TIMBURMENN & KONUR.

Kosningahelgin innibar ekki bara eintóma pólitík.  Garðhreinsun samfara úthreinsun úr alþingishúsinu þótti við hæfi og fræjum kreppusalata stungið í mold.  Má þar nefna ísberg, grasker og rótarhnýði.  Einnig spínat og klett.  Í hæsta trénu halda til tveir tittlingar og hafa kettir hug á báðum.   Nettenging var sett upp parinu og komandi ungum til verndar.   Munaði þá mjög um vestfirzkt verkvit.  Um kvöldið lagði svo nýstofnuð hljómsveit með hinn frjálslynda sveitarstjóra Dalamanna í fararbroddi land undir fót, tók hús í Leifsbúð við Hvammsfjörð og úmbaði fram á nótt.  Undirtektirnar voru  nokkrar og þó enginn hafi beðið um eiginhandaráritun sá ég engan mjög vonsvikinn.  Meira að segja læknirinn var mættur og þarf töluvert til að draga þá starfsstétt út úr húsi, ekki sízt með pela í vasa.  Þingmannsefni var og á staðnum og tókst hljómsveitin að úmba því inn á þing án nokkurs endurgjalds.  Í hléinu gekk að mér hópur sem kvaðst ætla að kjósa græningja þrátt fyrir Grím Atlason en gamall karl tók upp hanskann og sagði sveitarstjórann andvígan evrópu þó öðru sé haldið fram.  Róaðist hópurinn þá nokkuð.  Hrólfur Vagnsson, prófessor í harmonikkum, fór hamförum eftir hlé og kvað drundrímur ásamt fögrum ungsnótum.  Elskan mín var næstum farin úr að ofan í síðasta laginu en festi treyjuna í orgelútskoti.  Fiskisúpa var svo fram borin í dögun.  Hafi dalamenn þakkir fyrir frábærar móttökur. 

LÁ 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Timburmenn  hvað??...........Það væri frábært, ef þið Grímur og Hrólfur færu saman í pólitík.  Það er ekki vitlausara en hvað annað.  Húmorinn og hæfileikarnir eru til staðar.  Það mun fleyta ykkur alla leið.......Panta að verða einkabílstjóri hjá þér, þegar þú verður Heilbrigðistáðherra.

Þórður Sævar Jónsson (IP-tala skráð) 28.4.2009 kl. 03:11

2 identicon

Þakka traustið, Doddi minn, og auðvitað sjálfgefið að þú verður bílstjóri ef þannig verkast. 

lydurarnason (IP-tala skráð) 28.4.2009 kl. 03:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband