13.11.2007 | 02:45
RÚV & BJÖRGÓLFUR
Breyting RÚV í opinbert hlutafélag hefur haft þó nokkrar breytingar í för með sér. Búið er að grisja efstu starfsmannaþrepin, færri axla nú meiri ábyrgð og laun þeirra hækkað en réttlætingin sú að sparnaðurinn er meiri en því sem nemur. Nýjasta innspilið er aðkoma auðmanns sem vill styðja rausnarlega við íslenzkt leikið sjónvarpsefni í samstarfi við RÚV en ekki sem styrktaraðili að sögn útvarpsstjóra. Þannig sjá sumir nýjan grundvöll leikins sjónvarpsefnis sem sárlega hefur vantað síðan menningarsjóðurinn sigldi sinn sjó. Hollustuvinasamtökin eru tortryggin á þetta fyrirkomulag og telja auðmanninn seilast of langt og geta jafnvel orðið stefnumarkandi fyrir RÚV. Ekki skal um það fjölyrt en beina aðkomu RÚV að svona samstarfi tel ég ónauðsynlega og betra fyrir stofnunina að kaupa myndir langt komnar í framleiðslu og geta þá valið úr það besta. Sjónvarpið hefur ekki úr of miklu að moða þegar kemur að innlendri dagskrárgerð og bein þátttaka á upphafsstigum kvikmyndaverka gerir lítið annað en að fastbinda fjármagn sem kannski verður lítið úr. Hitt, að sannreyna gæði verkanna, lágmarkar áhættu auk þess sem framleiðendur fá tækifæri að sýna hvað í þeim býr. Meðan RÚV er enn í opinberri eigu tel ég fyrrgreint fyrirkomulag farsælast með hagsmuni almennings í huga. En sé útspil einkageirans heilshugar er það auðvitað fagnaðarefni út af fyrir sig.
Athugasemdir
Minnsta barnið á heimilinu bað um "að við segjum thank you very much við góða maðurinn með flotta hatturinn". Það þótti mömmu vel til fundið og er hér með skilað.

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 13.11.2007 kl. 15:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.