15.3.2011 | 02:58
GÆSAGANGUR.
Gæsagangur er staðall, einskonar samtakamáttur sem stundum keyrir úr hófi fram, marsh, marsh! Gæsagangur er reyndar sjaldséður í íslenzku samfélagi nema dynji yfir náttúruhamför eða landsfundur sjálfstæðismanna. Göngulag núverandi ríkisstjórnar hefur ekki á sér gæsagönguyfirbragð, fremur mætti líkja því við óveðursgang uppi á fjöllum þar sem menn þramma einir og forðast fótspor hvors annars. Þannig má benda á að utanríkisráðherra vill evrópu, innanríkisráðherra þúfurnar. Viðskiptaráðherra evruna, fjármálaráðherra krónuna. Sjávarútvegsráðherra fyrningu, menntamálaráðherra fæðingu. Iðnaðarráðherra álver, umhverfisráðherra varðeld. Eina ráðherraparið sem nær gæsaganginum eru heilbrigðisráðherra og forsætisráðherra. Og nú vill Bjarni Benediktsson ólmur velta Jóhönnu úr sessi og segist til þess albúinn. Svo gæti Gnarrinn framið annað valdarán, ekki er svo ýkja langt á milli ráðhúss og stjórnarráðs. Samgangur Jóns og Bjarna í stjórnarráðinu yrði held ég mikil þrautaganga fyrir þann síðarnefnda. Það er því vandséður gæsagangurinn á stjórnarheimilinu í bráð.
LÁ
Athugasemdir
Lýður. Hef mestar áhyggjur af örvæntinga-skrækjum gæsanna á Íslandi nú um mundir (og margar sveima yfir Hafnarfirði), því gæsir finna og skynja óveður og hamfarir betur en skynlaus mannskepnan.
Við ættum að velta fyrir okkur hvernig við tökum á kjarnorkuslysum og hamförum í Japan og heiminum öllum, og alls kyns hamförum hér heima á Fróni nú um mundir?
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 16.3.2011 kl. 02:20
Oddaflug gæsanna í Hafnarfirði ætti að vera mannskepnunni eftirbreytni. Hamfarir af náttúrunnar hendi eru utan okkar valdsviðs en samstaðan og tiltektin í kjölfarið alfarið mál okkar manna. Oddaflug er kannski svarið?
LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 16.3.2011 kl. 10:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.