26.8.2009 | 02:49
KÚBA NORÐURSINS.
Framganga alþjóðagjaldeyrissjóðsins og hlutverk hans í efnahagslegri uppbyggingu var gerð skil í heimildarmynd sem sýnd var í ríkissjónvarpinu eftir að flestir landsmenn voru gengnir til náða. Þar kom fram fyrrum starfsmaður sjóðsins og kvað tilganginn þann að draga úr lánsþjóðunum mátt og gera þær fjárhagslega háðar fjármagnseigendum um allan heim. Og ef þess þyrfti væri stjórnmálamönnum einfaldlega mútað til að ganga sjóðnum á hönd. Af tilburðum sjóðsins hér á Íslandi og áhrifavöldum innan hans, breta og holllendinga, er ábyrgðarlaust að afskrifa ofangreind knésetningarrök. Ekki skín í neina sanngirni í icesavemálinu né tilslakanir, vaxtastigið miklu hærra en það sem t.d. er tilgreint í tilboði MAGMA Í orkuveituna, ekkert tillit tekið til hryðjuverkalaganna, engu skeytt um greiðslugetu ríkissjóðs né óvissu um endurheimtur eigna. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spennir hér upp stýrivexti, frestar lánagreiðslum og alþjóðasamfélagið, ESB, leggur líka sitt af mörkum til fjársveltis íslendinga uns ljóst þyki að þjóðin undirgangist skuldbindingar sem hún rís ekki undir. Hvers vegna "svokallaðir vinir" eða hið "siðmenntaða alþjóðasamfélag" sýni lítilli eyþjóð þvílíka óbilgirni hlýtur að beina sjónum að upphafi þessa pistils, þ.e. að tilgangurinn sem fyrir þeim vakir sé að svipta Ísland fjárhagslegu sjálfstæði. Og þjóð í greiðsluþroti er engu betur sett en einstaklingar í sömu stöðu, gengið verður á eignirnar, í okkar tilviki framtíðatryggingu barnanna okkar, auðlindirnar. Hættan á einkavæðingu þeirra og sölu er raunveruleg þó öðru sé fram haldið. Margir segja samvinnu við alþjóðagjaldeyrissjóðinn, breta, hollendinga og ESB nauðsynlega, að öðrum kosti verðum við Kúba norðursins. Fyrir mína parta er það miklu betri kostur en að undirgangast þá ánauð og þrælakistu sem hið svokallaða "alþjóðasamfélag" er að bjóða okkur upp á. Og sé það yfirlýstur vilji vinstri grænna að auðlindir landsins séu í þjóðareigu ættu þingmenn þar á bæ að íhuga varnaðarorð formannsins frá því í vetur.
LÁ
Athugasemdir
Stjórnvöld ætla að höfða mál gegn þeim sem bakað hafa þjóðarbúinu tjón í hruninu. Þetta er eðlileg hagsmunagæsla fyrir hönd ríkisins og þjóðarbúsins,segir Steingrímur í Fréttablaðinu í dag. Síðan koma þessi gullkorn;Það er líka hluti af því að réttlætið nái fram að ganga;.. Akkurat, stjórnvöld eiga þá að standa vörð um réttlætið,þegar sótt er að þjóðinni með óbilgjörnum hætti,af Englendingum og Hollendingum.Marg búið að sýna þeim fram á að kröfur þeirra eru óréttmætar,stjórnvöld vita að auðlindir okkar eru í hættu, en nei ekki "svoleiðis", við gætum misst völdin og fáum ekki inngöngu í Esb.
Helga Kristjánsdóttir, 26.8.2009 kl. 04:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.