9.11.2007 | 02:19
HINSTA FERÐIN
Skrítinn dagur. Sigldi út í Hestfjörð með krukku móður minnar sem kvaddi þennan heim fyrir mánuði. Ekki svo gömul en södd lífdaga. Við feðgarnir vorum í öruggri vörzlu skipstjóra sem bæði var sérfróður um svæðið og sérlega skemmtilegur. Ekki sakaði að hann var á sömu skoðun og við í kvótamálunum. Siglingin hófst í Súðavík og um kaffileytið vorum við komnir á áfangastað, svokallaða Skógarbotna í Hestfirði miðjum en þar ku vaxa þari með tilþrifum. Afar hentugt því gróður var líf og yndi þeirrar gömlu auk þess sem nafn hennar táknar sjávarperla. Þarna, í byrjun ljósaskipta, var sjórinn spegilsléttur, svalt loft og tært. Gamli maðurinn las ljóð eftir Steingrím Thorsteinsson, 19 aldar skáld, og eftir smá fuður tókst okkur að opna krukkuna og skvettum gráhvítri özkunni út fyrir borðstokkinn, hún sökk fljótt. Blómin hinsvegar flutu, rauð og hvít, fuglum og sel ábyggilega til furðu. En hinsta óskin var þessi og segja má að loksins séu öll kurl komin til grafar. Á heimstíminu fann ég til söknuðar en þó mest reisnar. Svona vil ég líka hafa þetta, einfalt, eðlilegt og umhverfisvænt.
Athugasemdir
Gitta var líka algjör perla.
Gógó (IP-tala skráð) 9.11.2007 kl. 07:45
Er með smá orðsendingu til þín í gestabókinni, þegar þú mátt vera að. Kveðja
Benedikt V Warén (IP-tala skráð) 9.11.2007 kl. 21:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.