14.8.2009 | 05:27
TÍMI JÓHÖNNU.
Berast nú tíðindi úr gráa húsinu við Austurvöll að Ísbjargarpakkinn sé nú fullræddur og samkomulag um fyrirvara í höfn. Forsætisráðherra kveður þessa nýju ábót innan samningsrammans sem væntanlega þýðir á mannamáli að hún muni ekki raska ró viðsemjendanna. Sem hlýtur að jafngilda því að aðeins sé um orðalagsbreytingar að ræða sem engu raski efnislega. Og ætli þeir vinstri grænu sem þó sýnt hafa manndóm gegn þessum háðungarsamningi að taka þátt í slíkum leikþætti til bjargar ríkisstjórninni er litlu til að dreifa. Annaðhvort fer hér allt í bál og brand eða fólk hverfur af landi brott. Ekki skil ég hví ríkisstjórnarflokkarnir óttist svo mjög að semja upp á nýtt og telji umorðalaust samþykki slíks skuldabagga styrkja íslenzkt efnahagslíf. Fyrir utan óréttlætið gagnvart þegnunum að ætla þeim svo þungan dóm fyrir annarra sök. Ég harma þessa afstöðu samlanda minna að skipa sér í flokk með öflum sem vilja níða þjóðina og troða henni í svaðið. Ég harma að fólk sem svona hugsar hafi hér tögl og hagldir og ég harma mistök fyrirrennaranna sem mörkuðu þessa heljarslóð. Tími Jóhönnu er þeirra sök.
LÁ
Athugasemdir
Ég fyrirgef þér - þú veist ekki hvað þú ert að gera. Of mikið verið að mála veggi í sumar. Heljarslóðin er breið og afar erfitt að komast af henni. Við getum hins vegar ekki bara sagt sem svo:
1. Við borum Íslendingum það sem þeir eiga í Breiðholtsútibúi etc.
2. Við borgum Bretum í Sohoútíbúi Landsbankans og Hollendingum í Rauða hverfinu ekki neitt. Þeirra mistök.
Þetta er sami bankinn og sama kennitalan. Þessi kappar stálu aurum í okkar nafni og því miður berum við ábyrgð. Við getum ekki komið svona fram - borgað okkur en ekki þeim!
Grímur vinur þinn (IP-tala skráð) 14.8.2009 kl. 13:15
Sæll, félagi Grímur. Hvergi nefnt að ekkert eigi að gera og ganga bara frá málinu, tel hinsvegar skyldu okkar að reyna að ná betri díl og harma þá afstöðu allt of margra samlanda minna og sérstaklega stjórnmálamanna að reyna ekki að draga úr þessum skugga fyrir íslenzkt samfélag sem á betra skilið. Engu er líkara en að þetta fólk gangi erinda viðsemjendanna. Við hvað eru allir svona hræddir? Telji menn líf þessarar ríkisstjórnar mikilvægari en framtíð þjóðarinnar verður svo að vera en ég er alla veganna ekki í þeim hópi.
LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 14.8.2009 kl. 13:53
Ein samsæriskenningin gæti verið sú að þessi afstaða Ríkisstjórnarinnar og meirihlutans á Alþingi mótist ekki eingöngu af ótta við Breta og Hollendinga, heldur frekar af væntingum varðandi ákveðna leikfléttu. Evrópusambandið kemur sem frelsandi riddari inn á sviðið svona c.a. 3-4 mánuðum fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarsamning Íslands að Sambandinu, og leysir okkur úr þessari klípu með einhvers konar styrk eða neyðaraðstoð. Þannig myndi stuðningur við aðild verða nánast gulltryggð, en í leiðinni kemur í ljós verðmiði fullveldis eyríkis í norðanverðu Atlantshafi.
Sel þetta ekki dýrara en ég keypti það, en ef minni mitt bregst ekki var þetta nefnt í viðtali í sjónvarpsfréttum á dögunum. Gerði snögg leit að því en fann það ekki, leita e.t.v. að því betur síðar.
Helgi Kr. Sigmundsson, 15.8.2009 kl. 12:33
Sæll, Helgi og gaman að heyra frá þér. Einnig heyrt þessa útfærslu og ef sönn sé mun hún fara illa í marga. En sjálfstæðismönnum gengur illa að ná vopnum og verða að fara að hraða sinni afeitrun. Áttu ekki eitthvað laxerandi á flokkinn?
Sjáumst fljótlega, LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 15.8.2009 kl. 12:47
Hvaða fullveldis órar eru þetta? Hvað er það sem við erum að framselja í framtíðinni? Þessi þjóðernisremba fer hvorugum ykkar - þið eruð miklu betri án hennar....
Grímur vinur þinn (IP-tala skráð) 15.8.2009 kl. 21:25
Æii, Grímur elskan, þú skilur þetta betur þegar þú ert orðinn stærri. Varst frábær á æfingunni áðan og sjóðandi, algert fullveldi á bassanum.
LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 15.8.2009 kl. 21:40
Það er erfitt að útskýra þessa fullveldisóra, sem aldrei hefur dreymt þá. Íslensk þjóð átti þennan draum öldum saman og ætli það minni standi ekki okkur Lýð ofarlega í huga. Væri gaman að ræða þetta í rólegheitunum við ykkur yfir eins kaffibola eða miði. Kveðja að vestan.
Helgi Kr. Sigmundsson, 17.8.2009 kl. 02:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.