27.10.2008 | 02:57
LJÓS Í MYRKRI.
Skerpast nú línur hratt í íslenzkri pólitík enda uppgjör óumflýjanlegt. Skoðanakönnun er að líkum, framsókn sýpur mjög seyðið af einu stærsta óláni íslenzka lýðveldisins, fyrrum formanni og frjálslyndir hafa róið á mið sundurþykkju sem eðlilega beinir fólki annað. Samfylkingu vex fiskur um hrygg þrátt fyrir stjórnarsetu og það í mestu kollsteypustjórn lýðveldisins. Enginn þar á bæ bjó yfir skyggnigáfu né afli til afstýringar á þeirri efnahagshrollvekju sem rétt er að byrja. Því má klóra sér í hausnum yfir góðu gengi þar á bæ. Vinstri grænir hafa sopið hveljur og bent á ýmislegt sem nú er í hendi. Varnaðarorð þeirra teljast nú til tekna og með velmælandi forystumann eru þeir til alls líklegir. Sjálfstæðisflokkurinn er í flestra hugum bílstjórinn sem rútunni valt og fylgistap skýrist af því. Krafa almennings nú er ný hugsun og nýtt fólk. Undirtektir á hinum pólitíska vettvangi hafa hinsvegar verið dræmar og ekki að sjá nema megnið ætli að sitja áfram. Efnahagsbandalag Evrópu verður bitbein næstu kosninga en í því felst kærkomið sóknarfæri fyrir sjálfstæðismenn enda margir andvígir aðild sem hugnast ekki bakborðinn. En þó yfirlýst leiðtogaefni flokksins myndu sóma sér vel í hvaða Hollywoodmynd sem er hafa bæði skaðast á ótæpilegu sviðsljósi útrásar og einkavæðingar. Sjálfstæðisflokkurinn á þó augljóslega eina vonarstjörnu sem nýtur lýðhylli. Á ég þar við borgarstýruna sem náð hefur góðum tökum á viðfangsefni sínu. Sjálfstæðisflokkurinn með Hönnu Birnu í brúnni gæti hugsanlega verið álitlegur kostur fjölmargra íslendinga sem vilja nýja hugsun, nýtt fólk, ekki of mikla vinstri slagsíðu og varnagla við ESB.
LÁ
Athugasemdir
45% tóku ekki afstöðu Lýður. Pældu í því. Þýðir að meta flokkslínur út frá því? Þetta er alger vantraustyfirlýsing á íslenska stjórnmálamenn. Alla.
Ekki gott fyrir þjóð, sem vill byggja allt sitt á lýðræði er það?
Vonandi stígur þetta ekki til höfðuðs á Samfylkingunni svo þeir slíti stjórnarsamstarfinu og boði til kosninga mitt í öllum látunum. Það væri svosem eftir svo sjálfmiðuðum tæifærissinnum.
Annas skemmtileg grein eins og endra nær.
Jón Steinar Ragnarsson, 27.10.2008 kl. 03:07
Reyndar rétt hjá þér, Jón Steinar, nær helmingur tók ekki afstöðu. Það skyldi þó ekki vera ávísun á nýja breiðfylkingu? Loksins myndu sumir segja.
LÁ
lydur arnason (IP-tala skráð) 27.10.2008 kl. 03:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.