24.3.2011 | 14:48
JÓHANNA BREYTTI RÉTT.
Þegar forsætisráðherra fer eftir hæfismati eigin ráðuneytis og ræður þann hæfasta samkvæmt því birtist kærunefnd jafnréttismála með aðra niðurstöðu og dæmir ráðninguna lögbrot. Augljóst að mat þessara tveggja stjórnsýslueininga er misjafnt og líkast merki um stjórnsýslu sem farin er að þvælast fyrir sjálfri sér. Sakir bornar á Jóhönnu Sigurðardóttur eru því ómaklegar. Hún velur þann kost sem fyrir liggur. Hefði hún fetað fótspor fyrri ríkisstjórnar og valið þvert á mat hæfisnefndar væri sami söngur uppi, hún færi á svig við hæfisnefnd og ráðningin væri pólitísk og kvenlæg. Útleið Jóhönnu er því sú að standa við sitt. Sem hún og gerir. Hræsni hælbítanna er hinsvegar engin takmörk sett og sannlega komin langt út fyrir velsæmismörk. Trúi að það komi í ljós í næstu kosningunum. En Jóhanna breytti hér rétt og á að njóta sannmælis.
LÁ
Athugasemdir
Hmm, "hræsni hælbítanna"? Hvað með hræsni Jóhönnu? Hún hlýtur nú að teljast stærsti hræsnarinn í málinu þar sem það var hún og enginn annar sem krafðist þess að Björn Bjarnason segði af sér fyrir nákvæmlega sama hlut. Hræsnin er að hennar eigin krafa eigi ekki við hana sjálfa.
Gulli (IP-tala skráð) 24.3.2011 kl. 15:22
Fagráðningar virðast ekki vera lögum samkvæmt! Undarlegt mál í meira lagi. Jóhanna þyrfti að endurskoða þessi lög sem hún hefur barist fyrir að koma í gegnum þingið.
Eva Sól (IP-tala skráð) 24.3.2011 kl. 17:00
Þetta er bara þvættingur hjá þér sem kallar þig Gulla. Jóhanna fór eftir því sem hæfismatið kvað upp úr með en Björn Bjarnason tók þann kostinn að ganga gegn matinu og ráða þann einstakling sem stóð í neðsta þrepi. Það má aldrei láta pólitíska blindtrú taka af sér ráðin og gera sig að flóni Gulli minn eins og Bjarni Ben og fleiri gerðu í dag.
Mér finnst undarlegt að mér skuli ekki vera neitt illt í höfðinu eftir að hafa tekið afstöðu með Jóhönnu í tveim málum sama daginn. Þetta hefur ekki hent mig síðan löngu fyrir hrun.
Eva Sól: Eftir hverju átti Jóhanna að fara við þessa ráðningu? Átti hún að fara eftir hæfisnefndinni eða bara láta flakka og ráða vinkonu sína eins og alltaf var gert. Það var niðurstaðan reyndar hjá Kærunefnd jafnréttismála. Ég hefði haft sama háttinn á og Jóhanna.
Árni Gunnarsson, 24.3.2011 kl. 19:14
Vel á minnst Lýður: Ertu búinn að leggja grásleppunetin og draga eitthvað?
Árni Gunnarsson, 24.3.2011 kl. 19:15
Það er sem sagt hæfnismatið sem einhver aðkeyptur ráðgjafi býr til í samráði við ráðuneytisstjórann sem brýtur landslög.
Er þetta þá ekki ein hringavitleysa. Þú getur pantað hæfnismat hjá ráðgjafa sem leggur til dæmis flokksskírteini í fyrsta sæti eða annan sem leggur aðal áherslu fyrri reynslu o.s.fv.
Af hverju er þá verið að láta kærunefnd jafnréttisráðs yfirleitt koma að málinu, ef hæfni umsækjenda ein ræður en ekki jafnréttis staðan. Það á að birta hvernig hæfnismatið var byggt upp þ.e hvernig uppröðun umsækjenda var framkvæmd.
Tek það fram að mér finnst að hæfni einstaklingsins eigi að ráða en ekki kynferði en þá er bara spurningin, hæfni til hvers? Það verður að styðjast við stöðluð hæfnismöt.
Sveinn Úlfarsson (IP-tala skráð) 24.3.2011 kl. 20:29
Sæll Lýður. Ég tek undir hvert orð sem þú segir. Það vakti hins vegar athygli mína að í athugasemdadálkinum eru þrjú sem ekki koma fram undir nafni og ekki er hægt að ná í skottið á. Ég fékk tvær slíkar ath. semdir við færslu hjá mér í dag og báðar orðaðar á þann hátt að hver einasti sæmilega þroskaður grunnskólanemi hefði aldrei látið slíkt út úr sér. Hef hins vegar ákveðið að láta þær standa því þær lýsa andlegu ójafnvægi og sóða innræti viðkomandi einstaklega vel.
Bkv. Þ. Jökull
Þráinn Jökull Elísson, 24.3.2011 kl. 22:05
Árni svarar Gulla óaðfinnanlega og óþarft að bæta í. Grásleppuveiðin er enn á vistvænu nótunum og engin upp dregin. Sveinn nefnir mótsagnir stjórnsýslunnar og er ég honum sammála. Þráni Jökli líka, leitt þegar vantar á nöfn í þjóðfélagslegum umræðum.
LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 25.3.2011 kl. 01:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.