15.5.2009 | 04:31
ÖRLYGSSTAÐABARDAGI HINN SÍÐARI.
Útgerðarmaður og hagfræðiprófessor áttu skemmtileg innslög í kastljósinu í fyrrakvöld. Ólík sýn þeirra á kosti og galla firningarleiðar er lýsandi fyrir sjónarhorn hvors um sig. Útvegsmaðurinn sá hlutina frá eigin hagsmunum og taldi veiðiréttinn klárlega sína eign, hótaði málsókn á hendur ríkinu yrði því hnikað. Prófessorinn nánast brosti að þessari túlkun og kvað eignarétt auðlindarinnar óvéfengjalega undir þjóðarvæng og virtist alls óhræddur við málssókn. Útvegsbóndinn undirstrikaði að firningarleiðin gengi að sínu fyrirtæki dauðu og hann yrði aldrei til viðtals um fyrirbærið. Prófessorinn sagði firninguna vera varfærnislega og gætu sjávarútvegsfyrirtæki ekki höndlað hana væri það vegna rangra ákvarðana og þátttöku þeirra í útrásarfylleríinu, ekki vegna firningarinnar. Þessir menn voru eins og dagur og nótt, með ólíkan bakgrunn og endurspegluðu gjörsamlega óásættanleg sjónarmið. Báðir þó íslendingar. Framhaldið verður hatrammt og orustan um sjávarauðlindina Örlygsstaðabardagi hinn síðari.
LÁ
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.