"ÞETTA ÞÝÐIR STRÍÐ"

Þetta þýðir stríð, klikkti ljósmyndari sem orðið hafði fyrir piparúða.  Byltingin er hafin, sagði annar.  Sá þriðji kallaði byltinguna skrílslæti og lögreglan beitti kylfum.  Orsakavaldar alls þessa, ráðherrar og þingmenn, fylgdust með úr skjóli sínu innanveggja.  Ömurlegt hlutskipti stjórnmálamanns gagnvart þjóð sinni.  Lengi hefur kraumað í þjóðarsálinni og nálgast nú suðupunkt.  Samfylkingin knúin til funda og búast margir við stjórnarslitum.  Þessi breiðfylking vonar snerist upp í andhverfu sína og er nú martröð heillrar þjóðar. Sjálfstæðisflokkurinn undirbýr landsfund, afturreka og rígheldur í gamla glansmynd.  Sjálfstæðisflokkurinn sem innleiddi klíkusamfélagið, skálkaskjól eiginhagsmuna, sjálf ormagryfjan, eygir eigið gjaldþrot.  Kynning á nýjum framtíðarleiðtoga í fréttaþætti eins og mannát undir iðandi trumbuslætti kjósenda.  En hverju sæta þessi hörðu mótmæli nú?  Við innáskiptingu samfylkingar voru margir vongóðir enda mikill meirihluti þjóðarinnar sem stóð að því vali. Vörumerki fyrri stjórnar var tveggja manna tal, baktjaldamakk og klíka.  Vinavæðing, forréttindi og hroki.   Samtrygging, flottræfilsháttur og dramb.  Í einu orði:  Lokað klíkusamfélag.  Samfylkingin átti að breyta þessu.   Það var hennar hlutverk.   Útkomuna þekkja allir:  Áfram klíkusamfélag, bara ekki ríkt heldur fátækt.Mesta óstjórn lýðveldisins skilur eftir sig sviðinn akur en næsta víst að kerti hennar sé senn útbrunnið.  Einnig veruleg líkindi á kosningum á þessu ári.  Og þá verður kosið um klíkusamfélagið.  Ekki ESB eða bankahrunið heldur klíkusamfélagið.  Og það þýðir stríð. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: doddý

- og ég hlakka til

kv d

doddý, 21.1.2009 kl. 13:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband