28.7.2009 | 23:48
HVAÐ VARÐ UM X-VAFF?
Samkvæmt stjórnarsáttmála átti aðildarumsókn ESB að fá umfjöllun alþingis og hljóta síðan afgreiðslu og hverjum þingmanni einungis skylt að fylgja eigin samvizku. Með öðrum orðum átti þingræðið að vera ofar framkvæmdavaldinu en það hefur verið langþráð baráttumál núverandi stjórnarflokka. Flokkarnir komu sér saman um að vera ósammála um evrópumálin en leyfa þinginu að útkljá hvort út í aðildarviðræður yrði farið eða ekki. Allir vita nú að sú útfærsla var í anda fyrri ríkisstjórna, leikmynd fyrir kjósendur og mun háðung þingmanna vinstri grænna í þessu leikriti seint líða úr minni. Nýjustu bellibrögð þingmanna vinstri grænna eru innkallanir varamanna þegar sannfæringin er á skjön við það sem framkvæmdavaldið vill og verður. Þá fara menn á fjöll, eins og Steingrímur forðum, svo málin fái sinn framgang. Bera svo við fjarveru eða þegja þegar eftir er leitað. Mikil er niðurlæging þessa eina fjórflokks sem enga ábyrgð bar á hruninu og andæfði óréttlætinu svo kröftuglega, þessa eina fjórflokks sem virkilega gat tekið forystuna og sagt spillingunni stríð á hendur, þessa eina fjórflokks sem hafði hreinan skjöld og bar skylda til að taka kúrsinn. Hvað varð um ræðusnillinginn sem talaði kjark og þor í þjóðina og hafnaði erlendum yfirgangi og kúgun? Og alla hans fylgismenn? Hvað varð um öll búsáhöldin?
LÁ
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.