ÞETTA ERU VÍST MÓÐUHARÐINDI!

Enn ein gossprungan opnaðist í icesaveeldunum sem Þráinn Bertelson kvað ranglega ekki móðuharðindi í sjónvarpsviðtali í kvöld.  Stór hluti þjóðarinnar vill ekki samþykkja samninginn óbreyttan, líklegast meirihlutinn.  Sem gerir að verkum að stjórnarmeirihlutinn telur málið ekki þess eðlis að beita þjóðaratkvæðagreiðslu.  Þessi túlkun er mjög í anda fyrri ríkisstjórna og sorglegt að þessi ríkisstjórn skuli kæra sig svona kollótta um leiðbeiningar frá kjósendum sem sáu þó vonarglætu í vinstri velferðarstjórn.  Spurningin er ekki um að kasta frá okkur allri ábyrgð og semja ekki heldur að kynna okkar sjónarmið, frábiðja okkur þessa háu vexti og að allar greiðslur skuli miðast við erlenda mynt sem þýðir að gengið verður á útflutningstekjur.   Botninn tekur þó úr að á sama tíma skal semja við höfuðpaur svikamyllunnar um nýtt gagnaver á Suðurnesjum.   Og sé að marka fregnir af Össurarleynd Svavars á margumræddu lögfræðimati tjallanna er þessi ríkisstjórn feig.   Sú ranghugmynd margra stjórnarþingmanna að líf ríkisstjórnar sé mikilvægara en líf þjóðar réttist vonandi við þessi tíðindi og útkoman höfnun icesave í núverandi mynd.  Við það fengist ráðrúm og skýr skilaboð til alþjóðasamfélagsins að samninginn verði að endurskoða.  Við megum ekki hlaupa á okkur í þessu, minnumst að aðeins tók 25 mínútur að fá bílalán hjá Glitni en 25 ár að borga þau til baka.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þráinn Bertelsson er hreinræktað FÍFL og eiginhagsmunapotari.

Árni Karl Ellertsson (IP-tala skráð) 30.12.2009 kl. 02:50

2 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Sæll Lýður

Mér sýnist að það sem felst í þínum orðum sé eftirfarandi: Ný ríkisstjórn getur náð betri samningi, m.a. betri vaxtakjörum og að greitt verði í krónum til Breta og Hollendinga.

Sá samningur sem nú liggur fyrir er árangur þessarar ríkisstjórnar við sömu aðila sem vildu ekki ganga lengra en raunin er. Hvað getur ný ríkisstjórn gert til að breyta samnignum skv. þessum hugmyndum þínum? Er hún líklegri til að ná hagstæðum samningum vegna þess að Framsókn og Sjálfstæðis eru komnir aftur í ríkisstjórn?

Hvað gera Bretar og Hollendingar við íslenskar krónur? Skipta þeim í Evrur og Pund? Heldur þú að það sé hægt að plata þá til þess að gera samning þar sem endurgreiðslan verður læst hér í ónýtum gjaldeyri? Hvaða töframenn vilt þú gera út af örkinni til að ná slíkum samningi??

Þetta er sama staðan og með gamla ákvæðið um að greiðslur sem eftir standa 2024 skulu falla niður. Þú getur ekki fengið neinn sem selur þér hús eða bíl til að fallast á að þú greiðir ekki krónu ef þú ert ekki búinn að greiða bílinn upp á 4 árum!

Ég trúi því ekki að skynsamt fólk geti enn verið að bulla svona - það er „eðlilegt“ að pólitíkusar slengi svona fram (t.d. Pétur Blöndal) - þeir eru alltaf að reyna að rugla og tæta. En þú hefur enga hagsmuni af því aðgrípa svona dellu á lofti og fara svo að trúa henni.

Hjálmtýr V Heiðdal, 30.12.2009 kl. 08:26

3 identicon

Sælir báðir.  Hvort Þráinn sé hreinræktað fífl skal ósagt en gjarna vildi ég sjá annan í lykilstöðu þessa stórmáls.  Og Hjálmtýr Heiðdal...  Get verið sammála um að hrollvekjandi sé að fá yfir sig hrunkandídatana á ný.  Afstöðumunur okkar varðandi ríkisábyrgð byggir hinsvegar ekki á að annar sé vitlaus og hinn klár.  Hann byggir á trú. Mín trú er sú að samningsstaða okkar sé sterkari en þú telur.   Auðvitað falla rök með og á móti en slaginn vil ég taka og tel litlu tapa.  Þú hinsvegar ekki.  Þetta er spurning um trú og tilfinningu, ekki ólíkt og í kvikmyndunum.   Hefði kosið utanþingsstjórn til að fara með okkar mál en varðandi fjórflokkinn er ég trúlaus orðinn.  Takk fyrir innlitið.

lydur arnason (IP-tala skráð) 30.12.2009 kl. 11:24

4 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Sæll aftur

Ég tel mig trúlausan á almætti og annað utan míns veraldlega sjónarsviðs.

Ég reyni að byggja mat mitt á málum á athugun, umhugsun og vangaveltum. En ekki trú - nema þá trú að það sem ég þykist vita vera rétt. Samningsstaða íslenska ríkisins er vond, því breytir engin trú eða bjartsýni. Mér sýnist eina leiðin í stöðunni að ganga frá þessum málum og halda áfram að byggja upp það sem hrundi. Þar á meðal er innbyrðist traust meðal innbyggjara landsins. Utanþingsstjórn er eitthvað sem ég get ekki séð að geri gagn. Hvaðan kemur þeim sem hana skipa umboðið? Hver er þeirra lífssstefna? Hvað hafa þeir umfram kjörna fulltrúa?

Tugþúsundir Íslendinga eru félagar í stjórnmálaflokkum - 80% þjóðarinnar tekur þátt í kosningum. Hvers vegna vilt þú sniðganga þessar staðreyndir?

Hjálmtýr V Heiðdal, 30.12.2009 kl. 12:16

5 identicon

En hvað er til ráða þegar kjörnir fulltrúar segja eitt í kosningabaráttunni og gera annað þegar þeir eru komnir i stjórn? Hér á ég aðallega við VG sem var í aðdraganda kosninga á móti Icesave og ESB en hafa nú kúvent í afstöðu sinni. Er von að kjósendur vilji láta reyna á eitthvað annað?

Soffía (IP-tala skráð) 30.12.2009 kl. 12:49

6 identicon

það er alveg furðulegt að horfa alltaf uppá þessa umræðu eftir að buið se að samþykkja og afgreiða ISESAVE !.Gerir folk se ekki grein fyrir þvi að þetta yrði seinasta afgreiðsla Islands SEM FULLVALDA RIKI  , á einhverju máli .  Við yrðum i framhaldi af þvi aðeins að dansa eftir linu annara AGS t.d.   Gjaldþrota landi verður ekki leyft að gera eitt ne neitt eftir það að það hefur tekið á sig slikar skuldbindingar og bundið sig fast við lán og fyrirgreiðslur annara , og á allt sitt undir þeim   Stopp ---- hugsið !!!!!!!       Allt væri betra hversu erfitt sem það yrði en Að samþykkja Isesave EINS OG NU ER ÁFORMAР , engu verður breytt eftirá !!

Ragnhildur H. (IP-tala skráð) 30.12.2009 kl. 12:58

7 identicon

Lýður ég græt í hljóði. Þú sem ert svo vel gefinn. Valsari og allt. Þú heldur að þú náir betri samningi með því að hafna þessu núna og fara aftur út. Það getur verið en það er alls ekki víst. Bjarni Ben og félagar segja að með því að fara með þetta í Héraðsdóm þá verði þessu í það minnsta snúið í krónur - það er heldur ekki víst og lang líklegast að þetta verði að langri lagaþrætu sem við hugsanlega vinnum eftir nokkur ár sem er heldur ekki víst. Hvað gerist þangað til að sú hugsanlega niðurstaða næst er vandamálið. Kannski gerist ekkert og við fáum alla þá fyrirgreiðslu sem við þurfum á að halda á næsta og þarnæsta ári - en það er hreint ekki víst og líklegra að svo verði ekki.

Ég held að Bjarni Ben og co. viti þetta líka og það eina sem vakir fyrir þeim er að koma stjórninni frá og ganga síðan frá málinu fljótt og örugglega með nákvæmlega sama hætti og nú stendur til að gera.  Bjarni Ben skrifaði undir þetta fyrir 1 ári: http://blog.eyjan.is/grimuratlason/2009/12/29/lydskrum-formanns/ - hvað hefur breyst? Ekkert annað en núna er þetta 5,5% vextir og við þurfum ekki að borga höfuðstólinn fyrr en eftir 7 ár. Bjarni kvittaði fyrir 6,7% vexti og borga strax.

Þetta er sjónarspil sem ömurlegt er að horfa upp á!

Grímur Atlason (IP-tala skráð) 30.12.2009 kl. 13:04

8 identicon

Má vel vera að Þráinn telst ekki vera fífl, en hann er gangandi sönnun þess vanda sem þjóðin þarf að burðast með, sem er allskonar óhæft lið á launum þess á þingi.

Hvernig veit Hjálmtýr hvort að mótsemjendur hafi ekki verið tilbúnir til að fara lengra á móts við Íslendinga í samningum?  Var Hjálmtýr í samninganefnd?  Eða er Hjálmtýr jafn rauður kommi og þeir gerast rauðastir?  Það er nákvæmlega ekkert sem bendir til að það hafi verið reynt.  Þeir gera sér fullkomlega grein fyrir að hafa ekki lögvarða kröfu, heldur eru að fara fram á að lög eru sett þeim til þóknunar.  Einn samningsaðili Wouter Bos fjármálaráðherra Hollands sagði í ræðu sem hann flutti í mars síðast liðnum:

"Koma þyrfti í veg fyrir að ríkisstjórnir og þar með skattgreiðendur yrðu látnir taka hundruð milljóna og jafnvel milljarða evra eða dollara áhættu í þeim tilgangi að viðhalda efnahagslegum stöðuleika."  Einnig sagði ráðherrann að “skattgreiðendur hefðu aldrei beðið um slíka áhættu”.  Ráðherrann sagði jafnframt “að til að koma í veg fyrir þessa áhættu þyrftu lönd Evrópu að skoða ofan í kjölinn hvernig innstæðutryggingasjóðir væru skipulagðir. Þeir væru ekki skipulagðir til þess að takast á við kerfishrun heldur hrun eins banka”.

Getur málið verið eitthvað skýrara, og hvernig ætli orð sem þessi vigti fyrir dómstólum, sem er eini rétti vettvangur deilunnar, sem engin lýðræðisþjóð veraldar gæti haldi gegn okkur að vilja fara eftir að útséð væri að deiluaðilum er ófært að leysa málið með samningum.  Þessi þjónkun og hugleysisháttur að vera að hafa áhyggjur um hvað mótaðilar muni sætta sig við er kátbroslegt.  Það er þeirra mál en ekki okkar.  Samfylkingin (Alþýðuflokkurinn) gekk erinda Breta í þorskastríðinu og vildu gefa allt eftir til að styggja ekki alþjóðsamfélagið. Ætli það finnist margir í dag sem telja að það hefði verið rétta leiðin? 

Málið snýst ekki um að ný ríkisstjórn eða þessi fari á stað í enn eina pólitísku feigðarförina, sem var lýst sem glæsilegum sigri, sem ríkistjórnin að mestu ætlaði að skrifa undir óséða, sem og stjórnarmeirihlutinn.  Engin í samninganefndinni hafði komið að alþjóðasamningsgerð fyrr.  Samninganefndin hitti mótaðilana aðeins einu sinni áður en félagi Svavar tók sólóið.  Það eitt ætti að duga til þess að þjóðin segði þessum aðilum upp fyrir fullt og fast fyrir óafsakanlegt kæruleysi.  Það verður að setja saman ópólitíska samninganefnd sem byggist á færustu sérfræðingum og samningamönnum innlendum sem erlendum sem völ er á, sem og hafa sumir boðist til starfans allt frá upphafi, eins og sá sem er titlaður einn hæfasti samningamaður veraldar Lee Bucheit, sem þótti of dýr til starfans.  Félagi Svavar hefur sennilega þótt betri kostur þó augljóslega hefur hann titilinn að vera dýrasti samningamaður veraldarsögunnar.  Einnig mun hann vera dýrasta einkavinavæðing veraldarsögunnar þegar Steingrímur J. Sigfússon þekktur "andstæðingur" einkavinavæðingu réði vin sinn til starfans sem hefur sýnt að var fullkomlega óhæfur til verksins.  Það eitt ætti að duga til að byrja uppá nýtt. 

Það hefur ekki verið gengið í skugga um hversu langt þessar þjóðir hafa verið tilbúnir að ganga, þegar hæfustu samningamenn veraldar fullyrða að við höfum gjörtapað öllum því sem hægt hafi verið að tapa við samningsgerðina.  Að við hefðum gengið frá samningaborðinu eins og við hefðum gjörtapað fyrir dómstólum.

Við skulum ekki gleyma að ef einhver stoð í lögum EES eða íslenskum væri fyrir hendi að við bærum ábyrgð  á Icesave falsreikningnum, þá væri ekki verið að semja um neitt, né að þrefa um málið á þingi.  Hvað er virkilega óskýrt varðandi málið, og hvers vegna ganga menn til verka eins og sakamenn, eins og Ingibjörg Sólrún orðaði það?

Bretar og Hollendingar geta keypt íslenskar vörur eins og fisk fyrir íslenskar krónur.  Það er þeirra vandamál, ekki okkar hvað þeir þyrftu að gera ef þeir ynnu málið fyrir dómstólum og yrðu dæmdir bætur í íslenskum krónum.  Enda hafa þeir ekki þorað fyrir sitt litla líf viljað mæta okkur fyrir dómstólum.  Og hvers vegna skyldi það nú vera? Eina bullið varðandi Icesave er að samningurinn eins og hann er í dag.  Meira getur bullið ekki orðið þó svo lagt yrði upp með að ná því.

Guðmundur 2. Gunnarsson (IP-tala skráð) 30.12.2009 kl. 13:06

9 identicon

Hjálmtýr er greinilega mjög trúaður.  Hann trúir því að þó miklar líkur séu á þjóðargjaldþroti sé það mikilvægara að samfylkingin lifi  en að reynt sé til til þrautar að milda þetta ágæta I say vei mál. 

Hvað hafa margir lögfræðingar bent okkur á að samningastaðan er ekki svo slæm.  Það hefur engin verið að kaupa bíl á krít fyrir I say vei money. 

Er ekki eðlilegt að samningar séu samningar en ekki yess sir, if you say so master, maestro... undirskriftir.

Jón frá skeri (IP-tala skráð) 30.12.2009 kl. 13:06

10 identicon

Hjálmtýr Heiðdal.   Trú á einhvern málstað eða vegferð byggir á einhverju sem liggur fyrir.  Hugsjón er trú og trú er hugsjón.  Að afgreiða afstöðu 35.000 íslendinga sem hindurvitni er, jafnvel þó rétt væri, óskynsamlegt.  Í þessu icesavemáli tel ég höggkraft íslendinga vannýttan og sá samningur sem liggur fyrir svo ónýtur að engan verri er hægt að hafa, það er lífsandinn sjálfur sem skiptir máli, ekki hvort líkið sé bútað niður.   Og varðandi kjörna fulltrúa minni ég Hjálmtý á þá augljósu brotalöm lýðræðisins að almennur kjósandi er algerlega óráðandi um val fulltrúa, aðeins flokks.  Það nægir sumum en ekki mér, ekki lengur. Grímur gerir gáfur að umtalsefni og furðar sig á útkomunni sem ég geri ekki hvað hann varðar.   Mér er slétt sama um Bjarna Benediktsson og áform hans, líf þessarar ríkisstjórnar er heldur ekki heilagt í mínum augum og eigi nenni ég að hirða um liðsbúninga fjórflokkanna, læt Valsbúninginn alveg duga.  Hinum athugasemdunum er ég sammála.

lydur arnason (IP-tala skráð) 30.12.2009 kl. 13:33

11 identicon

Það er magnaður andskoti sú trú sem Grímur hefur á Bjarna Ben & Có.  Er hann ekki augljóslega í röngum flokki?  Getur verið að 70% þjóðarinnar sem hafnar samningsóhroðanum og vill fá að nýta lýðræðislegan rétt sinn og leggja málið fyrir dóm þjóðarinnar hafi rangt fyrir sér?  Getur verið að 30% Icesave uppgjafarliðs eru svona mun gáfaðri og rétthærri?  Getur verið að fólk er búið að fá meira en nóg af spillingu og heimsku fjórflokkskerfisins? 

Guðmundur 2. Gunnarsson (IP-tala skráð) 30.12.2009 kl. 13:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband