6.5.2008 | 01:14
EF OG KANNSKI
Skondin sú tilhneiging að grípa sannfæringar á lofti og hlusta ekki á rök til enda. Mætast þá stálin stinn. ESB-umræðan er ágætt dæmi um þetta. Þar berja fylkingar sér á brjóst og þykir sinn fugl sá eini. En grjóthörð fullvissa er varasöm í jafn stóru máli einfaldlega vegna þess að forsendur eru ekki fyrirliggjandi. Styrk stjórn efnahagsmála og jafnvægi í þjóðarbúskap er skilyrði umsóknar, allir málshefjendur virðast sammála um það. Sem stendur er Ísland úti í móa í þessum efnum. Menn tala tveim tungum varðandi auðlindir okkar og lögsögu, segja sumir það samningsatriði, aðrir ekki. Ennfremur greinir menn á um lýðræðishalla evrópusambandsins og meina sumir önnur efnahagssvæði áhugaverðari. Fullveldið er eðlilega mörgum kært en stangast á við sýn evrópusinna um stöðugt gengi, evrópskt verðlag og vexti. Evrópskt veðurlag myndi ugglaust gera gæfumuninn fylgdi það með í pakkanum. Alltént er ljóst að innganga í ESB er varanlegt afsal margra þeirra réttinda sem við nú njótum. Kannski er innganga í evrópskt þjóðabandalag þess virði, kannski ekki. Þessari spurningu þarf þjóðin að svara og ættu stjórnmálamenn að hætta hnútukastinu, einbeita sér að viðreisn efnahagsins og meðfram því knýja fram fakta um óljós mál varðandi ESB-aðild með könnunarviðræðum. Umræðan verður miklu markvissari fækki efunum og kannskinu.
LÁ
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.