14.5.2008 | 01:51
FRAMBOÐ ÁN EFTIRSPURNAR
Borgarstjórnarmeirihlutinn fallinn. Fylgishrun sjálfstæðismanna staðreynd og borgarstjórinn úti. Líka Framsókn. Skyldi nokkurn undra. Fylgisaukningu samfylkingar er erfiðara að skýra, ekki ríður hún feitum hesti frá OR-málinu, íþróttastúkunni, Vatnsmýrarruglinu og miðbænum. Almenn gengisfelling borgarfulltrúa er staðreynd og tiltrú kjósenda verulega löskuð eftir slælega framgöngu á nær öllum sviðum. Kjörtímabilið ónýtt segja sumir og lái þeim hver sem vill. Með örfáum undantekningum má segja að sjaldan hafi jafn margar liðleskjur rallað um ganga ráðhússins og haldið annað. Verði sömu andlit áfram í boði má búast við rýrri kjörsókn eða engri. Rimman framundan um þessi sæti verður vafalaust hörð og margir sem hugsa sér gott til glóðarinnar. En ætli flokkarnir að halda áfram flaggi sínu á barnungum handaupprétturum, gösprurum, framagosum, kveinkellíngum og þaðan af verri aftaníossum má ætla að framhald verði á röngum ákvörðunum, sofandahætti, sandkassaleik og skítkasti. Allir flokkar ættu að huga að þessu því nóg er komið af framboðum án eftirspurnar.
LÁ
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.