1.6.2008 | 03:58
LANDSBYGGÐIN KVÖDD
Sneri nefinu til borgarinnar í dag. Landsbyggðin kvödd. Ók í góðum félagsskap hunds og eigin afurðar. Afgangurinn tók flugið, þ.á.m. hinn væri, mánaðargamli, Verka-Lýður. Greyið er farinn að brosa þegar enginn sér til. Fuglalíf er fjörugt við Djúp og í djúpbotninum veifaði spéfugl rauðri hárkollu og afhenti okkur söðul til viðgerðar í Sollinum. Í fyrstu taldi ég þetta sérann í Vatnsfirði en krakkinn þekkti sinn skírnarprest og hvæsti. Á heiðinni hringdi Grímur af heimili Mcartneys í Liverpool og lýsti tremma í hópi íslendinga sem þar voru. Alltaf skal landinn tremmast á erlendri grundu. Þorskafjarðarleiðin var bráðin og bauð okkur yfirferð. Á henni miðri gerðu vart við sig steinsmugueinkenni og lendingarstaður valinn í Bjarkarlundi. Yfirstandi útihátíð setti strik í reikninginn, lokatökur Dagvaktarinnar með Gnarr og félögum. Aflausnin varð því ekki fyrr en á Skessuhorni. En hundinum var létt og þá okkur hinum. Við Bifröst bjargaði ég veglausri konu, fann fyrir hana kandidat til dekkjaskipta. Krakkinn orgaði á ís í Baulunni en innkaupastjórninni hafnað. Neyddist til áfyllingar í Hyrnunni og keypti í leiðinni sýslumannsbita handa hundinum. Á Borgarfjarðarbrúnni hófst hefðbundinn spurningaleikur, krakkanum tókst að vinna sér inn 500 krónur og slapp því með 300 úr eigin vasa fyrir gangnagjaldinu. Það var svo á Breiðholtsbrautinni sem okkur dreifbýlistúttunum var gefið fyrsta fokkmerkið, var þar að verki kona, ábyggilega á sjötugsaldri. Við brostum til hennar öll enda hvergi fegurra vorkvöldið en í henni Reykjavík.
LÁ
Athugasemdir
Snilldarpistill
Kv. Steini
Þorsteinn Gunnarsson, 14.6.2008 kl. 03:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.