23.11.2008 | 05:17
ÚTBURÐUR RÁÐAMANNA?
Mörgum þykir nóg um hamaganginn við lögreglustöðina í dag. Kastaðist í kekki vegna ófrelsis eins mótmælandans. Auðvitað eru óspektir aldrei til eftirbreytni en hvað á fólk að gera? Reiðin kraumar í þjóðfélaginu og hratt flæðir undan ráðamönnum. Þeir, greyin, eru óvanir svona, hafa alltaf komist upp með svínaríið. En þegar strákgrey er hnepptur í varðhald fyrir litlar sakir meðan ráðamenn, embættismenn og athafnamenn sem velt hafa heilli þjóð um koll spranga um lausir og hafa ekki einu sinni vit á að koma sér í burtu, þá væri nú harla skaplaus þjóð sem ekket aðhefðist. Á Austurvelli hélt laganemi snarpa ræðu og hótaði útburði stjórnenda úr opinberum byggingum verði þeir ekki farnir af sjálfsdáðum innan viku. Kannski verða ráðherrar hnepptir í bönd og sendir til Timbúktu eins og Hannibal til Bolungarvíkur hérna um árið. Stríð er í uppsiglingu á milli ríkisstjórnar og almennings. Hvort takist að svæla út ófögnuðinn kemur í ljós en vopnahlé er auðtryggt, einfaldlega með yfirlýsingu um kosningar í vor.
LÁ
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.