8.6.2011 | 16:12
HÁKARLAUGGAR.
Samhengi ýmislegs er óljós. Þó dúkka öðru hvoru upp uggar sem gefa vísbendingu um það sem undir býr. Sérfræðingur í lagastofnun háskólans úthúðar nýju fiskveiðifrumvarpi. Sá hinn sami er kostaður af Landsambandi íslenzkra útvegsmanna, frá þeim hagsmunasamtökum er staðan styrkt og stofnuð. Þessu áliti umrædds sérfræðings er síðan flaggað á fjölmiðlum og auðvitað er bakgrunnur álitsgjafans látinn liggja milli hluta. Sem einnig gefur vísbendingar um bakhjarla hins fjórða valds, þ.e. fjölmiðla. Sá kraftur og elja sem hagsmunaaðilar leggja í varnir fyrir mjólkurkú sína endurspeglar hversu mikils virði hún er. Þetta ætti þjóðin að hafa hugfast, fólkið sem ekki þekkir títtnefnda hagræðingu í sjávarútvegi nema af afspurn.
LÁ
Athugasemdir
Því miður eru fjölmiðlar á Íslandi algjört prump. Það má til dæmis heyra á Fréttamanni Rúv frá Alþingi, þar sem hún frussar út úr sér með vandlætinu öllu sem snýt að Jóni Bjarnasyni og frumvörpum hans, konan er svo gjörsamlega á móti honum og hans málfutningi að ég skammast mín fyrir að þessi stofnun þykist vera frjáls og óháð. Þvílíkt og annað eins hlutdrægnin að drepa hana.
Þessi maður heitir hann ekki Grétar Áss, Þórhallur Baldursson eða hvað hann nú heitir sá ágæti maður, segist vera stjórnmálaprófessor, en er svo hlutdrægur að skömm er að, minnir að einn heiti Vilhjálmur sem gaggaði um að allt færi til fjandans ef við samþykktum ekki Icessave 2 og 3. Og miklu fleiri, að þessir aðilar selji gjörsamlega sannfæringu sína fyrir einhvern óskilgreindan málstað gerir það að verkum að þeir eru svo ótrúverðugir í huga almennings að það á alveg að sleppa að ræða þeirra hlið á málum.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 8.6.2011 kl. 18:08
Ætli grásleppukarlinn og væntanlegur útgerðarmaður Lýður Árnason tali án tillits til hagsmuna. Auðvitað eru alltaf hagsmunir undir í öllum málum.
ólafur (IP-tala skráð) 8.6.2011 kl. 20:01
Að það sé skítalykt á kamrinum, kemur ekki á óvart í tilfelli HAfró og Háskólans. Íslenskt fræðimannasamfélag er ansi litað af hagsmunapoti af ýmsum toga. Í öðrum löndum væru samskonar tengingar taldar vera spilling :S
Sigurður Jón Hreinsson, 8.6.2011 kl. 20:39
Það er ekki takandi mark á þessum leigupennum LÍÚ. Það er ekki kvótinn sem er vandamálið það er viðkoma stofnsins. Mín skoðun er sú að loðnan sé af skornum skammti og neysla á henni í lífríkinu sé meiri í dag en var fyrir 5 til 10 árum þar á ég við að nýjar tegundir hafa komið inn í lögsögu okkar, til að mynda makríll. Hann gæti neytt meira magn en við höfum verið að veiða og þá er ekkert annað að gera ne að hætta loðnuveiðum strax.
Menntaða fólkið okkar er að fara frá landinu í störf erlendis vegna aðstæðna í efnahagsmálum. Þá má með sanni segja að þorskurinn og sjófuglarnir verði næstir í röðinni.
Guðlaugur Hermannsson, 8.6.2011 kl. 23:44
Ásthildur, fjölmiðlar eru varasamir og ekki sízt sá ríkisrekni. Í kvótamálunum er þetta afar áberandi. Ólafur, takirðu ekki mark á párinu vegna grásleppunnar hlýturðu að setja varnagla við skrifum fræðimanns sem sækir launin til LÍÚ. SJH, háskólasamfélagið er í heild í vanda og vart mark á því takandi. Og, Guðlaugur, kvótinn er vandamál sem markaðsvara en síður sem veiðistýring. Efast um að þorskurinn yfirgefi Íslandsstrendur þó menntafólkið geri það en vitanlega best að halda í bæði.
LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 9.6.2011 kl. 00:34
Við verðum að horfast í augu við þá döpru staðreynd að búið er að veðsetja óveiddan fiskinn fyrir 15 falda Icesave ætlaða skuld okkar. Þeir sem hæst höfðu um þá staðreynd á Alþingi steinhalda nú kjafti. Þó blasir við að erlendir aðilar eru komnir með flesta sína putta á þennan erfðarrétt almennings með einlægum stuðningi handhafa veiðiréttar.
Jónas S Ástráðsson, 9.6.2011 kl. 07:27
Þessar auglýsingar útgerðarmanna eru að verða pínlegar. Halda þeir virkilega að þeir geti blekkt fólkið sem sat uppi atvinnulaust með verðlausar íbúðir og hús, eða þá sjómenn sem voru sviptir leyfinu til að veiða, vegna þess að það var búið að "gefa" kvótan. Þegar menn detta ofan í að ofdramatísera þá uppskera þeir eins og þeir sá.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 9.6.2011 kl. 09:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.