7.9.2009 | 01:08
SILFRIÐ FER VEL AF STAÐ.
Hagfræðingurinn Stieglitz átti fyrsta Silfur vetrarins, einnig var Jón Daníelsson með sömu menntun spakur. Samt voru þeir ósammála í nokkrum grundvallaratriðum og bar gjaldeyrishöftin hæst. Báðir færðu þó prýðis rök fyrir sínu. Stieglitz taldi lítil hagkerfi þurfa sveigjanleika og hrósaði krónunni, taldi evruna af og frá og í máli hans skein í gegn vantrú á ESB. Jafnframt lýsti hann frati á almenna afskriftarleið og skýrði vel. Einnig átaldi hann að sama fólkið sem hannaði hrunslóðann skuli enn þar statt og veita umsagnir til hægri og vinstri. Magnaður hagfræðingur þarna á ferð og á Egill þökk skilið að traktera þjóðina með slíkum fagmanni, reyndar ekki í fyrsta sinn. Af þeim sex gestum sem fram komu voru þau tvö sem sitja á alþingi sýnu slöppust, málflutningurinn þvældur og máttlaus. Kannski líking Stieglitz um pípulagningarmanninn fari nærri um orsökina en í henni er átalið að þegar pípulögn springur sé sami pípulagningarmaður sendur til viðgerða því sá mun aldrei viðurkenna að hafa ekki vandað til verksins og alltaf kenna öðru um.
LÁ
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.