3.7.2009 | 01:37
SOMBÍS.
Oft átelur fólk gagnrýnisraddir fyrir að vera of uppteknar af baksýnisspeglinum. Suðandi um hið liðna sem ekki er hægt að breyta. Þó Björgólfur gengi um í tunnu, Jón Ásgeir sæti með hálsjárn á Hrauninu, Oddsson & Ásgrímsson hafðir til sýnis í gapastokk, Haarde & Sólrún skikkuð í samfélagsþjónustu myndi það ekki spóla bankahruninu til baka. Kannski einhverjum liði ögn betur en varla lengi því í framundan eru næg verkefni og flest niðurdrepandi. Sýnu verst er þó sú staðreynd að flest andlitin í baksýnisspeglinum sem allir vilja gleyma blasa við í framrúðunni. Alveg sama í hvaða spegil maður lítur, glugga eða loftlúgu, alltaf sama fólkið, sömu andlitin, sama bullið. Fólkið sem brást hefur enn tögl og hagldir og útmoksturstæki lýðræðisins hvergi nærri nógu öflug. Hin napra staðreynd er því sú að engu skiptir hvernig fólk snýr baksýnisspeglinum, allsstaðar blasa við uppvakningar, sombís.
LÁ
Athugasemdir
Frábær lýsing á ástandinu.
Ásta B (IP-tala skráð) 3.7.2009 kl. 03:08
Þvíð miður, en hvað er til ráða að þínu mati?
Sólveig Hannesdóttir, 4.7.2009 kl. 00:16
Sæl, Sólveig.
Bylting er ein leið en seint sé ég að hún verði farin hér í norðankulinu. Ég held að persónukjör á þá leið að kjósandi flokks geti raðað frambjóðendum að vild sé nærtækast. Með því fengju nýir kostir hugsanlega brautargengi og þeir eldri sæta frammistöðumati hins almenna kjósanda, ekki bara innsta hrings og fylgifiska. Með þessu myndi hratið falla út. Hugmyndir um persónukjör að írskri fyrirmynd eru uppi en gagnslausar (sjá blogg dagsins). Afnemi fjórflokkurinn ekki flokksræðið verður svar margra dugandi íslendinga: Bless Ísland. Og það er slæmt.
Kveðja, LÁ
lydur arnason (IP-tala skráð) 4.7.2009 kl. 01:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.