11.8.2009 | 03:45
NÆTURRÖLT Í HAFNARFIRÐI.
Hrökk við um miðja nótt þegar frúin arkaði fram með Lýðsson milli handa og kvað snáðann kominn með barkabólgu. Eins og sönnum sjúkdómafræðingum sæmir kýttum við um sjúkdómsgreininguna og mín skoðun að botnlanginn væri bólginn eins og í föðurnum nýlega. Sú gamla var hörð á sínu og málamiðlun mín um svínaflensu snarlega slegin af borðinu. Á meðan á karpinu stóð versnaði Lýðssyni og var ákveðið að fara í gönguferð, hafnfirzk næturkyrrð þykir góð við bólgum, næst á eftir vestfirzku fjallalofti. Haustanganin var teyguð ótæpilega af hundinum sem svelgdist á af öllu þessu ilmríki. En friður fyllti okkur hjónin og sættist ég barkabólguna og hún á botnlangabólguna. Við heimkomuna voru öll mein farin og Lýðsson farinn að leika á alls oddi. Held að Steingrímur og Jóhanna ættu að bjóða Jan Peter(forsætisráðherra Holllands) & Brown (Englands) á næturrölt í Hafnarfirði og fá þá kumpána til að gleyma Ísbjörginni í eitt skipti fyrir öll.
LÁ
Athugasemdir
Gott að Lýðsson á lækna í báðar ættir. Verra ef þeir eru ekki sammála. Gangi ykkur vel.
göngumaður í vestrinu (IP-tala skráð) 11.8.2009 kl. 19:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.