3.11.2007 | 17:56
BJÖRN BJARNASON
Glugga stundum á önnur blogg, þ.á.m. Björns Bjarnasonar enda glöggur oft og vel að sér. Nú átelur Björn starfsmenn þá sem ásaka stórverzlanir um blekkingar í garð neytenda, skilur lítt í mynd- og raddbrenglunum í opinberri framgöngu þessa fólks. Þetta er ein stærsta skuggahlið einkavæðingarinnar, skrímslin sem vaxa, fá en voldug, gírug og ganga út á magafylli og ekkert annað en endalausa magafylli. Áður fyrr þorði fólk ekki að standa andspænis bankastjórum ríkisbankanna og ráðherrum, nú eru spretthlauparar einkaframtaksins teknir við keflinu. Örlög uppljóstrara eru sjaldan góð og frumkvæði þeirra lítils metin þó samfélagið í heild njóti góðs af.
Björn sakar í sömu grein blaðamann fyrir að ganga erinda yfirboðara sinna og þyrma þeim í umfjöllun sinni. Legg ekki á það dóm, minni þó á þögn morgunblaðsins og aðgerðarleysi í máli þar sem upplýsingaskylda til almennings var algjörlega hunsuð. Tel reyndar engan einn betri en annan í þessum efnum en boltinn endar ávallt í greip lesandans, hann metur vægi, gildi, trúverðugleika og vinnubrögð fjölmiðla á sama hátt og hann velur sér epli til átu. Vonandi kemur þessi neytendaumræða samt almenningi til góða, verður kaupmönnum hvatning og Birni Bjarnasyni óska ég sannlega gæfu í hvívetna.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.