25.10.2009 | 06:01
FERÐASAGA.
Vondri ferð Grjóthrunsins í Dalina er nú lokið. Við kjöraðstæður, fullan sal af fólki og með lifandi trjónukrabba í görnum, steig hljómsveitin á svið eftir innilega upphitun Dr. Gunna og félaga. Hljómsveitarstjóri Grjóthrunsins og jafnframt byggðarlagsins útdeildi lögunum sem skyldi spila en í öfugri röð hægra megin á sviðinu. Telja menn þetta hafi verið pólitískt útspil, ósjálfrátt. Þannig mættust menn á miðri leið en spiluðu sitthvort lagið til jaðranna. Einhverjir höfðu á orði að flutningurinn hafi verið frumlegur en Óli POPP, skáld hafs og fjalla, gekk út og reit sinn dóm: Hörmung sem allt of margir sáu. Ljósið í myrkrinu var Guðmundur Steingrímsson sem klifraði glaðbeittur með harmonikkuna upp á svið og hvíslaði til mín að nú væri hann búinn að skipta um skoðun í kvótamálunum. Spilaði svo Í Grænum mó. Kvölin á sviðinu var þó aðeins byrjunin. Gítarleikarinn var handtekinn þegar hann reyndi að stinga af og sat næturlangt í skýrzlutöku vegna slælegrar frammistöðu, trymblinum svelgdist á trjónukrabbanum, hljómborðsleikarinn tók stöðumæli staðarins kverkataki og kenndi honum um bankahrunið, bassaleikarinn reif bændablaðið í strimla og sagðist engan fræðalestur halda, hvorki í Guðrúnarlaug né nokkurri annarri en sjálfur skreið ég í Sælingsdalinn og ofan í Guðrúnarlaug. Skilaði þar trjónukrabbanum sem orðinn var ansi velktur. Á heimleiðinni ókum við Arnkötludalinn, hina nýju samgöngubót, hnuggnir og lambalærislausir. Enda ekki hægt að ætlast til umbunar eftir slíkt frammistöðuleysi. Vona bara Dr. Gunni hafi fengið mitt læri.
LÁ
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.