RAUNVERULEIKAÁREITI

Áhyggjufaraldur vegna námsröskunar ríður nú yfir.  Raunveruleikaáreitið er dvínandi námsárangur íslenzks ungviðis en fyrirliggjandi heimssamanburður er óhagstæðari en áður.   Stærðfræði og náttúrufræði, einbeiting og útivist koma sýnu verst út.  Skyldi nokkurn undra?  Hvar eru sjónvarpslausu fimmtudagskvöldin og skautasvellin?   Skvapaður fjórtán ára unglingur skrifar á emmessenninu að hann hafi fengið nýjan farsíma árlega og nú þann sjöunda.  Klukkan er tvö um nótt.  Jafnaldrinn hinumegin á línunni, líka skvapaður, sendir SMS-skeyti á meðan til þriðja skvapaða unglingsins sem leitar tilboða á ebay.   Allir jórtra Snickers XXL og skola niður með mixi og/eða kóki.  Í morgunsárið sökkar skólinn, krakkarnir vaktir, fóðraðir  með súkkulaðihjúpuðu morgunkorni, síðan skutlað í skólann.   Allt liðið drullusyfjað eftir óraunveruleikaáreiti næturinnar.  Í hádeginu býður skólinn upp á kakósúpu og síðdegis, þegar búið er að aka  krakkafansinum heim, tekur skólastjórinn á móti klögum vefleiðis frá hneyksluðum foreldrum fórnarlamba óhollustunnar.   Fórnarlömbin sjálf glotta framan í vefmyndavélarnar, síheimkeyrð.  En nú er nýtt frumvarp menntamála væntanlegt og á hárréttum tíma.   Aldrei skal spyrjast um íslenzka þjóð viðvarandi meðalmennska og næsta mæling, eftir sjö ár, leiðir vafalaust í ljós hlussujákvæða náms- og holdafarsröskun íslenzkra unglinga.   Kannski verður líka kominn nýr forseti, kona vonandi, þá fyrirsæta íslenzka lýðveldisins.   Það eru björt raunveruleikaáreiti framundan.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Hvernig væri að læknar tækju sig saman og settu í gang RISA heilsuátak þar sem heilbrigt mataræði og holl hreyfing væri málið. Þar mætti banna allt sykurát, laugardagsnammi, alla sykraða gosdrykki og sykraðan mat ... í ákveðin tíma.

Ein lítil saga:

Kunningjahjón mín með 3 börn eru nýlega flúin land og fluttur út til Danmerkur. Þar urðu þau strax vör við að þau fengju strax um 100 þús. kr. meira í vasann á mánuði þar sem nú þurfti ekki að borga alla skapaða hluti fyrir börnin. Leikskólanum hrósuðu þau í hástert þar sem starfsfólkið var að vinna vinnuna sína á fullu en ekki sitjandi inni á kaffistofu allan daginn.

Þau byrja á því að senda börnin í skólann með venjulegt íslenskt nesti og strax fyrsta daginn var hringt frá skólanum og foraldrarnir hundskömmuð fyrir að senda börnin með sykraða drykki í skólann (hér er átt við gervisykur líka ).

Næsta dag var hringt aftur frá skólanum og núna voru þau skömmuð fyrir að senda börnin í skólann með hvítt brauð. En í skólanum væri bara leyft dökkt hollustubrauð.

Þriðja daginn var hringt aftur og núna var málið að það má alls ekki senda börnin í skólann með sykrað jógúrt. Núna voru foreldrarnir hreinlega spurð af því hvort að það væri ekki allt í lagi þarna heima hjá þeim og vinsamlegast bent á að svona væri EKKI liðið í þessum skóla.

Þú sem læknir ættir að reyna að taka þetta mál fyrir og vekja athygli á öllum þessum smáatriðum sem íslenskir foreldrar spá hreinlega ekkert í.

Kjartan Pétur Sigurðsson, 5.12.2007 kl. 07:55

2 identicon

Það er ekkert endlaust hægt að leysa allt með bönnum.  Gott mál að auka hvatningu til heilbrigs mataræðis og hreyfingar. En að banna sykur er algjörlega út í hött. Eigum við þá  t.d. ekki líka að banna salt eða takmarka neyslu þess?

Baldur (IP-tala skráð) 5.12.2007 kl. 10:21

3 Smámynd: Steingrímur Helgason

Dona er skandínavsanseríngin í skólakerfinu að skila sér á sínum þriðja hörmúngaráratug.

Boð eða bönn breyta ungvu hér um, byltíngakennd hugarfarsbreytíngu þarf, já, & það smotterí að foreldrar nenni aftur að taka þátt í uppeldinu á börnunum sínum. 

Steingrímur Helgason, 5.12.2007 kl. 22:00

4 identicon

Svona er þetta þegar að foreldrar eru ekki eins aktívir og áður var. Ég var svo heppinn að hafa foreldra sem höfðu brennandi áhuga á því að ég væri íþróttum. Það sést ekki á mér í dag annað en að ég sé í "sófaíþrótt" en það á ekki við um barnið mitt. Mér er annt um að barnið mitt sýni ábyrgð á eigin heilsu og því reyni ég að ala hann upp á heilbrigðan hátt. Ég er hins vegar á móti bönnum. Það er mikið vænlegra að sýna börnum okkar skilning og tökum þátt í þeirra lífi. Tæknin er komin til að vera, en það er okkar að reyna að stýra börnum okkar í rétta átt. Lítið dæmi þó að þar hljómi fáránlegt. Strákurinn minn er búinn að vera að safna sér fyrir leikjatölvu og hann kaus að kaupa sér Nintendo Wii. Þetta er hlægilega skemmtilegur gripur. Í stað þess að nota þumlana við stýringu, þá er minn á fullu inn í stofu að boxa eða spila tennis og átökin eru veruleg, ég er enn með harsperrur eftir átök í boxi :) Þarna er eitt lítið skerf í átt að heilbrigðari skemmtun. Ef að þau vilja leikjatölvu, þá er þetta málið. Passið bara upp á allt punt í stofunni og ljósakrónur hehehe...

Kv.

Gaui

Gudjon M. Þorsteinsson (IP-tala skráð) 5.12.2007 kl. 23:08

5 Smámynd: Heiða  Þórðar

Vúú, einsog talað út frá mínu hjarta, með þínum orðum...svo satt - svo satt

Heiða Þórðar, 6.12.2007 kl. 01:49

6 identicon

Bönn eru dauð í baráttunni en á hverjum degi vinnast smá sigrar, maður á mann.   Tel neikvæða þróun í þyngd og námsárangri barna að miklu leyti heimavinnu foreldra sem þurfi að taka í sínar hendur yfirstjórn heimilanna.  Góð byrjun væri að taka anda fram yfir efni.

Lýður Árnason (IP-tala skráð) 6.12.2007 kl. 04:51

7 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Ekki er ég oft sammála þér Lýður Árnason en núna finnst mér þú hafa þó nokkuð til þíns máls. Andann fram yfir efnið. Þetta djöflast maður í vinnu/námi/whatever, einhverja 8-10 tíma á dag og borgar 60-70 þúsund kall á mánuði fyrir heilsdagsskólann/leikskólann og kakósúpuna í mötuneytinu. Ofaná þetta bætist svo allt hitt, tónó, íþróttanámsskeið, æfingagjöld, sportfatnaður, ´hljóðfæraleiga, tónfræðibækur, nótnabækur.... Ekki það að Bolungarvík gerir vel í þeim efnum, með afsláttarkorti til tómstundanotkunnar. Nú hef ég í þrjá, bráðum fjóra mánuði, staðið í þessum djöfulgangi með lélegum árangri peningalega séð, ömurlegum árangri fjölskyldulega séð og sjálfsmorðsbærum árangri móralslega séð!

Gæðastundir eru ágætar til síns brúks. En þær uppfylla engan veginn þarfir barnanna fyrir samveru við foreldranna. Ég hef prófað bæði. Ég hef verið mikið heimavið og því í miklum samvistum við börnin mín og ég hef líka prófað hitt. Að láta heilsdagsskólann/leikskólann/mötuneytið sjá um uppeldi og fæðulegt eldi barnanna minna og tölvuna svo brúa bilið þangað til ég kem heim. Og ég þarf að vinna fyrir hundraðþúsundkalli til að eiga fyrir þessu. Rugl!!!!! Nóg er komið, fyrst ég fór að unga þessum annars bráðkrúttlega skríl mínum út, ber mér líklega skylda til að gera mitt besta til að úr verði sómasamlegir einstaklingar. Og það þarf ég að gera NÚNA. Því að núna er allt að gerast. Börnin eru að vaxa úr grasi í dag!

Þess vegna er ég að hugsa minn gang. Endurskipuleggja. Forgangsraða uppá nýtt. Taka andann fyrir efnið. Nú, og ef í hart fer... þá fer ég bara á hausinn. Eða slæ lækninn um uppeldisstyrk.....  :)

Ylfa Mist Helgadóttir, 10.12.2007 kl. 22:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband