21.3.2011 | 01:58
VIÐ VINNUM ÞÓ VIÐ TÖPUM.
Samþykkjendur icesave segja upphæðina, 30 milljarða, allt of smáa til að taka sjéns á Kóreu Norðursins. Að festa þessa upphæð er bjartsýni, nánast barnaskapur og spár um einangrun og lokun lánalína hafa reynst hræðsluáróður.
Samþykkjendur icesave segja að verði sinn vilji verði gjaldeyrishöftum aflétt. Það þýðir veikingu krónunnar með tilheyrandi hækkun á kostnaði við icesave. Jafnvel milljarðatugum. Er þetta ekki mótsögn?
Samþykkjendur icesave segja þrotabú landsbankans fara langt með höfuðstólinn en gæta ekki að því að enn er eftir að úrskurða um forgangskröfur í þrotabú landsbankans og allsendis óvíst að þær lendi okkar megin. Og hvað þá?
Samþykkjendur icesave segja siðferðilega rangt af okkur sem þjóð að ganga á bak orða ráðamanna sem lofuðu viðsemjendum upp í eigin ermi. Í dag er litið á embættisfærslur þessa fólks sem vanrækslu og viðsemjendur okkar hljóta að hafa tekið yfirlýsingum þeirra með varfærni enda slíkar skuldbindingar eðlilega háðar samþykki alþingis.
Samþykkjendur icesave segja okkur lagalega standa höllum fæti vegna innistæðutryggingarsjóðanna og mismununar á þegnum EES-svæðisins þegar neyðarlögin um innistæður voru sett. En eftirlitsstofnun EES hefur sent frá sér álit þar sem skilningi er lýst á neyðarlögunum í krafti aðstæðna. Lagaleg staða er því langt í frá töpuð. Miklvægastur er þó sá sjálfsagði réttur hverrar þjóðar að leita réttar síns. Hverskonar ríkjasamband átelur slíkt?
Samþykkjendur icesave segja nauðsynlegt fyrir atvinnulífið að samþykkja icesave. Margir forystumenn atvinnusamtaka hafa tekið í sama streng. En skilaboðin með höfnun icesave eru einmitt þau að almenningur eigi ekki að taka á sig skuldir einkaaðila undir neinum kringumstæðum. Sem er um leið krafa á atvinnulífið að standa undir sér sjálft. Icesave var frelsi án ábyrgðar og með því að samþykkja icesave erum við að veita slíkum vinnubrögðum gæðastimpil.
Samþykkjendur icesave segja höfnun icesave ávísun á verri stöðu. Hingað til hefur tíminn unnið með okkur. Hin raunverulega upphæð icesave mun einnig skýrast með tímanum. Því er hæpið að frestun málsins verði Íslandi annað en til góðs.
Samþykkjendur icesave segja þjóðina baka sér óvild með höfnun. Það er alrangt. Hver ein og einasta þjóð sem tekur almenning fram yfir fjármagn mun vinna þó hún tapi.
Segjum því nei við icesave.
LÁ
Athugasemdir
Ég er sammála þér, við verðum að segja NEI við IceSlave... Annað er ekki hægt,...
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 21.3.2011 kl. 02:27
þó ég sé almennt jámaður enda skemmtilegra að vera á jákvæðum nótum en hinu, þá segi ég Nei við Icinu
Elfar Logi Hannesson, 21.3.2011 kl. 08:53
Algjörlega sammála þessu, góð færsla.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 21.3.2011 kl. 09:14
Fleiri og fleiri eru að átta sig,við eigum engan annan kost.
Helga Kristjánsdóttir, 21.3.2011 kl. 09:35
Það er það eina rétta í stöðunni ...... NEI við ICESAVE.....
Sóldís Fjóla Karlsdóttir, 21.3.2011 kl. 09:54
Góður pistill, Lýður og við munum segja NEI við IceSave!
Kv.,KPG.
Kristján P. Gudmundsson, 21.3.2011 kl. 14:02
Nei við icesave er já við forgangi almennings fram yfir fjármagn.
Og sú afstaða mun ávallt tryggja okkur sigur.
LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 21.3.2011 kl. 15:48
Sterk rök. Nei við Ícesave.
Eggert Guðmundsson, 21.3.2011 kl. 16:35
Að sama skapi þá eru þessi fyrirtæki sem spá fyrir ísland um lánalínur voru sú fyrirtæki sem komu bankanum á toppinn ári fyrir hrun. Og það er það sérkennilega við þetta allt saman.
kristján loftur bjarnason (IP-tala skráð) 21.3.2011 kl. 16:36
Góður pistill hjá þér Lýður og auðvitað segjum við NEI við þessari kúgun
Helga Þórðardóttir, 21.3.2011 kl. 19:35
"bold" takkinn fastur ? Vel fram sett rök. Væri gaman að sjá einhvern reyna við gagnrök.
Sigmundur (IP-tala skráð) 21.3.2011 kl. 21:41
þessi pistill er sambland af hræðsluáróðri, staðreyndarvillum og draumórum.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 21.3.2011 kl. 22:55
Ómar Bjarki.... Mæli eindregið með því að áhugamenn um borgun icesave myndi samtök til gegningar þessu markmiði og láti okkur hin í friði.
LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 21.3.2011 kl. 23:43
Algjörlega sammála segi NEI
Þórarinn Baldursson, 22.3.2011 kl. 00:29
,,Ómar Bjarki.... Mæli eindregið með því að áhugamenn um borgun icesave myndi samtök til gegningar þessu markmiði og láti okkur hin í friði."
Óskaplega er þetta nú barnalegt. Varst þú ekki kosinn á stjórnlagaþing? Bara eins og krakki.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 22.3.2011 kl. 00:49
Þetta var nú bara sáttatillaga, þeir sem vilja borga borga og hinir gera eitthvað annað, báðir hópar næðu sínu fram. Mæli sérstaklega með þessu verði icesave hafnað, þá geta fylgismenn borgunar hafið söfnun meðal þjóðarinnar. Og mikið rétt, ég hlaut brautargengi inn á stjórnlagaþing blessaða og þakka þér stuðninginn, Ómar Bjarki, ef þannig hefur kosist.
LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 22.3.2011 kl. 17:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.