ÞINGALDUR

Endurnýjun þingmanna verður greinilega þó nokkur í komandi kosningum.  Mörg gömul brýni eru sjálfhætt og önnur eiga erfitt um vik vegna fortíðardrauga.  Yngri þingmenn hyggjast flestir sækja til endurkjörs og ný andlit spretta velflest úr flokksstarfi eða sveitarstjórnum, gjarnan á fertugsaldri, ekki ósvipað bankakrökkunum sem klessukeyrðu þjóðina með snilld sinni og viskiptaviti.  Æskudýrkun á þingi á sér þó skýringar.  Efniviðurinn er meðfærilegur, goggunarröðin fyrirséð og dómgreind í samræmi við reynslu.   Æðstu ráðamenn hleypa enda ógjarna einstaklingum heimtröðina sem sýna yfirburði.  Slíkir gætu fært þá sjálfa í skuggann.  Því er flokksæzkan afar heppileg ísækja og þeir sem líklegastir eru til að halda þræðinum bornir á gullstól, skaffað lifibrauð, aðgengi, athygli og fjárráð.  Með þessu er klúbburinn pólitískt líftryggður.  Niðurstaðan fyrir samfélagið er óljós þegar vel árar en í skipbroti eins og núna ávísun á mannskaða enda klúbbnum ekki ætlaður síðasti björgunarbáturinn. Nú ríður á að fá fólk á alþingi sem ekki tengist svona flokkadráttum.  Fólk með reynslu úr skóla lífsins og gjarnan metandi á sínu sviði.  Ekki virðist auðvelt að virkja þannig fólk til starfa og er það áhyggjuefni.  Umræður á alþingi undanfarið eru heldur ekki beint til að vekja áhuga, hvað þá yfirburðamanna. En foringjar stjórnmálaflokka gerðu þjóð sinni mikinn greiða með að kalla eftir fulltingi slíkra manna og vonandi er viðleitni núverandi stjórnar til marks um það sem koma skal.Vaxandi vanmátt alþingis og undirgefni gagnvart ráðherrum má refjalítið rekja til uppruna og ungs aldurs þingmanna.  Uppeldi í stjórnmálaflokki miðar að flokkshollustu, ógagnrýnni hugsun og þagmælsku.  Einnig fylgir ofurkapp einatt ungum aldri og það viðheldur rúllunni.  Endurnýjunin verður því einungis á umbúðum, ekki innihaldi.   Ég mæli með að þingaldur verði hækkaður í 40 ár og helst 45 hjá körlum.           

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið er ég sammála þér um hækkun þingaldurs.

Við hjónin vorum einmitt að tala um það á dögunum að það veitti ekki af að hækka hann í 40+ þar sem það fólk veit t.d. að peningar vaxa ekki á trjánum!!!

Bestu kveðjur á Mola og rest :)

Spákonan á Kambinum (IP-tala skráð) 18.2.2009 kl. 08:54

2 Smámynd: Hlédís

Góður pistill, Lýður! Þú bendir á vandamál sem margur hugsar ekki út í! Ert þú nú kominn í 45+ hópinn?   Athyglivert líka þetta með "peningana á trjánum".

Hlédís, 18.2.2009 kl. 18:56

3 Smámynd: Hlédís

Hugrenningatengsl vegna "peninga á trjám": - Skyldu skollabuxur, öðru nafni nábrækur, samt ekki vera til í nokkrum "fjölskyldum" Íslandsins? Að minnsta kosti vaxa þar aurar í vösum!

Hlédís, 18.2.2009 kl. 19:04

4 identicon

Sæl, Hlédís.  Ég er á mörkunum að vera kjörgengur til alþingis samkvæmt eigin tillögu en ef guð lofar er ekki óhusandi að ég nái þessu marki.

lydur arnason (IP-tala skráð) 19.2.2009 kl. 04:52

5 identicon

er það ekki morgunljóst að ráðherraræðið sér um þetta allt? Ég veit ekki betur en að meðalaldur þar hafi sjaldan farið undir 45 árin frá stofnun lýðveldisins. Hann hefur oftar en ekki verið vel á 6. tuginn. Sökk ekki Ísland undir forystu fólks sem fæddist á árunum 1930 til 1965 (síðustu 4 ár skipta miklu en síðustu 18 ár öllu). Það er alveg sérdeilis hlægilegt þegar fólk sem er 40 plús er að hossa sér á kostnað þeirra sem yngri eru með orðunum: Þessir unglingar - þeir vita ekki hvað erfiðleikar eru...Minni á að Aristóteles sagði: Heimur versnandi fer (þá var unga fólkið ekki nógu mikið eins og hann vildi að það væri).

Hér fara hugmyndir óttans - breytingar eru óhjákvæmilegar á öllum tímum.....

Bassaleysinginn (IP-tala skráð) 19.2.2009 kl. 13:04

6 identicon

Málið snýst um eitt og aðeins eitt:  Á seinni skeiðum ævinnar er augljóslega meiri yfirsýn enda lengri vegferð að baki.  Eftir fertugt hafa flestir markað sér spor í lífsins skóla, komið undir sig fótum, harkað á vinnumarkaði, átt börn, maka, jafnvel tvo, misst ástvini og síður ginkeyptir fyrir freistingum.  Auðvitað er þetta ekki algilt en meginstraumurinn þó þessi.   Hver sé betri manneskja eða verri kemur þessu ekkert við og margt ungt fólk veit hvað erfiðleikar eru en eldri einstaklingar búa að auki yfir æðruleysi.   Ungt fólk gerir heiminn skemmtilegan og fallegan, eldra fólk leiðinlegan og ljótan en þess er þó fortíðin og af henni lærum við mest.  Hugmynd mín um þingaldur er ekki hugmynd óttans enda undirskrifuð fullu nafni.

lydur arnason (IP-tala skráð) 20.2.2009 kl. 04:39

7 identicon

Er örugglega a rettum aldri!!!!

Þ'orður Sævar J'onssondoddiafi (IP-tala skráð) 22.2.2009 kl. 02:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband