27.11.2007 | 01:34
MÚSAGANGUR
Eftir 7 tíma ferðalag frá öndvegissúlustaðnum fórum við hundurinn út í Hnífsdal og lölluðum síðasta spölinn. Himnalampinn lýsti leiðina, draugalegur, daðrandi við ský. Ekki varð ég var við neitt misjafnt á leiðinni en allur er varinn góður á þessum slóðum afturgangna og yfirnáttúru. Heim kominn hugði ég gott til glóðarinnar, grjónagrautur á borðum og kanill. Hundurinn þaut inn í eldhús en kom aftur og hristi höfuðið. Kofinn tómur. Þá skyndilega trítluðu grísirnir tveir ofan af háaloftinu, annar rétti mér kvikmyndavélina, hinn benti mér á að hafa hljótt, báðir ljómuðu: Pabbi, nú verðurðu að hafa hljótt, það er mús í húsinu, alvöru mús. Yfirspennt fjölskyldan lokaði sig uppi á háalofti þar sem meinta mús var að finna. Mýs og flest þeim tengt hefur jafnan verið í metum fjölskyldunnar og má rekja það langt aftur í ættir, t.d. brynnti langafi þyrstum músum frostaveturinn 1918 (þaðan er máltækið ugglaust sprottið), amma mín dönzk bjó til sérstakan músaost og dreifði á jólunum og sjálfur var ég kallaður Lillimús löngu sjálfskeindur. Þetta var smá útúrdúr en skýrir þó þann ásetning fjölskyldunnar að ekki kom til greina annað en að ná gestinum lifandi. Meðvitaður um þetta rakti hundurinn slóðina inn í barnaherbergið og viti menn, músin skaust á milli leikfanganna, sat dágóða stund í hjómsveitarrútunni, renndi sér svo þvert yfir gólfið og tróðst undir jólaköttinn. Ráðagóð húsmóðirin smellti hælum og birtist á ný með heimatilbúna, músavæna músagildru. Henni var stillt upp, agnið mozarella og pistasíur. Ekkert bólaði á músinni og var nóakonfekti frá í fyrra bætt á matseðilinn. Hundurinn var fljótur að sporðrenna þeim bita og var þá náð í hangikjöt og hundinum haldið. Bíngó, þetta hreif og snarráð húsmóðirin ekki lengi að skella í lás. Greyið horfði á okkur agnarstund áður en hún tók til matarins. Skömmu síðar ókum við músin ein um bæinn. Enginn var á ferli enda seint og fámennt. Sá þó óskilahund skipherrans ráfa um í næturkyrrðinni. Ósjálfrátt stöðvaði ég bifreiðina hjá reisulegri ríkmannsvillu, Grímsstöðum, tók gildruna og opnaði. Það síðasta ég sá var músin hlaupandi að húsinu, leitandi að yl....
Athugasemdir
Lýður, þú er sjálf þíns nafni.
Snilldarfærsla..
Steingrímur Helgason, 27.11.2007 kl. 02:31
„Það var tuttugu mínútna umræða um jafnréttismál í þættinum á sunnudag sem fór fram á milli tveggja kvenna á meðan karlarnir sátu hjá og þögðu og kvörtuðu eiginlega yfir því eftir þáttinn að hafa ekki komist að."
Og skilar mér síðan mús sem þú átt sjálfur!
Reiði guðanna (IP-tala skráð) 27.11.2007 kl. 09:38
Algjör snilld!
Heiða Þórðar, 27.11.2007 kl. 15:57
Blessaður Mér langar bara að spyrja þig og Írisi, hvar get ég keypt vídeómyndband af ykkar lögum? Ég er búinn að leita á netinu en ég er örugglega í vitlausum garði.
Kveðja Finnur J
Finnur J Albertsson (IP-tala skráð) 27.11.2007 kl. 18:11
Greta Björg Úlfsdóttir, 27.11.2007 kl. 19:10
Sæll, Finnur. Svarið við spurningunni er hvergi. Hinsvegar hef ég í hyggju að lauma einhverju inn á bloggsíðuna innan tíðar, þegar dregur að jólum.
Kveðja,
LÁ
Lýður Árnason, 28.11.2007 kl. 01:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.