7.4.2011 | 00:06
LJÓSIN Í BÆNUM.
35 ára forgangur að auðlind Íslands, hafinu, er sáttatillegg landssambands íslenskra útgerðarmanna til þjóðarinnar. Með mögulegri framlengingu um önnur 35 ár eftir 15 ár. Ennfremur að auðlindagjald skuli markast af hagnaði, ekki framlegð. Sami hópur skilyrðir kjarasamninga og þjóðaratkvæði um icesave. Ekkert í þjóðlífinu er þessu klani óviðkomandi, ekkert. Löglega kjörin ríkisstjórn situr þegjandi undir byssukjöftunum, loforðin um firningaleið, frjálsar strandveiðar og endurúthlutun veiðiheimilda, allt fjólubláir draumar. Ekkert er eins einfalt og viðblasandi fyrir aukna atvinnu og gjaldeyristekjur eins og aukinn kvóti og frjálsar strandveiðar. Þetta kostar ekkert en gefur góðan vind. Þess í stað hoppar heil ríkisstjórn vestur í vöggu fiskanna og útdeilir óarðbærum ríkisverkefnum. Kóróna vitleysunnar er svo skoðanakönnun dagsins sem tilkynnir 56% fylgi hrunflokkanna, eff og dé. Einu ljósin í bænum er stjórnlagaráðið sem tók formlega til starfa í hádegissólinni, þar ríkir einhugur um þarft verk sem vonandi mun opna augu þessarar áttvilltu þjóðar.
LÁ
Athugasemdir
Já til hamingju með það. Ég vænti mikils að ykkur og tel að þetta sé eini ljósi punkturinn í annars afskaplega neikvæðri stöðu þjóðarinnar. Heill ykkur stjórnlagaráð.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.4.2011 kl. 00:48
Ákvæði stjórnarskrár sem varða kvótann eru ágætar. Hins vegar vantar að "sía" kvótalöggjöfina með þessum greinum (atvinnufrelsi - jafnræði og eignarréttarákvæði)
Að þessu leyti er stjórnarskráin góð - en hún hefur verið vanvirt. Verkefnið er því að skipa t.d. þrjá faghópa - sem rýna kvótalögin með þessum þrem, greinum ("sía" lögin með þessum stjórnarskrárákvæðum) og þannig má taka gallana úr núverandi lögum.
einnig þarf að koma til 40.og 41 gr. því ekki má veðsetja auðlindina sjálfa - hlut ríkisins.
Útgerðir eiga nýtingarétt - sem er takmarkaður afnotaréttur - nú til eins árs í senn. Þessi nýtingaréttur hefur verið bæði oftúlkaður og yfirveðsettur - þannig að eignarhluti ríkisins kann að hafa verið veðsettur - en það má ekki sbr 40. og 41. gr
Varðandi stjórnlagalþingið sjálft - líst mér verst á tillögu Þorvaldar Gylfasonar um að láta þá dellu hvarfla að sér að senda einhverja tillögu í þjóðaratkvæði - án þess að málið sé tekið fyrir í Alþingi - eins og skylt er skv. stjórnarskrá!!!
Hvers konar djöf... della er það að láta það hvarfla að sér að þetta stjórnlagaþing - byrji á því að heimt að stjórnarskráin verði brotin strax - með slíku hátterni - að senda einhverjar tillögur "beint í þjóðaratkvæði"..
Slík della yrði ð öllum líkindum kærð fyrir dómstólum - og Hæstiréttur myndi þá dæma gjörningin ólöglegan - og allt málið - "endurskoðun stjórnarskrárinnar" þá endanlega ónýtt!!!
Kristinn Pétursson, 7.4.2011 kl. 09:31
Mér lýst einmitt vel á að þjóðin fái að segja til um þetta áður en þingmenn fara að krukka í stjórnarskrána. Þeim er ekki treystandi. Svo hefur komið fram í máli Þorvaldar að hann muni leggja til að alþingismönnum verði fækkað verulega, og þá er alþingi orðið vanhæft til að fjalla um málið.
Mér finnst þetta vera eini ljósi punkturinn í íslenskri tilveru, og svo auðvitað ef neiið verður ofan á næsta laugardag.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.4.2011 kl. 10:01
Sæl, bæði. Varðandi ákvæði stjórnarskrár um "kvótann" (auðlindir) er talað um þjóðareign sem er því miður ónýtt hugtak lögfræðilega gagnvart eignarétti. Þetta þarf því að niðurnegla betur svo óvéfengt sé að auðlindir séu í eign þjóðarinnar og ráðstöfun þeirra og nýting í hennar höndum. Augljósast er að breyta þjóðareign í ríkiseign og fer þá ríkisstjórn á hverjum tíma með þetta eignarumboð. Varðandi tillögur Þorvalds um að stjórnarskrártillaga fari fyrst til þjóðar og svo til þings er þetta tillaga velflestra í stjórnlagaráði og helgast af því að stjórnsýslan (alþingi) sé vanhæf að fjalla um eigin mál. Þetta mun skýrast betur þegar á líður. Laugardagurinn verður svo vonandi til lukku.
LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 7.4.2011 kl. 10:31
Til hamingju með stjórnlagaráðið!
Þessi viðbrögð ríkisstjórnarinnar við dómnum dæmalausa voru að mínu skapi. Nú reynir á gott fólk við það mikilvæga starf að vernda næstu kynslóðir á Íslandi fyrir stjórnsýslufári viðlíka því sem við höfum búið við í fjórðung aldar.
Góða ferð!
Árni Gunnarsson, 7.4.2011 kl. 12:15
Þakka árnaðaróskirnar, Árni, reyni að stuðla að kynslóðaverndinni og bættum stjórnarháttum.
Kveðja, Lýður.
lydurarnason (IP-tala skráð) 7.4.2011 kl. 22:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.