19.4.2009 | 04:42
KOSTUR Í STÖÐUNNI.
Fyrir þá kjósendur sem ekki geta hugsað sér ríkisforsjá, skattahækkanir og evrópubandalagið eru aðeins þrír kostir í boði í komandi alþingiskosningum. Skila auðu, sjálfstæðisflokkurinn og frjálslyndir. Klessukeyrzla þjóðarinnar á síðasta ári hlýtur að skrifast á sjálfstæðisflokkinn enda sýna skoðanakannanir sögulegt fylgisfall. Spillingarský hefur lengi vomað yfir forystusveit flokksins og von margra um endurnýjun brugðist. Hagsmunavarzla stendur flokknum mjög fyrir þrifum og eflaust margir gegnir flokksmenn sárir yfir viljaleysi þingmanna til lýðræðisumbóta. Margir segja flokkinn ekki stjórntækan og í þeim hópi ekki bara utanflokksmenn. Skattastefna sjálfstæðisflokksins er þó í mörgu skynsöm, í stað aukinnar skattheimtu hvetja fólk fremur til framtaks og búa þannig til nýja skattstofna og störf samhliða. Frjálslyndir taka undir þetta ásamt því að hafna evrópubandalaginu, að sinni a.m.k. Munurinn á þessum tveimur hægriflokkum kristallast í afstöðu til kvótamála. Frjálslyndi flokkurinn hefur, ásamt nokkrum samfylkingarmönnum, verið ötul málpípa breytts fiskveiðistjórnunarkerfis og verra ef rödd hans hyrfi af þingi. Þeir fjölmörgu sjálfstæðismenn sem sjá vilja breytingar í þessum efnum geta kosið frjálslynda flokkinn. Við má bæta að frjálslyndi flokkurinn kom hvergi nærri hruninu, býður ekki upp á skattahækkunarleið vinstri flokkanna og saltar ESB. Bendi á þetta sem kost í stöðunni.
LÁ
Athugasemdir
Mæl þú manna heilastur Lýður, það hefði verið gaman að sjá þig í framboði fyrir flokkinn.
Það er er ekki bara réttlátt að sjávarþorpin fái að njóta staðarhagkvæmni sinnar með því að nýta staðbundna fiskistofna, það er ekki síður skynsamlegt og þjóðhagslega hagkvæmt , auk þess sem okkur veitir ekki af auknum þjóðartekjum um þessar mundir. Sjálfstæðisflokkurinn hefur aukið hlutdeild ríkisins í þjóðartekjunum og vinstrimenn hafa heitið að gera betur.
Þá er rétt að halda því til haga að frjálslyndir hafa alltaf haft opið bókhald og hafa heitið því að þiggja ekki mútur, hvort sem einhver sér til eða ekki.
Sigurður Þórðarson, 19.4.2009 kl. 06:59
Sæll, Sigurður og þakka traustið. Hugmyndir um frjálsar/frjálsari krókabátaveiðar á grunnmiðum mun vonandi ná flugi og uppgjör í stóra kerfinu er óumflýjanlegt, ljóst að margar útgerðir hafa tapað sínum aflaheimildum og endurúthlutun stendur fyrir dyrum. Það ferli má ekki vera í líkingu við það sem nú er, skilin milli eigna- og nýtingarréttar verða að vera skýr, þjóðinni í hag.
LÁ
lydur arnason (IP-tala skráð) 19.4.2009 kl. 13:50
...nú dó eitthvað....
Falskur tónn - ekki þó bassinn (IP-tala skráð) 19.4.2009 kl. 19:46
Jú, það er bassinn, síðasta úmbaið... Hlustaðu bara: Úmb til hægri, úmb til vinstri, úmba, úmba, úmba, fokk.
LÁ
lydur arnason (IP-tala skráð) 20.4.2009 kl. 01:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.