KRUKKUR EHÁEFF.

Svo virðist að betra sé að skulda meira en minna þegar kemur að afskriftum.  Almenningi er gert að skila veðum sínum standi þeir ekki í skilum, gerður gjaldþrota og öreigi í áratug.  Eháeff-grúppur á fjármálamarkaðnum skila hinsvegar veðum sínum, mestmegnis verðlausum pappír og skuldin núllast.  Halda svo áfram sem nýtt Eháeff og bjóða í hræin.  Tvær krukkur, tvær kennitölur, tapið sett í aðra, gróðinn í hina, sú með tapinu leikur þrotabúið, hin frátekin og innsigld.  Þannig er skotsilfrinu hellt á milli krukka, skuldirnar núllaðar, gróðanum áfram velt og notaður til að kaupa aftur fyrri krukkuna á gjafverði.  Skotheld taktík sem tryggir ævarandi plús þeirra sem kunna og hafa aðgang að þessari lunknu krukkutaktík.  Yfirlýsingar auðmanna um eignir bankanna voru uppörvandi, sömuleiðis vilji þeirra til hjálpar.  Nú er hinsvegar ljóst að áhuginn á næstu gleði er meiri en á fyrirliggjandi tiltekt.  Hún er skattborgaranna.    Vegna fríverzlunarsamnings útrásarinnar við íslenzk stjórnvöld leggst heil þjóð nú á árarnar.  Og vilji hún sjá réttlætinu fullnægt verður það án dóms og laga enda að hvorugu hugað í upphafi.     Rauður þráður útrásarinnar er framsal fiskveiðiheimilda.  Stökkbreytingin sem varð með þeirri lagasetningu sáði þvílíkri arfasátu að jafngildir sálarkrabbameini þjóðar.   Úr þessum jarðvegi spratt sérgróðahyggja örfárra manna.  Firnasterk hagsmunasamtök þessu tengd hafa leitt ákvarðanatöku stjórnmálamanna um árabil og enn engin lát á.  Viðskiptamódel kvótaframsalsins var veðsetning fiskimiðanna sem ku í stjórnarskrá vera þjóðareign en gengur kaupum og sölum manna í millum og erfist.  Blaðran er nú sprungin og hagsmunaaðilar liggja eftir vankaðir, sjávarútvegurinn í skuldafeni og lánadrottnar í eigu ríkisins.  Engar fótboltaferðir á næstunni.Og þó.  Ráðamenn hafa engin áform um veðinnköll aflaheimilda.  Þvert á móti skal engu hagga.  Jafnvel komið til tals skuldaafskriftir útvegsbænda án afsals veiðiheimilda.  Og evrópusambandið, fordyri helvítis, er það ekki lengur í augum þessara manna enda spilið búið á Íslandi og því farsælast að koma veiðiheimildunum í verð annarsstaðar.  Offorsið varðandi ESB mun svo ýta sjónpípunni enn neðar og enginn vita neitt fyrr en nýtt skrímsli stekkur fullskapað úr undirdjúpunum.    

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband