14.4.2011 | 02:20
FOLINN FARINN.
Fjaðrir ríkisstjórnarinnar hafa verið að smá reitast af í vetur. Vantrausttillaga kvöldsins stóð tæpt og eftir stendur valdstjórn með eins atkvæðis meirihluta. Folinn farinn. Verjendur áframhaldandi stjórnarsamstarfs fengu á sig ákúrur fyrir að vísa í fortíðina en tala ekkert um framtíðina. Stjórnarandstaðan virðist hinsvegar meta þann kost vænstan að fortíðin taki við framtíðinni. Guð hjálpi og blessi Ísland komist hin tiltölulega nýliðna hrunfortíð aftur inn í stjórnarráðið. Þá fyrst sprettur upp njólinn, kvótakerfið fest í sessi, einkaeignaréttur auðlinda, stjórnlagaráði slátrað og klíkustjórnmál ná fyrri hæðum. Held best fyrir þjóðina að þingið fari nú í sumarfrí og veiti henni örlitla hvíld frá þrasinu.
LÁ
Athugasemdir
Þeir hafa ekkert að gera í frí, eiga að drullast til að auka aflaheimildir fyrir hádegi í dag og slátra kvótakerfinu eftir kvöldmat.
Það er eins og þessir andlegu kripplingar séu búnir að gleyma því að 80% af þjóðinni heimtar nýtt fiskveiðistjórnunarkerfi.
Níels A. Ársælsson., 14.4.2011 kl. 07:19
Sammála Níelsi, Þetta er að verða óþolandi ástand. Það er ekki hægt að henda ómögulegri ríkisstjórn, því enn verra tekur jafnvel vil. En ég held að við verðum að fara að henda fjórflokknum út á hafsaug.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.4.2011 kl. 10:12
Var nú bara að hugsa í líkindum, tel meiri líkur á vandræðagangi en að hreinsað verði til í kvótamálunum, sbr. nýja reglugerð Jóns um strandveiðar.
LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 14.4.2011 kl. 11:57
Kvótakerfið er barn síns tíma og kominn tími til þess að það verði tekið í gegn... af... til endurskoðunar. Hvað sem þið viljið kalla það.
Við verðum samt að búa við einhverskonar veiðistjórnunarkerfi og það er einfaldlega ekki hægt slátra kvótakerfinu fyrr en menn eru búnir að koma á einhverju örðu og betra kerfi.... þannig að menn, karlar og konur, þurfa að einhenda sér í þá vinnu. Meðan enn er kjaftað og kennt um á báða bóga lengist bara tíminn í það verði gert.
Emil Örn Kristjánsson, 14.4.2011 kl. 16:02
Sæll, Emil. Nokkrar leiðir hafa verið nefndar sem arftakar, allt frá áfram kvótakerfi mínus framsal, fyrningarleið í ýmsum útgáfum, uppboðsleið, útmið-versus strandmið, frjálsar strandveiðar og sóknardagar. Í raun eru aðal ágallar núverandi kerfis framsalið, eignarétturinn og réttindaleysi byggðanna. Held vandann liggja í viljaleysi til breytinga en ekki öðrum leiðum. Óbreytt kerfi viðheldur gífurlegum þrönghagsmunum og slíkir eru sjaldnast leiðitamir.
LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 14.4.2011 kl. 20:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.