25.10.2007 | 01:50
GÓÐAR LÖGGUR
Eins og ávallt í rigningartíð er Óshlíðin (vegarslóði milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur) viðsjárverð og ferðalag um hana krefst ýtrustu varkárni, ekki sízt í myrkri. Einmitt þannig voru aðstæður í kvöld þegar ég, ásamt Grími Atlasyni, bæjarstjóra, lögðum á brattann Ísafjarðarmegin eftir vel heppnaða knattspyrnuiðkun. Hlutverkaskipanin var þannig að Grímur fylgdist með grjóthruni ofan úr hlíð en ég stýrði og fylgdist með hnullungum ef vera skyldu á veginum. Bíllinn hafði verið á verkstæði fyrr um daginn en meinið misgreinst og því töluverður sláttur á greyinu, ýmist rauk hann af stað eða rétt truntaðist. Mikil spenna var því í loftinu og sjáöldrin þanin eins og þegar menn aka fjallvegi í brattri hlíð sjávarmegin. Skyndilega brá fyrir ógreinilegum bláum bjarma og rétt sem snöggvast héldum við það vera neistaflug milli grjóta en létti stórum þegar við sáum laganna verði við hefðbundið vegaeftirlit. Viðkunnanlegum lögreglumanni fannst aksturslagið óhefðbundið en hló þegar ég sagði sannleikann og ekkert nema sannleikann. Óðamála sagði Grímur mig afburða ökumann og sjálfan sig hafa verið edrú í 800 vikur. Niðurstaðan var lögreglufylgd til Bolungarvíkur án þess að vera í stöðu sakborninga og enduðu allir heima, heilir á húfi. Segið svo að löggan sé ekki stundum góð.
Athugasemdir
Ég þekki eina ógeðslega góða löggu....í öllu :)
Flatbrjóstan frá Flateyri (IP-tala skráð) 26.10.2007 kl. 18:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.