12.6.2007 | 02:53
GLÁMBEKKIR
Lullaði með hundinn í hádegisblíðunni, báðir nýklipptir. Fórum fyrst framhjá skólahúsinu og litum útsofnir hvor á annan enda krakkakvakið þagnað á skólalóðinni. Með trommuheila í eyrunum lágu gelgjur bæjarins fretandi í grasköntunum, ágætar staðfestingar samfélags sem fyrirlítur barnaþrælkun. Áin var að jafna sig á vorleysingunum og rann hjá með jöfnum hraða eins og gamlingjarnir tveir sem örkuðu síðasta spölinn. Greindi orðaskil og kvartaði annar um bekkleysi í bænum, hvergi væri hægt að tylla sér. Foreldrar, eflaust í fæðingarorlofi, komu á móti mér með barnavagn og atyrtu hundinn, ég atyrti krakkann á móti. Við bæjarmörkin sneri ég við og sá gamalmennin sitjandi á splunkunýjum glámbekk. Greindi orðaskil og kvartaði annar yfir grjóthörðu sæti en hinn yfir óþarflega mörgum svona bekkjum og stuttu bili á milli. Hundurinn skilaði loks sínu við árbakkann, ég skildi eftir poka fyrir gelgjurnar sem mjökuðust nær. Sáttir dröttuðumst við heim, félagarnir, bæði við guði og menn.
LÁ
Athugasemdir
HUNDINN!!!
Hvar er tha minn hundur!!!!
Ylfa Mist Helgadóttir, 14.6.2007 kl. 13:59
Tíkin er heima ófrísk og með morgunógleði. Annars yndislegt dýr, vel alin og geðgóð. Hvolparnir verða gersemar...
Lýður Árnason, 15.6.2007 kl. 02:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.