17.5.2008 | 01:47
AÐGREININGARHNEIGÐ
Andúð er tvenns konar. Persónuleg eða ekki. Persónuleg andúð sprettur einatt vegna beinna orða eða íhlutunar sem særa eða skemma. Hin andúðin, sú ópersónulega, er yfirleitt yfirfærsla. Tek hunda sem dæmi. Óskiljanleg fyrirlitning í garð þessara ferfættu yndisvera er furðanlega mörgum eðlislæg og súrar athugasemdir látnar fjúka bæði á mann og dýr. Bara fyrir að vera til. Flestir kannast við dilkadrætti stjórnmálanna. Ljóstri einhver upp skoðun sinni mætir hann gjarnan höfnun og útskúfun. Jafnvel einelti. Þar er best að fylgja sigurvegurunum enda leita þangað flestir, fórna frelsinu fyrir skjólið. Litarhætti, trú og peningum er líka troðið í skilvindu og notað til aðgreiningar. Hvers vegna jafn fullkomin vél og mannskepnan burðast með þessa leiðu aðgreiningarhneigð, því er vandsvarað, en þó má benda á Skaparann sem strax í byrjun blés belginn með sinni eigin útvöldu þjóð.
LÁ
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.