1.12.2007 | 04:57
NÚLLSPILLING
Þegar mæld er velmegun, hamingja, frelsi, ríkidæmi, spilling, hreinleiki og fegurð skipar landinn sér í efstu sæti. Allt eru þetta þó afstæð fyrirbæri nema kannski spillingin. Í samanburði við einræðisríki mörg hver kemur Ísland klárlega vel út en það er álíka marktækt og kvenréttindi samanborin við umskurðarlönd. Sá innríðandi siður að segja "rannsóknir sýna" hefur þann annmarka að vera skoðanamyndandi og taka af mörgum ómakið að hafa skoðanir yfir höfuð. Oftar en ekki er hvati rannsókna samt sókn eða vörn einhverjum málstað eða hagsmunum og hagfelldri útkomu hampað, óhagfelldri ekki. Hver og einn hefur þó sín skilningarvit, getur metið það sem fyrir augu og eyru ber og ályktað út frá því. Á okkar torgum eru engin lík né skothvellir en grannt gáð víða dregið fyrir. Hvað fram fer á bak við luktar dyr er auðvitað fáum viðkomandi, undantekning er opinber umsýsla. Hún er mál okkar allra og luktar dyr óviðeigandi. Þessu eru menn í vaxandi mæli að gleyma og kjörnir fulltrúar almennings, sumir hverjir, virðast í vandræðum með umboð sitt. Kveður svo rammt að einleik nokkurra að þjóðin hefur rumskað. Þessi spígsporun á milli almannaheilla og sérhagsmuna túlkar þjóðin sem spillingu en er stjórnmálaflokkum greinilega minna áhyggjuefni. Stjórnmálaflokkar eiga að sýna viðspyrnu, taka ábyrgð á gjörðum sínum og einstökum gerendum. Þetta seyði á þjóðin ekki að þurfa að súpa.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.