5.11.2007 | 02:00
KVENNAKRAFTUR
Horfi maður framhjá þáttastjórnandanum var kynjahlutfallið 50/50 í Silfrinu í dag. Sjálfum er mér innilega sama en hreifst enn einu sinni af síðasta viðmælandanum, Svandísi Svavarsdóttur. Kona sú er beinskeytt, talar skýrt og laus við málæði. Hún virðist gera sér grein fyrir hlutverki sínu og hverra hagsmuna skal gæta. Á von á uppgangi hennar á næstunni og óska henni velfarnaðar. Stallsystur Svandísar fyrr í þættinum mæltu fyrir kynjakvóta í fyrirtækjum og jafnréttiseftirliti. Áherzla kvenréttindabaráttunnar er merkilega einskorðuð við stjórnunarstörf sem auðvitað hentar sumum ágætlega, ekki sízt framagjörnu fólki. Hinn sanni aðskilnaður kynjanna í launamálum liggur þó í kjörum aðhlynningarstétta og kennara. Þangað á að beina kröftunum, þar yrði stærsta steininum lyft. Vilji konur skáka karlaveldi fyrirtækjanna er ekkert sem bannar stofnun kvennafyrirtækis með áherzlur á konur sem eru jú 50% markaðarins. Kvennabankar, kvennaSPA, kvennabónus, kvennaráðgjöf, kvennaferðir, kvennaorka. kvennaútrás, kvenna þetta og kvenna hitt, af nógu er að taka. Við konur segi ég þetta: Velgið karlaveldinu undir uggum með eigin krafti en ekki íþyngjandi lagasetningum á aðra.
Athugasemdir
Sæll Lýður.
Það er sannarlega þarft að vekja athygli á frammistöðu Svandísar Svavarsdóttur því hún ber af sem gull af eiri í stjórnmálum í dag.
Er annars að öllu leyti sammála þér í því sem þú hér segir, allt þetta er rétt.
kv.gmaria.
Guðrún María Óskarsdóttir., 5.11.2007 kl. 02:24
Ég hef aldrei getað séð neitt sama sem merki við jafnrétti og kvenréttindi. Í mínum huga þýðir femenisti kvenréttindi, þar sem "femine" þýðir jú "kven" .
Mér hefur oft fundist þessar kynsystur mínar kalla hlutina þeim nöfnum sem best hentar hverju sinni. En jafnréttissinnar verða þær aldrei í mínum huga.
Verð að játa að ég hef ekki fylgst með umræddri manneskju þannig að ég ætla hvorki að lasata hana né lofa..
Agný, 5.11.2007 kl. 04:04
Lýður minn Árnason þú átt heiður skilinn!
Fyrir það eitt að hafa fundið eina kerlingarsnift sem er beinskeitt, talar skýrt og er laus við málæði...hef ekki enn rekist á neina eina..
Heiða Þórðar, 5.11.2007 kl. 23:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.