X-D FYRIR DROTTINN.

X-D fyrir Drottinn ómar víða á elliheimilum á kjördag.  Sjálfboðaskutlurnar mæta þá í morgunkaffið, minna á fagnaðarerindið og aka síðan atkvæðunum á kjörstað sem þykir tilbreytingin góð.  Fagnaðarerindið X-D fyrir Drottinn hefur í drjúgan tíma rekist með þjóðinni, ekki eins lengi og hið eina, sanna en nægilega þó til að spyrða þau saman á kjördag.  Sá dagur gæti látið nærri og þó hið eina, sanna haldi sínu striki hefur hitt fagnaðarerindið, X-D fyrir Drottinn, þróast hratt í samanburði.  Skýrzla fagnaðarerindaeftirlitsins (FEE), sem stungið var undir stól, er svona:   Fagnaðarerindið X-D fyrir Drottinn hvorki heldur vatni né gengur á því, er um megn að breyta þessum bragðleysisvökva í vín og mettar ekki 300.000 þúsund manns með 130.000 þúsund fiskígildum.  Fagnaðarerindið X-D fyrir Drottinn bannar Pétri að fiska og breytir fiskiþorpinu hans í draugabæ fyrir ferðamenn.   Fagnaðarerindið X-D fyrir Drottinn blindar sjáendur, tungusker mælendur og byggir hús sín á sandi.  Fagnaðarerindið X-D fyrir Drottinn fyrirgefur ekki vorar skuldir heldur leiðir oss í freistni og frelsar ekkert frá illu.  Fagnaðarerindið X-D fyrir Drottinn skrásetur alla heimsbyggðina á íslenska skattborgara.  Fagnaðarerindið X-D fyrir Drottinn kastar fjöregginu fyrir höggorminn, endurreisir Sódómu, breytir örkinni í einkaþotu, lætur burtreka vitringana, sendir sérsveitina í fjárhúsið og svínahjörð á jötuna.  Fagnaðarerindið X-D fyrir Drottinn nælir Betlehemsstjörnum í útrásina, eignar sjálfu sér gullkálfinn og treður undir Ingibjörgu asna til að ríða inn um hlið öryggisráðsins.   Fagnaðarerindið X-D fyrir Drottinn rekur sína minnstu bræður út í eyðimörkina meðan borðin svigna undan kræsingum síðustu kvöldmáltíðanna.  Fagnaðarerindið X-D fyrir Drottinn sleikir fætur faríseanna meðan þeir eta, eltir þá á ösnum út í lönd og kyssir fósturjörðina að skilnaði.  Fagnaðarerindið X-D fyrir Drottinn reisir Júdas upp frá dauðum, skipar Barrabas í embætti hæstaréttardómara og æðsti presturinn hækkar stýrivextina þrisvar áður en Þorgerður flýgur tvisvar.  Fagnaðarerindið X-D fyrir Drottinn að eilífu, amen.  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll lýður.

Svo fá voru þau orð.

Eitt er víst.Sjálfstæðisflokkurinn varir ekki að Eilífu.

Það gerir hins vegar hinn eini og sanni Drottinn Guð Almáttugur skapari Himins og Jarðar.. Amen.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 21.10.2008 kl. 02:51

2 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

góður

Hólmdís Hjartardóttir, 21.10.2008 kl. 04:14

3 identicon

Amen

Ágúst G. Atlason (IP-tala skráð) 21.10.2008 kl. 09:13

4 Smámynd: Heiða  Þórðar

Snillingur

Heiða Þórðar, 21.10.2008 kl. 12:52

5 identicon

Allt er gleymt á kjördegi

Hildur (IP-tala skráð) 21.10.2008 kl. 21:46

6 identicon

Drottinn gaf og drottinn tók og drottinn fór á skíði....

F# og C (IP-tala skráð) 21.10.2008 kl. 22:33

7 Smámynd: Haukur

aha, snilld! en hvað um x-s, kannski x fyrir Satan? Heyrst hefur að ESB sé uppfylling spádómanna um dýrið. En munum lika að satan getur birst i ljósengilmynd! Ufff ekki er auðvelt að sjá og skilja. Kveðja,H

Haukur, 22.10.2008 kl. 11:26

8 identicon

X-D þýðir líklega X-Djöfullinn í það minnsta erum við forgarði helvítis

Arinbjörn Kúld (IP-tala skráð) 22.10.2008 kl. 11:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband