18.11.2007 | 05:38
BARNAAFMÆLI
Samkvæmt nýlegum rannsóknum stenst fátt samanburð við samvistir þegar kemur að forvörnum fíkniefna. Þó niðurstaðan komi kannski fáum í opna skjöldu er vart verra að hafa vísindin sín megin. En sem sagt, vertu með barninu þínu og fíkniefnafenið fjarlægist. Skrapp svo fyrri part kvölds, nýlesinn af ofangreindum fróðleik, í barnaafmæli og hugðist fá mér kaffisopa í kalsanum. Stutt vera þar jók mjög skilning minn á vaxandi fíkniefnavanda. Hvernig í ósköpunum er hægt að umgangast svona villidýr? Mikið skil ég að foreldrar vilji lágmarka samskipti sín við jafnvel eigin afsprengi og treysti bara á guð og lukkuna um framhaldið. Hávaðinn, frekjan, umgangurinn, sykurinn, óhófið, skeytingarleysið, athyglisbresturinn, vælið, volið, tuðið og tilætlunarsemin, allir þessir eiginleikar í hávegum og aumingjans staðarhaldarinn ýmist á bæn eða klukkunni. Næsta rannsókn mætti gjarnan vera á þætti okkar foreldra í þessum óskapnaði. Alltént var mikil gleði að komast aftur út í kalsann og rápa með þakklátan hundinn. Raunar íhugunarefni að hundstík skuli vera svona miklu betur ágengt að undirbúa afkvæmi sitt fyrir lífið en mannskepnunni, bæði minni að viti og tíma.
Athugasemdir
"Mikið skil ég að foreldrar vilji lágmarka samskipti sín við jafnvel eigin afsprengi og treysti bara á guð og lukkuna um framhaldið. Hávaðinn, frekjan, umgangurinn, sykurinn, óhófið, skeytingarleysið, athyglisbresturinn, vælið, volið, tuðið og tilætlunarsemin, allir þessir eiginleikar í hávegum..."
Lýður, vort kom á undan, eggið eða hænan? Er allt þetta sem þú nefnir ekki einmitt afleiðing afskiptaleysisins?
Greta Björg Úlfsdóttir, 19.11.2007 kl. 10:19
Ójú, örugglega meira en helmingurinn ef ekki megnið er afleiðing en við kveikjum annaðhvort of seint eða hreinlega alls ekki. Þetta með eggið og hænuna er því umdeilanlegt.
Lýður Árnason, 20.11.2007 kl. 04:05
Það hefur víst alltaf verið það...
Greta Björg Úlfsdóttir, 20.11.2007 kl. 12:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.