12.1.2011 | 09:41
MEINDÝRAEYÐIR Á STJÓRNSÝSLUNA.
Bensínlítrinn nálgast nú 220 krónurnar. Verðsamráð olíufélaganna sem átti að vera upprætt logar enn glatt og álögur ríkisins orðnar að óviðráðanlegum sinubruna. Vegtollar eru svo í ofanálag íhugaðir. Með þessu áframhaldi fara hestvagnar brátt að sjást á götum. Annar sinubruni er svo sameiningar allskonar í sparnaðarskyni. Elliheimilum er lokað, læknasetur aflögð og nú eru leikskólar borgarinnar undir. Flest þessi fyrirbæri létta okkur þó lífið, fyrstu skrefin eða þau síðustu, ímyndum okkur t.d. leikskólalaust þjóðfélag? Stjórnsýslan kallar allar þessar umbyltingar hagræðingu án skerðingar á þjónustu. Minnist aldrei á atgervisflótta né atvinnumissi. Þessi stöðuga innanáta minnir á atgang trjálúsa og misgáfaðar hugmyndir vaða uppi. Minni á bollaleggingar borgarsviða og áherzlu umhverfisráðherra á framandi tré. En fái burðarvirki samfélagsins ekki frið fyrir þessu borðhaldi mun illa fara. Segja má þetta brýnt verkefni fyrir meindýraeyði með stjórnsýslu sem sérgrein.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
1.1.2011 | 15:02
ÁRSSKIL.
Hopp milli árslína ber æ í sér von sem inniber kraft til góðra verka. Högg bankahrunsins var þungt en ýmis teikn eru um aukna meðvitund þjóðarinnar. Lokaatriði áramótaskaupsins gæti orðið byrjunaratriði betra þjóðfélags og gömlu flokkskjarnarnir ganga ekki að neinu vísu. Þoka skuldasúpunnar er ekki eins þétt og farið að sjást milli stika. Á fiskimiðunum sprikla nýjar tegundir og gamlar auka við sig. Orka bíður nýtingar og ferðamenn heillast. Sprotar spretta og kæfa brátt gömlu fúakvistina. Uppgjör skammaráranna er langt á veg komið, hugarfarið eðlilegra og meiri samkennd meðal fólks. Íslendingar eru að verða tilbúnir. Síðasta glíman er þó eftir, glíman við hagsmunaaðila. Sú atlaga er í sjónmáli og mun skera úr um hvort þjóðin gengur götuna fram eftir veg ellegar skref afturábak.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
31.12.2010 | 02:38
FUNDALEIÐINDAÁLAG SLÖKKVILIÐSINS.
Borgarstjóri þiggur 106 þúsund krónur á mánuði fyrir setu í slökkviliðsráði. Fundað er einu sinni í mánuði nema yfir sumartímann. Þá er fundi slitið. Séu allir forvígismenn bæjarstjórna höfuðborgarsvæðisins samanteknir geldur slökkvikiðið rúmar sex milljónir árlega í þetta samstuð. Og Jóni leiðast fundir. Hvers vegna fólk fær aukagreiðslur ofan á föst vinnulaun fyrir það eitt að halda fund í öðru húsi í vinnutímanum er einkennileg hefð. Kannski er ekki við Jón að sakast nema að því leyti að falla eins og flís við rass inn í sýstemið. En hversu mikið af svona sjálftökuhreiðrum ætli kerfið hýsi? Tíu, tuttugu, hundrað, þúsund, MILLJÓN? Um mann fer hrollur og næst þegar borgarstjóri segir að gera þurfi fullt af leiðinlegum hlutum er það vonandi á eintali í spegil og eigi þá við afnám þessara endaleysna allra.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
30.12.2010 | 05:46
SÉRFRÆÐINGUR SÍLDARVINNSLUNNAR.
Ragnar Árnason, hagfræðiprófessor fór þó nokkuð mikinn í kvöldfréttum sjónvarps og sagði eignarétt aflaheimilda forsendu fjárfestingar og framtíðarmarkmiða í sjávarútvegi. Þegar hámenntaðir menn bera á borð þvílíka þvælu rekur mann í rogastans. Sér maðurinn ekki að handhafar kvóta hafa kerfisbundið dregið arðinn út úr greininni og viðað að sér fjármagni með veðsetningu aflaheimilda og fært umráðaréttinn í hendur banka og lánastofnanna og það jafnvel í útlöndum? Umsýsla með aflaheimildir hefur umliðin ár verið eins og um eign sé að ræða og afleiðingin ljós, bæði fyrir atvinnugreinina og þjóðarbúið. Nýtingarréttur til afmarkaðs tíma höfðar miklu meira til almannaheilla en eignarhaldið sem nú ríkir. Og sú fullyrðing prófessorsins að önnur aðkoma að veiðum en í gegnum kvótakerfið sé ávísun á pólitískt príl og sérhagsmuni er í staðreyndaljósi dauð og ómerk. En séu menn svona sannfærðir um ágæti eignaréttarins á íslenzkum fiskimiðum ættu þeir að flytja mál sitt frammi fyrir alþjóð og leyfa henni síðan að kjósa um þetta langvinna deilumál.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
29.12.2010 | 04:19
OPNUNARATRIÐI NÝJA TÓNLISTARHÚSSINS.
Þorsteinn Guðmundsson grínari og hin alræmda veztfirska hrunsveit, Grjóthrun (í Hólshreppi) reyndu að gera garðinn frægan í gamla slippsalnum (Nema Forum) í kvöld. Rennt var blint í sjóinn og efuðust menn um ágæti sitt lengi vel. Þar kom þó að salurinn fylltist og talið var í. Þorsteinn hóf leik og gantaðist að landanum, sérstökum saksóknara, veðri, gluggaveðri, ást og ástarlykt. Trymbill Hjálmanna gerði gott stöff stórgott og elti óhefðbundinn gítarleik Þorsteins með sóma. Féll ljósakróna úr lofti í lokalófsklappinu en engin urðu slys á fólki. Kom svo í hlut Grjóthrunsliða að kæla salinn fyrir heimferð og það gert með flámælgi og drundrímum. Gamli kvisturinn úr Eik, Pétur Hjaltested, hélt styrkum fingrum um tónsprotann og þótti bandið óvenju þétt að þessu sinni. Var sérlega góður rómur að bassaleiknum ger og sjálfur sagðist hann sjá í þessu opnunaratriði nýja tónlistarhússins við höfnina. Sem dansari hljómsveitarinnar vil ég þakka vertunum, Ástu & Valgeiri fyrir frábærar trakteringar, sem og þeim sem hlýddu.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.12.2010 | 05:27
STEINGRÍMUR Á FJÖLLUM.
Þó sjálfstæðisflokkurinn sé ósjálfstæður, óstjórntækur og óskitinn fellur frá honum eitt og annað nýtilegt. Nefni fyrirframsköttun lífeyris. Ótrúlegt að besefar vinstursins skuli ekki grípa þessa gæs. Miklir fjármunir myndu renna í ríkiskassann á viðsjárverðum tímum, fólkið í landinu síður finna til niðurskurðarins og stjórnendur lífeyrissjóðanna hafa minna fé til sólundunar. Að Steingrímur skuli ekki nýta þennan möguleika er mér hulin ráðgáta og vel skil ég óánægju flokkssystkina hans.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.12.2010 | 00:58
BÆKUR OG KONFEKT.
Hætti mér í jólaösina síðdegis og skarkalann. Erindið að kaupa konfekt og skáldsögu strandamanns. Á bókahlaðborðinu blöstu við hin furðulegustu bókmenntaverk, lífsleikni og ævisögur stráklinga, matreiðslubækur smástelpna, þvottabækur fyrrum ráðamanna og himinháir staflar glæpasagna. Átti í basli með að finna strandamannasöguna en fann loks eina sem lá eins og aldingarður innan um glæpaturnana. Með lagni buslaðist ég að bókinni og tók grettistaki. Eins og skæni lá hún í lófa mér og fjallaði um ástina. Ég skáskaut augunum að bókahlaðborðinu og öllum þeim þúsundum blaðsíðna sem fjalla um morð. Fór út með það í hausnum að lestur morða sé snöggtum skárri en þau sjálf. Heimkominn uppgötvaði ég að konfektið hafði gleymst.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.12.2010 | 01:37
VINDHANA Í FÁNAHORNIÐ.
Hjáseta þriggja þingmanna annars stjórnarflokksins yfir fjárlagafrumvarpinu ærir nú marga. Sem er undarlegt því hverjum og einum þingmanni er skylt að fara eftir samvizku sinni og engu öðru. Finnist þessum þingmönnum frumvarpið ekki þess vert að hljóta samþykki eiga þeir að sýna það í verki og aðrir sætta sig þá útkomu. Bresti mig ekki minni voru upphrópanir gegn þingmönnum hrunstjórnarinnar gjarna hjarðhegðun, flokksræði og foringjahollusta. Nú hrópar sama fólkið eftir þessum eiginleikum. Þessi þjóð er torskilin eins og breytni hennar undirstrikar: Í fyrri hálfleik spilum við á móti vindi en í þeim seinni með. Mæli með að vindhani verði settur í eitt fánahornið.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
10.12.2010 | 02:21
MISTÆKIR FORYSTUMENN.
Nú liggur nýr ísbjargarsamningur á borðinu. Klárlega betri en sá fyrri og hugsanlega ásættanlegur fyrir land og þjóð. Engu að síður tel ég rangindin þau sömu og fyrr: Almenningur á ekki að borga sukk hrunverjanna heldur þeir sjálfir. Nær væri að þessir herramenn tækju milljarðamæringa vestanhafs sér til fyrirmyndar sem gefa auðæfi sín þurfandi. Þannig gætu auðkýfingarnir okkar látið þýfi sitt ganga upp í icesave fremur en nýjar fjárfestingar. Lökust er þó útkoma stjórnmálamanna sem kortlögðu dæmið rangt. Ummæli þeirra á sínum tíma má líkja við ummæli fyrrum menntamálaráðherra sem ráðlagði bandarískum hagfræðingi sem ámálgaði hrunhættuna að fara í endurhæfingu. Mikið dæmalaust höfum við íslendingar átt mistæka forystumenn í lykilmálum. Vona því tímabili sé lokið og framundan séu bjartari tímar.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.12.2010 | 00:36
HLÁLEGT MÓTMÆLAPLAGG.
Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Landssamband íslenskra útvegsmanna, Sjómannasamband Íslands og VM - Félag vélstjóra og málmtæknimanna mótmæla harðlega öllum hugmyndum um sölu ríkisins á aflaheimildum.
1. Stjórn fiskveiða byggir á því að þeir sem nýta fiskistofnana hafi hag af því að ganga vel um fiskimiðin. Þannig er það hagur þeirra að draga úr veiðum til að vernda og byggja upp fiskistofna þegar nauðsyn ber til. Ef ríkið ætlar að hirða aflaheimildir þegar árangur næst grefur það undan langtímasjónarmiðum um góða umgengni og skynsamlega nýtingu fiskistofna.
"Ef ríkið ætlar að hirða aflaheimildir" afhjúpar ágætlega sýn hagsmunaaðila á þessa auðlind. Kíkjum á 1. grein laga um stjórn fiskveiða.
1. gr. Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.
Að mótmæla íhlutun sjávarútvegsráðherra í fiskveiðistjórnunarkerfi sem dregið hefur meira en helming úr heildarþorskafla frá stofnun þess, skilið eftir sig 500 milljarða skuld atvinnugreinarinnar ásamt því ræna sjávarbyggðirnar atvinnuréttinum ber einhverju öðru vott en þá umhyggju fyrir fiskimiðunum sem þetta mótmælaplagg vísar til.
2. Samkvæmt lögum er óheimilt að draga kostnað við kvótakaup frá aflahlut sjómanna en reynslan sýnir að í allt of mögrum tilvikum þar sem kvótaleiga á sér stað hefur ekki verið gert rétt upp við sjómenn. Það er óásættanlegt að ríkisvaldið ætli að stuðla að því að sjómenn verði hlunnfarnir.
Er furða þó hlutur sjómanna skerðist við þá okurleigu sem er viðhöfð. Vænlegra væri að miða leiguverð við nýtingu en ekki brask, skuldasöfnun og afskriftir. Þá væri kannski svigrúm að hækka hásetahlutinn og stéttin hugsanlega losna við þá múlbindingu í skoðunum sem nú ríkir.
3. Nauðsynlegt er að sjávarútvegurinn búi við traust rekstrarskilyrði. Þannig getur hann áfram gegnt mikilvægu hlutverki í þjóðarbúskapnum og skapað þeim sem hann stunda starfsöryggi. Það verður ekki gert með sölu ríkisins á aflaheimildum.
Með þessari röksemd tekur botninn úr þessu mótsagnakennda mótmælaplaggi. Í fyrsta lagi er ríkið ekki að selja aflaheimildir heldur leigja og í annan stað: Hvers vegna ætti það að vera verra fyrir rekstrarskilyrði sjávarútvegs að ríkið selji aflaheimildir fremur en þeir sjálfir?
Mótmæli þessu hlálega mótmælaplaggi, vona hagsmunaaðilar fari að hætta þessu hnoði og taka þátt í þeim breytingum á fiskveiðistjórn sem framundan eru.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)