22.4.2008 | 00:06
KRÓNAN ER SAKLAUS
Hverri þjóð er sæmd að eigin mynt, ekki síður en eigin tungu og menningu. Þessar þjóðarstoðir eiga nú allar undir högg að sækja og hér á Íslandi bráðna þær hratt undan hnattvæðingunni líkt og heimskautaísinn undan sínu böli. Hraðast er þó sótt að krónunni. Hún hefur, blessunin, þjónað núlifandi kynslóðum allvel og í hugum margra óaðskiljanleg þjóðarsálinni. Þetta viðhorf er skiljanlegt enda sammerkt með mörgum grannþjóðum okkar. En nýjum tímum fylgir endurskoðun og ljóst að viðskiptalegir hagsmunir mæla í mörgu á móti okkar ástkæru mynt. Hún er þó ekki blóraböggull alls sem á hana er klínt. Fall gjaldmiðils gagnvart sínum líkum úti í heimi hlýtur að byggjast á vantrausti, þ.e. verðgildi viðkomandi myntar er dregið í efa og fjárfestar telja viturlegra að ávaxta pund sitt í öðru. Hávaxtastefna með hágengi hefur umliðin ár gert íslenzku krónuna aðlaðandi og ýtt gjaldeyri inn í landið. Stærstu hvalir viðskiptalífsins ráða miklu um í hvora áttina áin rennur og geta með sporðaköstum sínum haft umtalsverð áhrif. Hvort umhleypingar síðustu vikna séu af þeirra völdum og jafnvel samantekin ráð er umdeilanlegt en ætti fáum að koma á óvart. Fall krónunnar er rangri gengisskráningu að kenna og líkja má við mann sem skráir 50 kílóa missi á ári en lætur hjá líða að minnast á hin hundrað sem hann bætti á sig. Ríkisstjórnin kveður ríkissjóð digran og vel í sveit settan, sveitarfélög hinsvegar, fyrirtæki og almenning vaðið villu og óráðsíu. Samkvæmt hagtölum er Ísland ein skuldugasta þjóð heims, íslenzkt viðskiptavit ekki lengur í sérflokki og bankarnir hættir að lána bolnum sem þekkir lítt önnur form viðskipta. Sú gamla hefð, að borga út í hönd, er nýjum kynslóðum fjarlæg, úrelt og ónóg. Betra er, eða réttara var, í boði, þ.e. fá allt strax og borga seinna. Óhætt er að segja að lánaframboð og fyrirgreiðsla hefur risið hraðar en glóran og menn hellt og súpt ótæpilega beggja megin borðs. Og nú stendur enginn undir meira sukki sem sumir kalla velmegun. Greyið krónunni er svo kennt um allt saman.
Athugasemdir
Þú ert þokkalega að naglhitta óþokkalega þarna.
Steingrímur Helgason, 22.4.2008 kl. 00:44
Flottur pistill og hverju orði sannara sem í honum kemur fram.
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 22.4.2008 kl. 07:17
Góður að vanda.
Níels A. Ársælsson., 22.4.2008 kl. 09:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.