3.12.2009 | 02:23
HVAR ERU ALLIR?!
Allt upp á borðið, heiðarleiki, hreinskilni, gagnsæi. Þjóðin á sinn rétt! Einkunnarorð hverra? Sömu aðila og ætla nú bankahrunsplagginu margumtalaða 90 ára þagnarmeðgjöf. Og 3ja ára prísund hverjum sem leka. Þetta er líkast einn undraverðasti viðsnúningur stjórnmálasögunnar. Samt eru fjölmiðlar gersamlega meðvitundarlausir og flagga endalaust einskisverðum fréttum eins og fylgi sjálfstæðisflokksins og kvennamálum Tígursins. Ekki skrítið þó fjölmiðlafélög ytra hafi áhyggjur af framvindu mála hér. Hvar er ríkissjónvarpið, hvar er Reynir, hvar er Davíð, hvar er fréttablaðið, hvar er Steingrímur, hvar er Sigmundur Davíð, hvar er Ólína og hvar er Grímur?! Er öllum orðið skítsama um hvert ferðinni er heitið?
LÁ
Athugasemdir
Nú er svo komið, að maður er alveg kjaftstopp. 100ára leynd, en ekki nema 3ár fyrir að kjafta frá. Af hverju ekki 80ár? Kannski Eva Jolly viti allt og verði sett inn. Sagði formaður nefndarinnar ekki að þeir sætu á þvílíkum upplýsingum að það myndi hrykkta í öllum stoðum? Alþjóðasamfélagið mun standa á öndinni þegar hulunni verður svift af þjóðinni, sem hefur verið talin óspilltasta þjóð í heimi. Lögreglan kemur ekki til með að hafa nokkra stjórn á lýðnum. Þá er ekki um annað að gera en að kalla til NATO....Vertu viss....Ég þakka fyrir hvern dag sem maður heldur nokkurnveginn fullu viti. Það er hægt að bjóða mér og mínum líkum uppá ýmislegt, vegna þess að við eigum svo stutt eftir. En ekki þeim sem eiga eftir að þreyja Þorrann og Góunna á þessu guðs volaða landi næstu aldirnar.
Þorður Sævar Jonsson (IP-tala skráð) 3.12.2009 kl. 04:24
Doddi Koddi! Þöggunarpakki ríkisstjórnarinnar er svo svívirðileg móðgun við okkur kjósendur að fólk hlýtur unnvörpum að flýja fjórflokkinn. Hann er þess ekki umkominn að leiða þjóðina í endurreisninni og mál málanna orðið einungis það að koma þessu skrímsli út úr alþingishúsinu. Það skyggir á allt annað, ESB, icesave, skjaldborgina, skattana, stóriðjuna og kvótann. Við erum stödd á slysstað og lífæðin sprautar blóðinu um allt.... Og hvar er Grímur?
LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 3.12.2009 kl. 07:10
...Lagatæknar hafa sagt mér að þetta sé gert til þess að vernda þá sem voru rannsakaðir en ekkert misjafnt fannst. Fínt ef þeir eru verndaðir en óttinn er auðvitað sá að þöggunin nái langt umfram það. Verst að við munum aldrei vera viss....
Úmbarúmba (IP-tala skráð) 3.12.2009 kl. 08:52
Félagi, Grímur. Þurfa grunaðir vernd gegn því að sakleysi þeirra sé sannað með rannsókninni? Hefði haldið að þau sannindi yrðu þeim kærkomin. Rekur í rogastans að vís maður eins og þú, Grímur, skulir ekki özkra þig hásan út úr vinstri grænum, út úr samfylkingunni, út úr fjórflokknum og inn í íslenzka þjóð. Skammastu þín.
LÁ
lydur arnason (IP-tala skráð) 3.12.2009 kl. 18:28
Kæri Lýður, heilög er reiði þín og forundran. Stærsta spurningin er sú, hvaða glæpir voru framdir sem þurfa svo langvarandi þöggunar með. Ég á aðeins eitt svar: LANDRÁÐ hulin bankaleynd.
Það myndi trylla lýðinn að komast að hinu sanna. Þess vegna þarf að þagga málið í næstum tvo mannsaldra. Meðlimir rannsóknarnefndarinnar þurfa friðhelgi svo þeir verði ekki ofsóttir fyrir sannleikans sakir. Á Íslandi eins og í gjörvöllum Vesturheimi ríkir réttlætisregla Þrasýmakkosar: "Réttlæti er það sem kemur hinum streka vel."
Það er deginum ljósara að einkavinavæðing bankanna leiddi alls herjar fjárhættuæði yfir gjörvallt stjórnarráðið. Hinir hófstilltu, varkáru og víðsýnu sem vöruðu við gengdarlausu óhófi og mikilmennskubrjálæði voru kveðnir í kútinn.
Við þurfum að bæta stjórnarhætti vora stórkostlega til að koma í veg fyrir svona svikamillur samtryggingarferla. Ég treysti mannvitsbrekkum þessarar þjóðar að koma hér skikk á: Ekki með blóðsúthellingum heldur að hætti Njáls frá Berþórshvoli: "Kemst þótt hægt fari." Vigdís Finnbogadóttir mæli manna heilust: Við Íslendingar þurfum nútímalegri stjórnarskrá þar sem munurinn á Jóni og Séra Jóni verður upphafinn fyrir lögunum. Guð geymi Ísland og Íslendinga.
Björn Hjálmarsson (IP-tala skráð) 4.12.2009 kl. 23:11
Sæll, Björn. Illt er að ráða i skoðun þína á þögguninni en mér sýnist hún í anda flokksaga samfylkingarinnar. Tel rangtúlkað að þjóðin þoli ekki sannleikann og brjálist yfir honum, hinsvegar er áframhaldamdi þöggunarsamfélag ávísun á ófrið. Hægðin, að hætti Njáls, er að hleypa inn dagsljósi,en ætli "mannvitsbrekkurnar" sannleikanum myrkur til 80 ára er það Njálsbrenna hin síðari með útgöngu Bergþóru.
LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 5.12.2009 kl. 02:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.