24.2.2011 | 11:42
SLAKTAUMASTJÓRN.
Leitin að víðtækri samstöðu tekur sinn toll. Það sést berlega á glímu þessa þingmeirihluta við minnihlutann en þrefið er á góðri leið með að rústa kjörtímabilinu. Við getum deilt um réttur og röngur en útkoma endalausra samræðustjórnmála er kyrrstaða. Í hnotskurn hafa sjálfstæðismenn drepið helstu stefnumálum ríkisstjórnarinnar á dreif og hindrað þeirra framgang. Farsinn í kringum stjórnlagaþingið er glöggt dæmi og öfgafull túlkun á lögum um þessa ráðgefandi samkundu ekkert annað en skemmdarverk. Með þessa augljósu staðreynd að leiðarljósi á ríkisstjórnin að leysa þetta mál í samvinnu við fólkið í landinu en ekki sjálfstæðisflokkinn. Kvótamálin eru svo annað stórmál hvurs framganga er engin. Þar hefur þjóðarvilji margsinnis komið fram en aftur kýs ríkisstjórnin að ná sátt við sjálfstæðisflokkinn, sátt sem er ekki til. Sé ekki ætlunin að nota stjórnartaumana er alveg eins gott að afhenda hrunflokkunum þá aftur.
LÁ
Athugasemdir
Verði þetta lendingin, þá er að gera það besta úr því og leyfa hópnum að vinna almennileg drög að nýrri stjórnarskrá.
Fari hið auma þing svo eitthvað að toga og teygja það, þá er bara að fara í almennilega undirskriftarsöfnun á pappír og krefjast þess að kosið verði um tillögu þingsins.
Gerum okkar besta þrátt fyrir okkar vonlausu stjórnvöld!
Billi bilaði, 24.2.2011 kl. 19:19
Samþykki þingið tillögur nefndarinnar og skipi stjórnlagaráð fer bolti af stað sem erfitt verður að hemja. Einmitt þess vegna eru sjallarnir á móti þessu stjórnlagaþingi.
LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 24.2.2011 kl. 23:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.