21.4.2008 | 23:48
VITLAUST GEFIÐ
Sólarhringsumönnun alzheimersjúklings er metin á tæplega 20. þúsund krónur. Þetta er álíka upphæð og dagpeningar opinberra starfsmanna í útlöndum. Þegar við kaupum bensínlítra er um helmingur greiddrar upphæðar vegna álagna ríkisins. Af nær öllu sem við kaupum rennur fjórðungur til ríkisins. Ríkissjóður er skuldlaus. Sveitarfélögin hinsvegar ekki og taka samhliða verri skuldastöðu á sig æ fleiri verkefni. Krónunni er haldið sofandi í öndunarvél eftir glannaakstur viðskiptajöfranna hvurs vit var ofmetið. Mannauðurinn safnar skrani, kerlingar flykkjast á stjórnunarnámskeið og börnin fá greiningar í stað flengingar hér áður fyrr. Byggingar hækka og kallast turnar þó verðgildið hjaðni. Höfuðstólar hækka líka en ráðherrastólarnir snúast bara í hringi og mennirnir með. Stóriðjulausir vestfirðir, fagra Ísland, afnám eftirlaunafrumvarpsins, endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins, allt merkingarlaust. En lífið er skilningstré og hver árhringur ýtir manni örlítið upp. Það skýrir að einhverju leyti fjarveru eldri borgara á kjörstað.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.