18.11.2008 | 03:49
KENNITALAN ÍSLAND 170644.
Mótmælaalda gengur yfir höfuðborgina og reyndar víðar. En hverju er verið að mótmæla? Í sex vikur hafa umtalsvert margar prósentur íslendinga komið saman á helgasta reit lýðræðisins og krafist afsagnar toppfígúra. Þær treysta sínum dyggasta bandamanni fyrir útflæðinu, tímanum. En eins og tunglið togar í hafið hafa þessar samkomur líka sinn togkraft. Mótsögnin er að það er einmitt valdstjórnin sjálf.Æðstustrumparnir héldu blaðamannafund í vikunni. Kynntu neyðaraðgerðir fyrir þá verst stöddu. Ágætt framtak en hjarta almúgans sló annan takt sem endurspeglaðist í spurningum fjölmiðlafólksins. Af þeim beindist aðeins ein að þessum aðgerðum. Hvorugur þessara stjórnmálaforingja hefur staðið undir væntingum, hvorugur vill meðtaka þá staðreynd og hvorugt andlitið tilheyrir framtíðarsýn þjóðarinnar. Engu að síður er marvaðinn troðinn. Sjálfstæðismenn lýsa sig viljuga að breyta kúrsinum varðandi evrópumálin og segja sjálfir vegna breyttra aðstæðna. Vegna eigin óstjórnar segi ég. Hugmyndafræðilega hefur flokkurinn gjörsamlega tapað sinni tiltrú og leitast við að bæta ímyndina með skrumi. Samfylkingin tók við kefli framsóknar en endurbæturnar sem áttu að fylgja þessu tiltölulega unga, en fjölmenna stjórnmálaafli komu aldrei. Í oddaflugi stjórnmálanna flaug þessi skari aftast og áreynslulaust. Svo gala samfylkingar að evrópa hafi verið málið, fjarvera okkar í þeim gleðskap olli þessum harða skelli. Vegna eigin óstjórnar segi ég. Augljóst er á viðbrögðum að stjórnarflokkunum hugnast að sitja áfram. Annar vill forðast fylgishrun, hinn skil ég ekki. Báðir hunsa ábyrgð sína á þjóðarskömminni og bjóða áfram sömu andlit, sömu gildi, sömu hugsun. Engin viðleitni nema sú sem tryggir þau sjálf í sessi. Í þessu fólki endurspeglast ekki bara efnahagshrunið heldur líka siðferðisbresturinn sem að baki liggur. Drottin gaf og Drottin tók, þetta fólk bara tekur og tekur og vill halda áfram að taka. Þessu er verið að mótmæla. Austurvöllur er vagga lýðræðisins. Þar stendur húsið sem hýsa á þá hugsun. Hana er hinsvegar búið að útreka og því er verið að mótmæla. Mótmælin eru krafa um virðingu við þær hugsjónir sem kennitalan Ísland 170644, lagði upp með. Margir hafa lagt orð í belg, ný andlit með ólíkan bakgrunn, fjölbreytta sýn og úrræði. Þennan rekavið vil ég inn í alþingishúsið og út með þann gamla. LÁ
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.