6.4.2011 | 00:57
VILHJÁLMUR OG NÍMENNINGARNIR.
Forkólfar vinnumarkaðarins þrýsta nú hart á "rétta" útkomu kosninganna á laugardag. Segja fall icesave þýða brostnar forsendur kjarasamninga með tilheyrandi uppnámi á vinnumarkaði. Vilhjálmur Egilsson, formaður samtaka atvinnulífsins, hnykkir ennfremur á sjávarútveginum og vill koma honum í ævarandi eignaréttarskjól kvótagreifanna. Mætir meira að segja með forsvarsmann þeirra óboðinn á stjórnarheimilið. Eitthvað yrði nú sagt ef nímenningarnir birtust þar óforvandis. Sannleikurinn er sá að yfirgangur Vilhjálms og félaga er með öllu ólíðandi, þeirra umboð til að stjórna landinu er ekkert þó framgangan bendi til annars. Nú verður ríkisstjórnin að sporna við þessum eiginhagsmunaseggjum, hún hefur bróðurpart þjóðarinnar með sér í þeirri orrahríð. Allt þeirra kjaftæði um hagræðingu, atvinnu og icesave er liður í valdatafli hvurs markmið er afturhvarf til fyrri viðskiptahátta. Falli atvinnulíf í skilningi Vilhjálms og félaga með icesave er það fagnaðarefni því það reyndist innistæðulaust og mun vera það áfram. Við þurfum atvinnulíf með sjálfsábyrgð, atvinnulíf sem einkavæðir ekki bara hagnað, atvinnulíf sem byggir á jafnræði þegnanna en ekki úreltu lénsfyrirkomulagi eins og sjávarútvegurinn gerir nú. Icesave snýst æ minna um upphæðir og áhættu, miklu fremur um þau skilaboð sem almenningur vill senda fjársýslu og stjórnsýslu.
LÁ
Athugasemdir
Tillag Vilhjálms og félaga er alveg útúr kortinu og ekki pappírsins virði
Albert Ríkarðsson (IP-tala skráð) 6.4.2011 kl. 01:38
Hver mundi kaupa notaðan bíl af Vilhjálmi Egilssyni ???
Þorður Sævar Jonsson (IP-tala skráð) 6.4.2011 kl. 06:30
Hvernig sem já-sinnar eða nei-sinnar velta Icesavemálinum fyrir sér og ræða „dómstólaleiðina“ eða aðra mögulega niðurstöðu þessa máls þá er í raun aðeins ein leið til að meta það.
Hver sá sem ætlar að kjósa ætti að setja sig í spor þess sem málið snýst um. Það er hinn venjulegi sparifjáreigandi.
Allir sen setja fé á bankareikning ætlast til þess að peningarnir séu til staðar þegar þeim hentar að taka féð út aftur. Bankar verða að vera öruggar stofnanir, jafnvel þótt þeir hafi verið einkavinavæddir.
Þetta er svo augljóst að það ætti varla að þurfa að benda á þetta - en í öllum látunum kringum þetta mál þá er eins og að sumir hafi gleymt þessari grundvallarreglu.
Í samstarfi okkar við aðrar Evrópuþjóðir á mörgum sviðum þá gilda reglur sem banna mismunun eftir þjóðerni eða búsetu. Banki má ekki mismuna Englendingi sem býr í Reykjavík og geymir sitt sparifé í útibúi bankans í Reykjavík gagnvart Englendingi sem býr í London og geymir sitt fé í útibúi sama banka í London. Sama gildir um Íslendinga sem búa á Íslandi eða í Englandi. Allir innistæðueigendurnir skulu eiga sömu réttindi og sofa því sælir í sínum heimabæ.
Þetta er grundvallarreglan í Icesavemálinu. Nú er ljóst að neiti Íslendingar að ganga frá málinu með fyrirliggjandi samningi þá eru þeir að segja að þessi regla sé ekki í gildi. Það má mismuna.
Sömu aðilar virðast aðallega byggja afstöðu sína á því að það sé verið að kúga þá til að borga „ólögvarðar einkaskuldir óreiðumanna“. Jafnaðarreglan sem samskipti Íslendinga við aðildarþjóðir EES-samningsins byggðist á er skyndilega orðin „kúgun“ (fyrrum nýlendukúgara, útlendinga etc.).
Íslenskt innistæðutryggingakerfi brást, bæði gangvart íslenskum innistæðueigendum á Íslandi og innistæðueigendum Landsbankans erlendis. Íslenska ríkið hljóp undir bagga og tryggði innistæður hér heima. Og nú er búið að semja um að íslenska standi með sama hætti að baki tryggingasjóðnum gagnvart erlendum innistæðueigendum. Sem betur fer þá duga eiginir þrotabús Landsbankans næstum fyrir allri greiðslunni.
Segjum já!
Hjálmtýr V Heiðdal, 6.4.2011 kl. 09:55
Það er rétt hjá þér Lýður við erum á viðsnúnings punkti hver ræður þessu landi. Hér er klíka sem í krafti valds sem þeir hafa tekið sér rís nú upp og ætlar að láta sverva til stáls hver á að stjórna þessu landi til framtíðar þjóðin eða LÍÚ klíkan
Ólafur Örn Jónsson, 6.4.2011 kl. 10:14
Ef þetta er ekki KÚGUN, þá hefur orðið fengið aðra merkingu í Íslensku máli........
Jóhann Elíasson, 6.4.2011 kl. 13:46
Ótrúlegt að það skuli vera vinstri stjórn á Íslandi. Það sannast alltaf betur og betur að orðið "fjórflokkurinn" er rétt. Það skiptir litlu eða engu máli hvað af þessum flokkum eru við völd. Þetta endar alltaf hjá LÍÚ og fjármálaöflunum.
Sigurður I B Guðmundsson, 6.4.2011 kl. 13:59
Jú þetta er kúgun og aðför að lýræðislega kosinni ríkisstjórn og Alþingi. Mér er alveg sama hver situr í Ríkisstjón svona haga menn sér ekki. Skilyrðið fyrir samningum er sett KLÁRT fram. Það ætti að taka Vilhjám, Þorstein og Davið og henda þeim öfugum inní Valhöll og steypa yfir. Þetta p..k kann ekki að skammast sín.
Ólafur Örn Jónsson, 6.4.2011 kl. 14:09
Satt segir þú Sigurður.
Lýður þetta er að verða ólíðandi, og svo hóta þessir herramenn starfsfólkinu sínu fyrir hverjar kosningar, kalla það inn á kaffistofuna og segjast ætla að sigla skipunum burt og koma ekki aftur ef ekki er kosið rétt. Þetta er svívirðilegt og verst að ekki er hægt að stoppa þetta.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.4.2011 kl. 14:09
Hjálmtýr Heiðdal... Ég er ekki sammála þínum vendipunkti, að málið snúist um örugga banka og jafnræði við útgreiðslur. Eins og bankar þurfa innistæðueigendur að velta fyrir sér ávöxtunarmöguleikum, ekki sízt í ástandi eins og var fyrir hrun. Með hávaxtareikningum eins og icesave hlýtur fólk að hafa séð að innlánin voru ekki áhættulaus. Með því að samþykkja icesave erum við að viðhalda óábyrgri fjármeðferð lánastofnanna. Neiið er afstaða sem hafnar slíku. Varðandi mismunun innistæðueigenda var um neyðarlög að ræða, vissulega umdeilanleg, en svo er einnig um marga gjörninga viðsemjenda okkar. Sjálfum finnst mér vendipunktur icesave vera forgangur fólks fram yfir óabyrgt fjármálasukk og það eiga að vera okkar skilaboð til framtíðar. Og Ásthildur, þetta er hægt að stoppa og mun vera gert.
LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 6.4.2011 kl. 17:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.