27.2.2009 | 12:20
Á ÞINGI Í BRUSSUBÆ.
Ísland er komið í evrópusambandið. Ég sit með 4 löndum mínum á þingi þess arna. Hinir 750 sitja fyrir sín lönd, ólík lönd með ólíkan kúltúr, ólík viðhorf, ólíka náttúru, ólík tungumál og ólíka hagsmuni. Bændur í Portúgal kvarta yfir ágangi storka og ég minnist Styrmis sem Siv bjargaði svo eftirminnilega. Sjómenn í Danmörku vilja drýgja tekjurnar með eftirlitsmyndavélum sem afhjúpa brottkast, ég stend upp og mótmæli, í Bolungarvík eru engir hommar, áheyrnarfulltrúi klerkastjórnarinnar í Írak klappar mér lof í lófa. Einu sinni var ég í hreppsnefnd, við vorum tvö á móti þremur. Alltaf með í ráðum en réðum engu. Máttum tala en enginn hlustaði. Tími okkar var tímaeyðsla hinna. Niðurstaðan niðurstaða hinna. Og nú, sitjandi í æðstamusteri Evrópu, er mér hugsað til hreppsnefndarinnar, 40/60. Hér 1/150. Á Íslandi búa 300 þúsund hræður, í Evrópu 710 milljónir. Einhverjar þessara kúlna rúmast að vísu ekki í ESB en samt, íslendingar eru ekki borg í Evrópu, ekki, kaupstaður, ekki kauptún, kannski tjaldstæði. Engu að síður, nú erum við þjóð á meðal þjóða. Með góðum hug og vilja geta gestir og gangandi séð okkur fimmmenningana hér í æðstamusterinu í Brussubæ og vinkað. Eftir aðildina hefur margt breyst. Við erum alltaf með í ráðum og megum líka nota myntina þeirra og vextina. Stöðugleikinn er frábær og skútan sem áður ruggaði milli himins og heljar líður áfram eins og bátur á kerru. Auðlindirnar algerlega í okkar eigu þó þær lúti skilmálum og skriffinsku bandalagsins. Þetta er allt spurning um túlkun. Og hvað fullveldið varðar, þá stendur það algerlega óhaggað, við megum kyrja þjóðsönginn, hífa upp fána og hvetja handboltalandsliðið. Líka éta kindahausa, klæðast upphlutum og syngja fimmundir. Enn og aftur, spurning um viðhorf. Evrópubandalagið er ekki það skrímsli sem allir héldu, það verndar okkur gegn öllum Björgólfunum, Davíðonum og Jónunum. Bandalagið er ekkert annað en risastórt skemmtiferðaskip. Við njótum ferðarinnar þó við ráðum engu hvert siglt er, okkur er líka sama, skipið getur ekki sokkið. Alveg eins og Heimdallur. Alveg eins og Titanic. Fjandinn, ég gleymdi að rétta upp hönd. LÁ
Athugasemdir
.....og K.H.G. aftur (genginn) kominn í framsókn!!!!!
Er Siggi Hafb. kominn þangað líka.......þeir virðast nefnilega alltaf fylgjast að :)
Spákonan á Kambinum (IP-tala skráð) 27.2.2009 kl. 17:16
Æeg er þess fullviss, þar sem Kristinn er, þar er Siggi, þar sem Siggi er, þar er gaman.
Kveðja, LÁ
lydur arnason (IP-tala skráð) 28.2.2009 kl. 03:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.