaks.   Því miður er skúta sú sem kallar sig sjálfstæðisflokk gersamlega afturreka á þeirri vegferð og hefur í dag ekkert með stjórnmál að gera.  Sorrí, Stína...

lydurarnason (IP-tala skráð) 3.2.2011 kl. 14:49

49 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Við getum verið sammála um að vera ósammála

Gunnar Th. Gunnarsson, 3.2.2011 kl. 17:16

50 identicon

Rétt, Gunnar, vona samt að frelsis- og frjálsræðisöfl á Íslandi nái vopnum sínum á ný og hafi þá að meginreglu að FRELSI FYLGIR ÁBYRGÐ.

lydurarnason (IP-tala skráð) 3.2.2011 kl. 19:44

51 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já   ég tek undir það heils hugar. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 3.2.2011 kl. 20:05

52 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Sammála

Gunnar Th. Gunnarsson, 3.2.2011 kl. 23:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband