15.4.2009 | 03:16
TIL HAMINGJU, BORGARAHREYFING!
Reykjavík norður átti þennan 3ja dag páskavikunnar. Söguleg skoðanakönnun og aldrei að vita nema rithöfundurinn og leikstjórinn knái, Þráinn Bertelsson, skolist inn á þing. Hann átti nokkur lunkin tilsvör í rökræðum kvöldsins og vildi helst geta spólað 15 ár aftur í tímann og hraðspóla til baka án framsóknar- og sjálfstæðisflokks. Formaður framsóknrflokksins sagði ekki kappsmál fyrir sig að verða þingmaður. Eilítið ankannalegt að slengja þessu fram en að öðru leyti slapp Sigmundur óskaddaður frá þættinum. Ástþór er forsprakki lýðræðishreyfingar sem vill tölvuvæða þingsal og opna ákvarðanavald fyrir almenningi. Sagðist og geta dregið landið upp úr skuldafeninu með aðkomu erlendra aðila hingað, ennfremur fangelsa óreiðumennina og galaði í lokin að flokkarnir og fulltrúar þeirra væru drasl. Sumir segðu fas og framkomu Ástþórs óviðeigandi en flestir hljóta að viðurkenna skerpun hans fyrir þáttinn. Samfylkingarmaðurinn var frasakenndur og langorður, sömuleiðis presturinn fyrir frjálslynda. Stagl hans á líkkistusmíðinni var þó athyglisvert og sömuleiðis mat hans á dauða flokksandstæðinga. Menntamálaráðherra, fulltrúi vinstri grænna, var klöppuð upp eftir hverja málsgrein og einatt óverðskuldað. Frasabull. Áherslumunur stjórnarflokkanna varðandi evrópumálin er greinilega óleystur en þó mátti lesa úr svörum beggja að málamiðlunin lægi um sjálfstæðisflokkinn. Illugi Gunnarsson, fulltrúi þess flokks, var ekki öfundsverður enda flug fálkans í flúkti við fall krónunnar. Afhroð sjálfstæðismanna virðist óumflýjanlegt enda ekkert nýtt í boði, hvorki hold né hugmyndafræði. Í samantekt má segja að borgarahreyfingin hafi verið sigurvegari kvöldsins og breytingarsinnar eygja loks raunhæfan valkost.
LÁ
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.