22.1.2011 | 01:21
BLESS, SÁNKTI JÓ.
Plan heilbrigðisráðherra er að umbylta starfsemi St. Jósefsspítala Hafnfirðinga um næstu mánaðamót. Áætlað er að flytja nær alla þjónustu undir þak Landspítalans, skurðdeild, rannsóknardeild og göngudeild. Enn og aftur er góðri einingu slátrað í nafni miðstýringar. St. Jósefsspítali hefur reynst hafnfirðingum vel og stærð stofnunarinnar í góðu flúkti við stærð bæjarfélagsins. Eflaust sparast eitthvað við samnýtingu deilda og starfskrafta en auðveldlega væri hægt að ná þessum aurum inn með því að hætta við byggingu nýs hátæknisjúkrahúss á landspítalalóðinni. Miðað við samdrátt Landspítalans og fjöldauppsagnir er löngu ljóst að nýrrar byggingar er ekki þörf hvað þá brýnt og jafnvel skaðræði. Yfirbyggingu Landsspítala eins og annarra ríkisbákna þarf hinsvegar að skera niður og ætti það að vera forgangsatriði en ekki ráðast á skilvirkar einingar sem eru að þjónusta fólk en ekki fundafíkn yfirmanna og tengdra skrautfugla. Við innlimun St. Jósefsspítala tapar 20 þúsund manna bæjarfélag bæði störfum og reisn sem óvíst er að náist nokkurn tíma til baka. Gerræðisleg ákvörðun eins og þessi undirstrikar enn og aftur nauðsyn þess að bæjarfélög fái meiri sjálfsstjórn yfir sínum málum og þá kemur að öðrum ásteytingarsteini, tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Hana þarf svo sannarlega að endurskoða.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
21.1.2011 | 04:14
NÍMENNINGAR OG EINMENNINGUR.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.1.2011 | 10:12
EFTIR SÁRSAUKAFULLAN SKILNAÐ...
Bóndakona austur á Fljótsdalshéraði hrósar íslenzkum landbúnaði og líkir við forréttindi að fá að vinna við greinina eftir margra ára kynni sín af dönzkum landbúnaði. Segir hún úða- og efnanotkun þar keyra um þverbak og regluverk evrópubandalagsins úr takti við alla skynsemi. Fyrir allmörgum árum misstu danzkir sjómenn fiskikvóta sína í Norðursjó og atvinnutæki þeirra, þ.e. bátarnir upp keyptir af ESB. Atvinnurétturinn fór en bætur komu í staðinn. Reglur evrópusambandsins um fiskveiðar banna löndun á öðrum tegundum en þeirri sem kvóti segir til um. Afleiðingin brottkast. Víðátta evrópusambandsins gerir að verkum að erfitt er að hnoða ólíkum búskaparháttum undir einn hatt og því gripið til samræmingaraðgerða með tímabundnum undanþágum og síðan varanlegum uppbótargreiðslum. Hugsýn evrópusambandsins er göfug en sjálfur tel ég svona risavaxna miðstýringu almennt hamla framförum. Fólk nýtur hugsanlega meira skjóls inni í svona virki en í rokinu fyrir utan gerast hlutirnir. Ísland er í efnahagslegri lægð og því freistandi að leita vars. En eftir sársaukafullan skilnað við græðgina er óskynsamlegt að hlaupa strax í annað samband, ekki sízt heilt evrópusamband. Íslendingar þurfa að skilgreina sig upp á nýtt sem þjóð og kannski í 1sta skipti almennilega. Klárum það verk og gerum hvorki okkur sjáfum né evrópusambandinu þá skráveifu að bjóða fram nema fullsköpuð. Þá fyrst vitum við hvort og hvernig samband við viljum.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.1.2011 | 00:54
HANDBOLTAUNDRIÐ ÍSLAND.
Magnaður handboltaleikur kvöldsins gladdi mjög fjölmenna fjölskylduna og sjaldan slógu hraðari hjörtu. Ótrúlegt að svona fámennt vindsker skuli bjóða milljónaþjóðum birginn hvað eftir annað. Þó liðsheildin sé frábær vil ég sérlega hrósa þjálfaranum knáa, Guðmundi Guðmundssyni, en sýn hans á íþróttina er með eindæmum. Andvaraleysi ríkissjónvarpsins varðandi handboltann olli mörgum vonbrigðum enda ætti þvílíkt landslið að blómstra í stofum allra landsmanna. Frammistaðan sýnir framámönnum þar á bæ vonandi fram á mikilvægi ríkismiðilsins í þessu efni framvegis. En næsta verkefni er vinaþjóð okkar, Noregur, þá verða frændur frændum verstir.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.1.2011 | 00:41
EYRARODDI KVEÐUR.
Fiskvinnslan Eyraroddi á Flateyri heyrir nú sögunni til. Aðdragandinn verið nokkur og margir því viðbúnir högginu. En skaðinn er jafn mikill þó niðurstöðunni seinki. Flateyri er dæmigert sjávarþorp, liggur í faðmi hafs og fjalla, búið að verja það frá ógnum vetrarins og tengja það við lykilsvæði með göngum. Manni liggur við að spyrja, til hvers? Kvótaframsalið firrti bæinn atvinnurréttinum og angi sama kerfis rústaði smábátaútgerðinni með kvótasetningu ýsu og steinbíts fyrir nokkrum árum. Og enn spyr maður, til hvers? Nánast allir sjómenn viðurkenna að ekki sé hætta á ofveiði með krókaveiðum. Svo tala menn um byggðakvóta, byggðastofnun, ívilnanir og aðrar sértækar lausnir þegar við blasir að gefa strandveiðar einfaldlega frjálsar. Slík ráðsöfun hefði hugsanlega bjargað Eyrarodda um það hráefni sem vantaði. Hvaða hagsmuni er eiginlega verið að verja?
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.1.2011 | 02:51
LANDABRUGG Á VESTFJÖRÐUM.
Landi ríkissjónvarpsins er með því betra sem í boði er þessa dagana. Handboltinn toppar þó. Í kvöld bar Landann niður á norðvesturhornið og fólksfækkunina þar. Þegar fólk velur sér næturstað er að mörgu að hyggja. Fjölbreytni atvinnulífs og vinnuframboð hlýtur að vega þungt á metum, ennfremur aðstaða eins og skólar og heilsugæsla og síðan frístundaval, samgöngur og veður. Sá áratugur sem ég dvaldi vestra breyttist veður og samgöngur mjög til batnaðar. Aðstaða og frístundir féllu a.m.k vel að mínum smekk en skil þó yngra fólk að sækjast eftir nýjum straumum. Atvinnulífið og fjölbreytni þess hefur hinsvegar hrakað og það afgerandi. Atgervisflótti er mikill enda fábreytni í starfsvali. Sjávarútvegur skaffar flest störf en frystihúsvinnan heillar orðið fáa íslendinga og rek ég það til launa. Vestfirðir eru láglaunasvæði og hagvöxtur mestur þegar einhver fer. Atvinnuréttur til fiskveiða er enda svo dýru verði keyptur að flest ungmenni sjá hag sínum betur borgið í öðru. En gleymum því ekki að sjávarbyggðir vestfjarða risu á grundvelli fisknytja og þó fólkið fari eltir fiskurinn ekki. Hann spriklar á sínum stað. Bjargráð fjórðungsins er því almenn nyt af þessari auðlind. Flóknara er það ekki.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
16.1.2011 | 02:12
FRJÁLSAR STRANDVEIÐAR.
Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra telur strandveiðar hafa sannað gildi sitt. Held marga honum sammála og ég sjálfur í þeim hópi. En hvers vegna ætti ekki að ganga skrefið til fulls og gefa strandveiðar frjálsar? Slíkt myndi hafa í för með sér aukna verðmætasköpun fyrir þjóðina, auka atvinnu og blása lífi í sjávarbyggðirnar. Leiguoki smábátasjómanna yrði aflétt og hægt að búa til nýjan tekjustofn með sanngjörnu auðlindagjaldi sem tekið yrði jafnóðum af hverju lönduðu fiskkílói. Engin hætta er á ofveiði með krókadrætti og landlegur augljóslega tíðari en á stærri bátum sem þola meiri veður. Hvers vegna er þetta ekki gert? Er það vegna þess að kvótahafar þola ekki aðgengi að fiskimiðunum nema á þeirra forsendum? Sjá þeir á bak leigutekjum? Eru þeir kannski hræddir um að hagkvæmni smábátaútgerðar komi í ljós? Arfabúntið sem stórútgerðarmenn flagga að þjóðinni samanstendur af skuldsetningu, afskriftum og arðráni. Bankinn fær vextina, þeir arðinn og þjóðin ekki neitt. Hefðum við átt að hafna fæðingarorlofi á sínum tíma af tillitsemi við ömmurnar? Eða vera öll ennþá takandi á filmu vegna þeirra sem ættu slík tæki? Þó kvótakerfinu og sérlega þó kvótaframsalinu verði umbylt mun sjávarauðlindin ekki synda á brott heldur vera áfram til hagsældar og stuðla að framförum í greininni. Vandamál sjávarútvegs á íslandi er úrelt lénskerfi sem hamlar allri nýliðun og þar með nýsköpun. Telji núverandi handhafar veiðiheimilda þetta fjarstæðu ætti þeim að vera í lófa lagið að taka slaginn við strandveiðina og sýna þjóðinni allri snilld sína og framtak.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
15.1.2011 | 18:09
STJÓRNA HAGSMUNAAÐILAR LANDINU?
Öflugur fundur var haldinn í dag á Hótel Grand þar sem fylgismenn ríkisstjórnarinnar og aðrir áminntu hana um kosningaloforð varðandi fiskveiðistjórnun. Á bráðum tveggja ára valdaferli hefur yfirlýstri firningarleið ekki verið ýtt úr vör og svonefnd sáttanefnd skilað af sér tillögu sem samrýmist lítt breyttu eða óbreyttu fiskveiðistjórnunarkerfi. Hagsmunaaðilar sjávarútvegsins og forsvarsmaður samtaka atvinnulífsins haldast sem fyrr í hendur og leggja stein í götu ríkisstjórnarinnar. Og þá um leið í götu þjóðarvilja því varla er umdeilanlegt að ríkisstjórnin er réttmætlega kjörin. Fólkið í landinu kaus ekki LÍÚ til landstjórnar né Vilhjálm Egilsson, hvað þá þessa sáttanefnd. Fólkið kaus kosningaloforð ríkisstjórnarflokkanna og ekki seinna vænna en núna að fara að koma þeim í verk.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.1.2011 | 01:18
SANNLEIKURINN UM SENDIRÁÐIN.
Mörg, mörg umliðin ár hefur almenningur efast um gagnsemi sendiráða. Bikarsvartur almúginn sér lítinn tilgang í ofáti og kófdrykkju diplómata sem hvort sem er engu ráða. Rjómalag samfélagsins hefur haft aðra sýn á þetta kostnaðarsama fyrirbæri og talið það sjálfsagðan hlut í framgangi þjóða meðal þjóða. Umdeildur wikileaksvefur hefur nú sáldrað nýjum gagnaskammti á heimsbyggðina sem ýtir undir sjónarmið almúgans að afrakstur sendiráða sé ofmetinn. Enn ein vísbendingin háskólasamfélaginu til háðungar, samfélagi sem gjarnt er að hefja sig til skýjanna án innistæðu. Fræðimennska ætti vitanlega að vera af hinu góða en birgi hún sýn eðlislægrar náttúrugreindar er útkoman einatt sú að búnar eru til glæsihallir utan um ekki neitt og kallað fræðigrein. M.ö.o: Afhverju eru stjórnspekingar fyrst nú að grípa löngu ljósan sannleik um sendiráð og kurteisisheimsóknir diplómatískra skrautfugla? Sturla flutningabílstjóri Jónsson hefði getað sagt ykkur þetta fyrir lifandis löngu.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
13.1.2011 | 04:13
ORÐUVEITINGAR.
Kringum áramót hópast útvaldir íslendingar á Bessastaði og þiggja af forsetanum öðlun. Hengd eru barmmerki á fólkið og kallast riddarakross eða fálkaorða. Einatt eru þessar orðuveitingar fyrir störf eða dáðir í þágu samfélagsins og ekki man ég neinn sem fúlsað hefur við slíkri upphefð. Lengi hefur bloggara þótt þessi áramótaathöfn barn síns tíma en gleðji þetta einhverja mér að meinalausu. Minni þó á að nokkrir fremstu hrunverjanna skarta barmmerkjum forsetans fyrir snilld sína sem hlýtur að draga þó nokkuð úr slagkrafti þessara verðlauna. En úrkula sálum sem horfa löngunaraugum til Bessastaða er ekki í kot vísað á netinu, þar ku hægt að kaupa orður og axlapúða í tonnavís og næsta víst að íslenzk forfrömunartákn séu þar á meðal. Hæll.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)