5.11.2009 | 03:41
LOFTFIMLEIKAR MEÐ NETI.
Heimalningar stjórnmálaflokka eru í mörgu eins og loftfimleikafólk með öryggisnet. Detti menn út af þingi eða missi stöður grípur þá möskvi. Björgunarhringir halda heimalningunum á floti meðan beðið er forfrömunar hvort heldur sé embætti eða þingsæti. Þetta öryggisnet er orðið býsna þéttofið og dafnar í þegjandi samkomulagi fjórflokksins enda eiga allir þar í hús að venda með sitt útigangsfé. Allskonar stöður, skyldar og óskyldar stjórnmálum, eru orðnar að áningarstöðum þessara heimalninga og jafnlega niður skipt. Sendiherrar og dómarar, aðstoðarfólk ráðherra, þingmanna, starfsmenn stjórnmálaflokkanna, kosningastjórar, framkvæmdastjórar, bílstjórar og upplýsingafulltrúar. Horfi fólk yfir dalinn sitja iðulega á þessum syllum óharðnaðir flokksgæðingar eða gamalt sláturfé. Fyrir utan þetta og ekki eins sýnilegt er heill heimur af ráðum og nefndum, veitum og verum sem skipað er í pólitískt. Útvarpsráð, leikhúsráð, pósthúsráð, símaráð, orkuráð, fiskaráð, Þingvallaráð, menningarráð, leikskólaráð, mengunarráð, húsafriðunarráð, drottinsráð, þjóðgarðaráð, byggingarráð, flugvélaráð, siglingaráð, tollaráð, útflutningsráð, innflutningsráð, sjúkdómaráð, heilbrigðisráð, tóbaksráð, skattaráð og skylduráð. Öll þessi ráð og fleiri eru troðfull af þessu loftfimleikafólki sem er sídettandi ofan í mjúkan faðm öryggisnetsins. Og þar dafna sauðirnir vel, nýlegt dæmi um fundarsetukaup var uppgefið rúmar 50.000 þúsund krónur og það í forföllum. Kannski fundarsetan gefi meira í fjarveru en viðveru, hver veit, en eitt veit ég: Alvöru loftfimleikafólk brúkar ekki öryggisnet.
LÁ
Athugasemdir
Væri ekki ráð, að skipa ráð yfir öll þessi ráð?
Þorður Sævar Jonsson (IP-tala skráð) 5.11.2009 kl. 08:26
Best væri að skipa útrýmingarráð til að útríma góðum ráðum því í þessu eru vond ráð dýr. LÁ
lydur arnason (IP-tala skráð) 5.11.2009 kl. 16:07
Gas, gas...
Úmbarúmbabúmbarúmm (IP-tala skráð) 5.11.2009 kl. 19:06
Þetta er ekki rétt.Upphæðin sem Dagur B.Eggertsson fékk fyrir að sitja hvern fund í hafnarráði R.Víkurhafnar var 160.000, en ekki 50.000.Eftir að þetta lak út i fyrradag stökk hann úr ráðinu.Læknum er ekki alls varnað þegar kemur að peningum og ég tel að þeir eigi allt skilið sem lítur að lækningum, en þótt menn séu læknar eru 160000 þúsund fyrir einn fund ofmikið, sér í lagi þar sem fundarsetan snéri ekki á nokkurn hátt að fagmenntun læknisins.
Sigurgeir Jónsson, 6.11.2009 kl. 17:26
Sælir, alsamlir. Hef áhyggjur af athugasemd úmbarúmm, átti von á honum ferskari. Sigurgeiri er ég hinsvegar sammála en bendi honum á varðandi alhæfingar um læknastéttina að nota frekar þá að hún er upp til hópa leiðinleg.
LÁ
lydur arnason (IP-tala skráð) 7.11.2009 kl. 14:29
"Nú eru góð ráð dýr."
Kæri Lýður. Ást þín til stjórnmálafólks er ósegjanleg. Stöðugt leitast þú við að leiðbeina og tala um fyrir því. Umburðarlyndi þitt stafar af langri reynslu af pólitísku vafstri. Þú gætir jafnræðis. Þú hefur sagt öllum stjórnmálaflokkum jafnmikið til. Nú bíð ég spenntur eftir innleggi frá þér um þjóðfundinn góða í dag.
Ást er föstum áþekk tind,
ást er veik sem bóla,
ást er fædd og alin blind,
ást sér gegnum hóla. (Steingrímur Thorsteinsson)
Björn Hjálmarsson (IP-tala skráð) 14.11.2009 kl. 16:27
Sæll, Björn. Rangt að ég elska stjórnmálafólk, reyndar fer því frekar fjarri. Einnig að ég tali um fyrir fólki. Mín meining er einfaldlega sú að í grundvallarmálum er rétta og ranga hlutanna augljós. Skrumskæling á því eru málpípur þrönghagsmuna. Nefni sem dæmi spillingu, atvinnurétt og jöfnuð. Þjóðfundurinn er framtak en hversu nýtilegt mun koma í ljós. Hann er alltént ekki af hinu illa. Vísa Steingríms finnst mér vond og ætti frekar að vera svona:
Ást er föstum áþekk tind
Ást er sterk sem móðir
Ást er líkust staðri kind
Ást er eins og bróðir
lydur arnason (IP-tala skráð) 15.11.2009 kl. 01:45
Stundaði loftfimleika í nótt.....Ekkert net.!!!
Þorður Sævar Jonsson (IP-tala skráð) 16.11.2009 kl. 09:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.