19.4.2008 | 04:54
REYKJAVÍKJURRUGL
Frammistaða kjörinna borgarfulltrúa í Reykjavík á yfirstandandi kjörtímabili er eftirtektarverð og sama hvar ber niður. Flugvallarmálið er enn óuppgert, samt var fjármunum dælt í samkeppni um Vatnsmýrarsvæðið. Sundabraut er í salti, fótboltastúkan úr gulli, miðborgin í niðurníðslu og vilja sumir ýtu á allt saman meðan aðrir meta kofana á hundruði milljóna. Heildræn stefna er engin og naga meiri- og minnihlutar skóna hver af öðrum. Nýjasta sjokkið er svo afturgenginn REI-draugur sem birtist borgarbúum sem bitbein. Reyndar hefur núverandi borgarstjóri ekki á sér yfirbragð hugsjónasdruslu og óvíst að samstarfsmenn hans í meirihlutanum geti hnikað til málum. Einsýnt er að traust borgarbúa á ráðamönnum sínum verður varla endurheimt á þessu kjörtímabili og krafa um endurnýjun hlýtur að hljóma kröftuglega í aðdraganda kosninga. Lærdóm má þó draga af kjörtímabilinu, einn sá að ungt, fallegt fólk og reiprennandi er ekki endilega fallið til stjórnunar, annan þann að enginn stendur lengi í skugga fyrir tilviljun og þriðji er annað bæjarfélag. Til dæmis Flateyri.
LÁ
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.